Stóra upplestrarkeppni 7. bekkjar

Í dag héldu grunnskólarnir í Hveragerði og Þorlákshöfn lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar 2024. Þetta er í fjórða sinn sem þessir skólar halda hátíðina saman. Verkefnið, Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk á orðið fastan sess í íslensku skólastarfi um allt land. Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta. Ræktunarhlutinn hefst á degi íslenskrar tungu 16. nóvember ár hvert og er þá lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk. Í hátíðarhlutanum fara svo fram undankeppnir í skólunum þar sem nemendur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Svo lýkur þessu með lokahátíð sem þessari hér í dag. Nemendur stóðu sig ákaflega vel í dag og var greinilegt að þau höfðu æft vandaðan upplestur. Í fyrsta sæti varð Hera Fönn Lárusdóttir Grunnskólanum í Hveragerði, í öðru sæti Sigurður Elí Vignisson Grunnskólanum í Hveragerði og í þriðja sæti varð Emma Rós Sindradóttir Grunnskólanum í Þorlákshöfn.