- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar/forráðamenn
- Stoðþjónusta
- Myndir
- Matseðill
- Gagnlegt efni
Fimmtudaginn 31. ágúst lögðu nemendur í 8. og 9. bekk af stað í dagsferð í Þórsmörk. Ferðin var í boði Kiwanisklúbbs Þorlákshafnar, sem greiðir allan kostnað við ferðina með ágóða af jólaskókassaverkefni klúbbsins.
Tilgangur ferðarinnar er að styðja við unglingana okkar á góðan og uppbyggilegan hátt. Þetta er fimmta haustið sem Kiwanismenn bjóða nemendum í ævintýraferð af þessu tagi. Í fyrra var farið í Landmannalaugar. Fyrirhugað er að fara annaðhvort ár í Þórsmörk og hitt árið í Landmannalaugar. Þannig eiga allir nemendur sem útskrifast úr skólanum að hafa fengið tækifæri til að heimsækja þessar náttúruperlur.
Farið var frá skólanum um klukkan átta og komið heim um kvöldmat. Ferðin tókst vel enda skartaði náttúran sínu fegursta og veðrið var dásamlegt. Kiwanismenn reiddu fram mat og drykk í hádeginu sem og grillveislu í lok dags þegar nemendur komu þreyttir og svangir úr gönguferð.
Óhætt er að segja að ánægðir nemendur hafi snúið heim í lok dags. Kiwanismenn eiga þakkir skyldar fyrir höfðinglegt boð.