Starfsmannahandbók

Að haldast í hendurVinnuveitendahlutverk sveitarstjórna.

Sem heild eru sveitarfélög á Íslandi einn stærsti vinnuveitandi landsins.  Þau eru líka oftast stærstu vinnuveitendur í hverju sveitarfélagi.  Starfsmenn sveitarfélagsins Ölfuss eru í kringum 170 og hefur farið stöðugt fjölgandi og er það m.a. vegna verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga þar sem verið er að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna, auk þess fjölgar starfsmönnum eftir því sem sveitarfélagið vex og þjónusta eykst.  Um 65% af skatttekjum sveitarfélagsins fara í launakostnað og á því sést að eitt meginhlutverk sveitarstjórnarinnar er  vinnuveitandahlutverkið.

Bæjarstjórn ber ábyrgð á mótun þeirrar starfsmannastefnu sem gilda á hjá sveitarfélaginu og þeim kjaraþáttum sem starfsmönnum sveitarfélagsins eru boðnir.   

Sveitarfélagið Ölfus hefur innleitt fjölskylduvæna starfsmannastefnu.  Markmiðið með fjölskylduvænni starfsmannastefnu er að hún skili okkur hæfari og ánægðari starfsmönnum.  Auk þess tekur starfsmannastefnan á öllum þáttum er snúa að sambandi starfsmanna sveitarfélagsins og stjórnenda þess.  Mannauður sveitarfélagsins er sá þekkingarauður sem býr í starfsmönnum þess, menntun þeirra, færni og viðhorfum.

Starfsmenn sveitarfélagsins mynda þann mannauð sem gæði og framkvæmd allra þátta hverrar skipulagsheildar  sveitarfélagsins byggist á.  Bæjarstjórn ber sem vinnuveitanda að viðhalda og efla mannauðinn eins og kostur er.  Það gerir bæjarstjórn með ýmsu móti, s.s. með því að skapa aðstæður fyrir starfsánægju, starfsþróun, símenntun og margt fleira sem  skilgreint er nánar í starfsmannastefnunni.

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?