Okkar vikulega ganga á Nesið er alltaf beðið með eftirvæntingu og spennu á meðal barnanna. Við tókum með okkur nesti og annan útbúnað til að rannsaka umhverfið. Við ætluðum að athuga hvort við sæjum fleiri fugla eða blóm í þessari ferð.
Börnin eru mjög upptekin að leita að holum og spennan felst í því að finna eitthvað dýr sem býr í holunni. Í þessari ferð voru þau viss um að það væri ormur í holunni, heil ormafjölskylda jafnvel. Það er nóg pláss fyrir ímyndunaraflið á meðal barnanna til að búa til sögur um holubúa á Nesinu.
Í þessari ferð tókum við stækkunargler með okkur. Börnin skiptust á að skoða umhverfið í gegnum glerið, þau skoðuðu lyng, fjöður, nestið sitt og svo auðvitað holurnar, kannski sjá þau orminn ef þau nota stækkunarglerið.