Bjarg

Bjarg er námsver fyrir nemendur sem eiga erfitt með að stunda nám sitt alfarið inni í bekk. Nemendur er undir umsjón umsjónarkennara en stunda nám sitt að hluta til eða nálast alfarið i minni námshópi í sér stofu undir leiðsögn þroskaþjálfa, íþróttakennara og stuðningsfulltrúa. Með þessu er leitast við að veita nemendum með sérþarfir, námshvatningu og atferlismótandi námsumhverfi við hæfi. Jafnframt eru nemendur Bjargs hvattir til jákvæðra samskipta og leitast er við að gera skólagönguna ánægjulega og árangursríka.

Nemendur fylgja sérstakri myndrænni stundaskrá og verkefnin eru unnin í styttri lotum með tilbreytingu á milli. Bjarg er heimastofa nokkurra nemenda sem sækja síðan einnig tíma með sínum bekk eða með ákveðnum hópi eftir því sem geta þeirra leyfir. Þrátt fyrir sérúrræði taka flestir nemendur fullan þátt í öðru skólastarfi og fá tækifæri til að sýna ábyrga framkomu í leik og starfi. Litið er á úrræðið sem tímabundið en lokamarkmiðið er  að nemendur miði áfram og komi til með að taka sífellt aukinn þátt í almennu bekkjarstarfi.

Í Bjargi er unnið eftir gagnreyndum aðferðum, meðal annars hugmyndafræði um Skipulagða kennslu, sem er viðurkennd aðferð í kennslu vegna nemenda á einhverfurófi og þeim sem glíma við hegðunar- og námserfiðleika sem og þroskafrávik. Ávinningurinn við að beita þessari kennsluaðferð er að nemendur öðlist betri einbeitingu og úthald í verkefnum og nái betri sjálfsstjórn. Bjarg nýtist einnig þeim nemendum sem þurfa að vera í nokkra tíma í viku eða í stuttan tíma yfir skólaárið til að þjálfa til dæmis félagsfærni en eru að öðru leyti inni í bekk.