Fríríkið Þorpið

Grunnskólinn í Þorlákshöfn breyttist í fríríkið Þorpið dagana 22.-24. maí. Þorpið er samfélag þar sem börn og ungmenni sjá um alla verðmætaframleiðslu, stjórna hagkerfinu og láta hjól atvinnulífsins snúast áfram. Þorpið á sinn eigin gjaldmiðil sem heitir Þollari.

Föstudaginn 24. maí opnaði Þorpið fyrir gesti og gangandi. Þá gátu allir sem vildu keypt sér gjaldmiðil Þorpsins, Þollara og gert kostakaup í verslun og þjónustu.

Allir nemendur skólans sóttu um vinnu hjá því fyrirtæki sem þau höfðu mestan áhuga að starfa í. Um 17 fyrirtæki voru í Þorpinu þetta árið. Nemendur unnu sér inn Þollara með því að mæta þessa tvo daga og starfa á sinni stöð. Þollarana notuðu þau svo til að kaupa sér vörur frá öðrum fyrirtækjum á opnunardeginum. Í Þorpinu var margt skemmtilegt hægt að gera, m.a. að vinna á blómastöð, kaffihúsi, nytjamarkaði, sultugerð, listasmiðju, bakarí svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta er fjórða skiptið sem Þorpið er haldið hér í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Fyrsta árið var 2017 síðan 2019 og svo 2022. Hugmyndafræði Þorpsins er byggð á sömu forsendum og Barnabær hjá Barnaskóla Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þrátt fyrir rok og rigningu þá var mikill fjöldi mættur strax og Þorpið opnaði. Flest fyrirtækin náðu að selja allar sínar vörur.