Tilkynning frá Almannavörnum

 

Almannavarnanefnd Árnessýslu kom saman til fundar kl. 11:00 í morgun.  Á fundinn mætti Ágúst Gunnar Gylfason frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og var farið yfir stöðuna vegna goss í Eyjafjallajökli og hugsanlegar afleiðingar af því  í Árnessýslu.

Veðurspá er íbúum Árnessýslu hagstæð en ljóst er að ef vindátt snýst til austlægra átta mun verða hætta á öskufalli í sýslunni.  Áhrif öskufalls eru margvísleg og verður farið yfir þau hér á eftir.  

Greint var frá því í fréttum í gær að rykgrímum hafi verið dreift á heilsugæslustöðvar.  Þar getur almenningur nálgast þær ef þörf er á.  Rykgrímur sem notaðar eru í byggingariðnaði og fást í byggingavöruverslunum gera sama gagn og eins má vel bjarga sér með því að setja bara klút fyrir vitin.   Öndunargrímur þarf einungis að nota utanhúss þar sem öskufalls gætir.

Vatnsveitur í sýslunni eru vel búnar og kerfi þeirra lokuð.   Því er ekki talin hætta á að drykkjarvatn spillist.  Hafi einhverjir komið sér upp einkaveitu t.d. við sumarhús þarf að hafa í huga hvort aska geti borist í hana.   Upplýsingar og leiðbeiningar um vatnsveitur geta menn fengið hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. 

Áhrif á heilsu fólks:

Aska er samsett úr fínum ögnum og stærri ögnum. Vindátt og aðrar aðstæður ráða því hvar hún fellur.   Gosaska getur einnig haft áhrif á fólk en helstu einkenni eru frá:

Öndunarfærum:
Nefrennsli og erting í nefi
Særindi í hálsi og hósti
Fólk sem þjáist af lungnasjúkdómum, t.d. astma, getur fengið berkjubólgur sem varar í marga daga og lýsa sér í hósta, uppgangi   og öndunarerfiðleikum

Augum:
Gosaska getur ert augu einkum ef augnlinsur eru notaðar. Helstu einkenni eru:
Tilfinning um aðskotahlut
Augnsærindi, kláði, blóðhlaupin augu
Útferð og tárarennsli
Skrámur á sjónhimnu
Bráð augnbólga, ljósfælni

Ráðleggingar til fólks þar sem öskufalls gætir:
Nota öndunarfæragrímur utanhúss. Æskilegt að nota hlífðarföt.
Séu öndunarfæragrímur ekki tiltækar má nota vasaklút eða annan klæðnað sem heldur stærri ögnum frá
Ráðlagt að nota hlífðargleraugu
Börn og fullorðnir með öndunarfærasjúkdóma skyldi halda sig innanhúss

Atriði er varða búfjárhald: 

Öskufall:

Forða skepnum undan öskufalli. Hýsa þær eða flytja annað ef mögulegt er.

Tryggja skepnum  hreint drykkjarvatn. Kanna ástand vatnsbóla og sjá til þess að yfirborðsvatn berist ekki í þau. Hafa rennandi vatn hjá skepnum á útigangi.

Gefa skepnum á útigangi gott og mikið fóður, tryggja þeim aðgang að saltsteinum og halda þeim frá beit eins og kostur er. Gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að aska falli á fóðrið. 

Tryggja eftir föngum að aska berist ekki inn í gripahús.

Sama gildir um gæludýr og aðrar skepnur að mikilvægast er að forða því að þau drekki úr stöðnu vatni og halda þeim sem mest innandyra.

Flóðahætta:

Meta aðstæður og ákveða hvort skepnum sé betur borgið innanhúss eða utan.

Tryggja eftir því sem kostur er að skepnur á útigangi geti forðað sér undan flóði.

Slys eða sjúkdómar

Hafa samband við dýralækni ef skepnur slasast eða verða veikar. Reynt er að tryggja að dýralæknar komist þangað sem nauðsyn krefur. 

Loftræsting húsa / vinnustaða / stofnana:

Huga þarf að loftræstikerfum húsa / stofnana en síur í slíkum kerfum kunna að stíflast mjög fljótt ef aska er í því lofti sem tekið er inn.  

Áhrif á vélar:

Aska í lofti sest eðlilega í loftinntök bílvéla.  Hægt er að ryksuga úr loftsíum þeirra en huga þarf að því að skipta um síu ef það dugar ekki.   Fari aska inn á bílvél getur hún valdið tjóni á vélinni. 

Upplýsingar til almennings eru reglulega settar inn á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.   Sama á við um heimasíðu Embættis sóttvarnarlæknis, síðu Matvælastofnunar og síðu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.  Fólki er ráðlagt að leita sér upplýsinga þar ef spurningar vakna.

http://www.almannavarnir.is

http://www.mast.is/index.aspx?GroupId=505&TabId=511&NewsItemID=2312&ModulesTabsId=919

http://www.heilbrigdiseftirlitid.is/

Veðurstofa Íslands heldur utan um upplýsingar um gang gossins á heimasíðu sinni. 

https:// http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/greinar

  

Virðingarfyllst,

Oddur  Árnason
yfirlögregluþjónn
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?