- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar/forráðamenn
- Stoðþjónusta
- Myndir
- Matseðill
- Gagnlegt efni
Í desember ákváðu nemendur í 4.bekk ásamt umsjónarkennara sínum að taka þátt í jóladagatali SOS Barnaþorpanna og í ár var safnað fyrir verkefni í Tógó. Verkefnið hófst í mars 2020 og er til þriggja ára. Verkefninu er ætlað að berjast gegn ofbeldi og kynferðislegri misneytingu á börnum, þá sérstaklega stúlkum þar í landi. Verkefnið nær til 40.000 íbúa á svæðinu auk þess sem 640 barnafjölskyldur fá sérstakan stuðning.
Öll börn eiga sömu réttindi, sama hvar þau búa. Börn um allan heim fæðast með sömu getu og hæfileika til að blómstra en stundum hefur umhverfið sem þau alast upp í áhrif á tækifæri þeirra. Aðal tilgangur dagatalsins og þátttöku okkar var að fræða nemendur um rétt barna og kynna þeim Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við gægðumst inn í líf barna víðs vegar um heiminn og kynntumst menningu þeirra og aðstæðum. Börnin komu frá Kenía, Sarajevó, Líberíu, Bosníu Hersegóvínu, Sýrlandi, Rússlandi og Eþíópíu. Við sáum að þó svo að það væri ýmislegt ólíkt því sem við þekkjum þá er líka margt líkt. Dagatalið kenndi okkur að við getum öll hjálpað þó okkur finnist við lítið geta gert, þá sannaði það sig að margt smátt gerir eitt stórt. Nemendur voru hvattir til að aðstoða heima með ýmis verkefni, t.d. vaska upp, þurrka af, fara út með ruslið eða eitthvað annað sem sannarlega þarfnast aðstoðar heima fyrir jólin. Á þennan hátt upplifðu nemendur að þeir hafi sjálfir lagt eitthvað af mörkum, með eigin vinnuframlagi fyrir SOS Barnaþorpin. Það var svo undir hverri fjölskyldu komið hvort hún vildi styrkja verkefnið með peningaupphæð. Nemendur söfnuðu alls 21.000 krónum fyrir verkefnið í Tógó með því að gefa af sér og og höfum við fengið viðurkenningarskjal fyrir og þakklæti er efst í huga.
Það var yndislegt að sjá og finna áhuga nemenda á verkefninu. Daglega opnuðum við glugga sem innihélt fróðleik og myndband um líf baranna í SOS Barnaþorpunum og umræðurnar sem sköpuðust kenndu okkur margt. Öll börn eiga rétt á öruggu heimili.
Frekari upplýsingar um verkefnið má sjá í linknum hér að neðan.
https://www.sos.is/um-sos/frettir/almennar-frettir/islenskt-verkefni-i-togo-ber-arangur/
Kærleikskveðja 4.bekkur, Anna Kristín og Bogga.