Heimsóknardagur í skólanum

Þriðjudaginn 4. febrúar var heimsóknardagur í skólanum samkvæmt skóladagatali. Foreldrar komu í heimsókn með börnum sínum og fengu innsýn í þau verkefni og viðfangsefni sem nemendur eru að vinna að í skólanum.

Dagurinn kom í stað hefðbundinna nemendasamtala og gaf nemendum tækifæri til að kynna sjálfir fyrir foreldrum sínum það sem þau hafa verið að læra og hver markmið námsins eru. Kennarar voru til taks í sínum kennslustofum og ræddu við foreldra og nemendur um námið.

Einnig var 10. bekkur með morgunverðarsölu til styrktar útskriftarferð sinni í vor. Boðið var upp á eggjahræru, beikon, pönnukökur, bakaðar baunir, ávexti, djús og kaffi. Morgunverðarsalan heppnaðist afar vel og var góð þátttaka í henni.

Við þökkum foreldrum fyrir komuna og vonum að dagurinn hafi verið bæði skemmtilegur og gagnlegur fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans.