Síðustu vikur höfum við verið að safna margskonar fræjum, fitu og þurrkuðum ávöxtum í leikskólanum og svo í dag hófumst við handa við að útbúa heimagert fuglafóður. Við skárum fersk epli og fengum hafragraut úr eldhúsinu og svo völdu börnin hráefni í skál og bættu fitu saman við og hrærðu svo kröftuglega í öllu og settu í muffinsform. Síðan þarf að kæla þetta niður og þá harðnar fitan og verður að flottum frækökum. Næstu daga förum við í gönguferðir og finnum hentuga staði í bænum til að hengja kökurnar upp í tré og vonandi kunna fuglarnir að meta þetta góðgæti frá okkur. Það verður spennandi að fylgjast með því.