Úti-jóga

Allir krakkarnir á Tröllaheimum fara í jóga um það bil einu sinni í viku. Jóga hefur mjög góð áhrif á líkamlega og andlega heilsu einstaklinga, gefur einstaklingum tækifæri til að tengjast líkama sínum og veitir hugarró.

Þar sem veðrið hefur leikið við okkur síðustu daga og vikur höfum við fært jógað út. Við byrjum alla tíma á að kjarna okkur. Þar róum við hugan, öndum djúpt og komum okkur fyrir. Eftir það er misjafnt hvað við gerum. Oftast gerum við sólarhyllinguna og förum með ákveðna vísu og gerum æfingar með. Mörg barnanna eru farin að læra vísuna

 

Ég stend kyrr eins og fjall

Ég sveifla í hringi höndunum, stappa niður fótunum,

ég beygi mig niður, set hendur í gólf, fer svo í hundinn og tel upp á tólf (talið upp á 12). 

Ég breytist í ljón og öskra hátt (öskrað) hendur og fætur ég teygi langt.

Hér fel ég mig (smá bið í músinni) svo kíki ég á þig. 

Nú stend ég upp og segi óm.

Ég sveifla höndum og í hring ég hoppa, læt eins og kjáni þar til ég stoppa.

 

Einnig höfum við verið að syngja möntrur sem hafa mjög róandi áhrif á okkur. Vinaæfingar eru alltaf vinsælar og kenna börnum samvinnu, samskipti og virðingu. Við endum alla jógatíma á slökun. Það getur verið steinaslökun þar sem börnin fá einn stein hvert sem ritað er á eitthvað orð eins og vinátta, hugrekki, virðing, umhyggja, knús, mamma, pabbi og þar fram eftir götunum. Orðinu er hvíslað að þeim og þau eiga að hugsa um orðið á meðan við hlustum á lag eða bara á þau hljóð sem eru í kring um okkur. Svo ræðum við orðin eftir á. Einnig höfum við haft slökun þar sem við hlustum á hljóðin í kring um okkur, eða erum með róandi tónlist. Einnig hef ég verið með líkamsskönnun þar sem við finnum fyrir öllum líkamanum (nú skuluð þið slaka á í tánum, svo hnjánum o.þ.h.). 

Slökun og hugarró er mikilvæg í daglegt amstur nútíma samfélags þar sem kröfurnar og áreitið er mikið. 

Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi jógað getið þið haft samband við Hrafnhildi inni á deild eða í tölvupósti: hrafnhildur@olfus.is

 

Kv. Hrafnhildur