Fundargerðir

Til bakaPrenta
Skipulags- og umhverfisnefnd - 75

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
19.06.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Geir Höskuldsson formaður,
Hjörtur S. Ragnarsson varaformaður,
Björn Kjartansson 2. varamaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Sigmar Björgvin Árnason sviðsstjóri,
Sigurður Steinar Ásgeirsson Skrifstofu- og verkefnastjóri, Kristina Celesova starfsmaður skipulags,-bygg.- og umhverfissviðs.
Fundargerð ritaði: Sigurður Steinar Ásgeirsson, Skrifstofu- og verkefnastjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2309035 - ASK Meitlar og Hverahlíð II - Aðalskipulagsbreyting vegna rannsóknaboranna
Lögð er fram breyting á aðalskipulagi á landsvæði innan lands Hjallatorfu ofan fjalls. Breytingin felur í sér að stofnað er iðnaðarsvæði fyrir rannsóknar og vinnsluboranir í Hverahlíð II og Meitlum. Markmið rannsóknarborananna er að kortleggja jarðhitaauðlindir utan núverandi vinnslusvæða. Breytingin byggir á skipulagslýsingu sem var samþykkt af skipulags- og umhverfisnefnd í nóvember 2023.
Afgreiðsla: Á blaðsíðu 17 í skipulaginu er sýndur uppdráttur með væntum vinnslusvæðum. Á uppdrættinum má sjá að vinnslusvæði eru komin vel inn á grannsvæði vatnsverndar ólíkt því sem kemur fram í greinargerð þar sem sagt var að þau ná "mögulega" inn á grannsvæði vatnsverndar. Nefndin kallar eftir því að fá kynningu á þessu atriði frá OR.
2. 2406003 - Mölunarverksmiðja Heidelberg í Ölfusi - minnisblað Skipulagsstofnunar
Lagt er fram minnisblað Skipulagsstofnunar vegna þeirrar stöðu sem er komin upp í kjölfar athugasemda First Water varðandi tilkomu hafnar og mölunarverksmiðju á Laxabraut. Sérstaklega er fjallað um mögulegan stjórnsýslulegan farveg þar sem umræddar athugasemdir komu ekki fram fyrr en umhverfismatsferli mölunarverksmiðjunnar lauk með áliti Skipulagsstofnunnar þann 6. maí 2024.
Í áliti Skipulagsstofnunar er bent á að það sé í verkahring Sveitarfélagsins Ölfus sem leyfisveitanda að veita framkvæmdarleyfi fyrir meiriháttar framkvæmdum sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess í samræmi við lög nr. 111/2021. Þá er einnig bent á að þar sem framkvæmdaleyfi sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1.gr. stjórnsýslulaga sé afar mikilvægt að fylgja reglum þessara laga ítarlega. Er þar sérstaklega vísað til rannsóknareglunnar í 10.gr. sem felur það í sér að:
"...stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því."
Þá segir:
"...hafi ekki verið fjallað um tiltekin atriði í umhverfismatsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar um hana eða ekki fjallað með fullnægjandi hætti um þessi atriði í umræddum skjölum leiðir af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga...að Sveitarfélaginu Ölfuss ber að sjá til þess að liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um þessi atriði áður en framkvæmdaleyfi verður veitt."

Fulltrúar skipulagsstofnunar munu koma fyrir fundinn til að svara spurningum nefndarinnar. Þá er lögð fram tillaga að áætlun, hvernig ferlið gæti verið sett upp fram að íbúakosningu.

Afgreiðsla: Þó svo athugasemdir fyrirtækisins First Water hafi ekki komið fram fyrr en eftir að umhverfismatsferli væri lokið, ber að líta til þess fyrirtækið verður einn stærsti atvinnurekandi í sveitarfélaginu hingað til og telur sveitarfélagið því mikilvægt að athugasemdir séu teknar til skoðunar og spurningum fyrirtækisins sé svarað eins vel og kostur er. Í samræmi við minnisblað Skipulagsstofnunar og með áherslu á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga er það ákvörðun Skipulags- og umhverfisnefndar að afla frekari gagna vegna fullnaðarfrágangs:
1. Mölunarverksmiðja og höfn ? Aðalskipulagsbreyting (mál 1061/2023 í skipulagsgátt)
Tillagan lýtur að aðalskipulagsbreytingu skv. 31. gr. laga nr. 123/2010 fyrir iðnaðar og hafnarsvæði austan byggðar í Þorlákshöfn. Hámark byggingarmagns á reit I3 er aukið úr 540.000 m2 í 1.040.000 m2. Þá er nýju hafnarsvæði bætt við sem nefnist H4.

2. Mölunarverksmiðja og höfn - nýtt deiliskipulag (mál 875/2023 í skipulagsgátt)
Tillagan lýtur að nýju deiliskipulagi skv. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 123/2010, fyrir mölunarverksmiðju og höfn á Laxabraut 43A og 43B. Mölunarverksmiðja samanstendur af fjölbreyttum byggingum með mismunandi hlutverk. Á hafnarsvæðinu er gert ráð fyrir hafnaraðstöðu með krana, mannvirkjum, athafnasvæðum, færiböndum og öðrum innviðum fyrir rekstur og þjónustu hafnarinnar.

Með hliðsjón af þessu felur nefndin starfsmönnum sínum að kalla eftir því að First Water leggi fram á formlegan máta þær mótuðu og málefnalegu ástæður sem lágu til grundvallar bréfi forstjóra dagsettu 15. maí sl. Þannig er sérstaklega óskað eftir því að lagðar verði fram þær athugasemdir sem First Water hefur við mál 1061/2023 í skipulagsgátt og mál 875/2023 í skipulagsgátt en fyrir liggur að bæjarstjórn hefur ákveðið að þær fái ekki framgang nema að undangenginni íbúakosningu. Verði þess farið á leit að fyrirtækið skili athugasemdum fyrir lok júnímánaðar svo stefna megi að því að íbúakosning verði svo haldin að hausti 2024.
3. 2402082 - Stóragerði ASK
Lögð er fram aðalskipulagsbreyting fyrir Stóragerði ÍB18. Bætt er við einni íbúðarlóð og núverandi vatnsbóli bætt við aðalskipulag.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa breytinguna og ganga frá málinu í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr 123/2010.
4. 2406026 - Bakkamelur íbúasvæði ASK
Lögð er fram skipulagslýsing vegna aðalskipulagsbreytingar fyrir landið Bakkamel, reit ÍB30 í aðalskipulagi. Skipulagssvæðið verður stækkað úr 28 í 48 Ha og hámarks íbúðamagn aukið úr 25 í 95.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa skipulagslýsinguna í samræmi við 40 gr. skipulagslaga nr 123/2010. Bent er á að nauðsynlegt verður að áfangaskipta skipulaginu þegar deiliskipulag verður lagt fram þar sem hámark 25 íbúðir verða í hverjum áfanga. Þá er minnt á að byggðir af þessari stærð þurfa að uppfylla tæknilýsingu Ölfus sem finna má á vefsíðu sveitarfélagsins.
5. 2401044 - Grímslækjarheiði ASK
Lögð er fram aðalskipulagsbreyting vegna íbúðarbyggðar Ytri-Grímslækjar ÍB17 þar sem fyrirhugað er að fjölga íbúðum úr 19 í 25 að ósk landeigenda. Innan skipulagssvæðisins er lóðir á svonefndri Grímslækjarheiði; Sögusteinn 1 (L231059), Sögusteinn (L172269), Ytri-Grímslækur lóð (L195678) og Hraunkvíar (L172270), Ytri-Grímslækur lóð (L175678) og Efri-Grímslækur land (L203017).
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa breytinguna og ganga frá málinu í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr 123/2010. Nefndin bendir á að með skipulaginu stækkar vatnsverndarsvæði inná aðliggjandi lóð. Skipulagsfulltrúa er falið að upplýsa viðkomandi landeiganda sérstaklega um skipulagið.
6. 2402055 - Breyting á Aðalskipulagi - landfylling á hafnarsvæði
- Endurkoma eftir athugasemdaferli
Skipulagið var auglýst og fór í athugasemdaferli í skipulagsgátt en því ferli er nú lokið. Samtals bárust 134 umsagnir meðan á umsagnartíma stóð sem myndi teljast mikið, allavega það mesta sem sést hefur vegna skipulaga í Ölfusi frá því skipulagsgátt var tekin í notkun.
Í flestum þeim umsögnum sem bárust er því mótmælt að landfylling verði sett á þennan stað. Rökstuðningur í umsögnum er að mestu samhljóða en almennt er því mótmælt að landfylling fái fram að ganga af þeim sökum að slík framkvæmd myndi hafa verulega neikvæð áhrif á brimbrettaöldu eða jafnvel eyðileggja hana alveg.
Ljóst er að stór hluti fólks hefur áhyggjur af því að landfyllingin myndi valda óafturkræfum skaða á útivistarsvæði sem nýtt er til brimbrettaiðkunar. Við ákvörðun í slíku máli þarf sveitarfélagið að meta heildarhagsmuni sveitarfélagsins sjálfs, íbúa sveitarfélagsins og svo annarra aðila sem skipulagið snertir.
Þá ber að hafa í huga að umbætur á hafnarsvæðinu er gríðarlega mikilvægt verkefni fyrir atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Höfnin er mikilvæg undirstaða atvinnulífs Þorlákshafnar og grunnurinn að þróun byggðar á svæðinu.Fyrirhuguð landfylling er veigamikill þáttur í því að efla hafnarsvæðið og þá atvinnustarfsemi sem þar er starfrækt.
Í málinu virðist sem svo að hagsmunir hafnarinnar annars vegar og brimbrettaiðkenda hins vegar stangast á.
Í umsögn brimbrettafélags Íslands er vísað til minnisblaðs sem unnið var fyrir félagið af dönsku verkfræðistofunni DHI. Í minnisblaðinu er tekið sérstaklega fram að mat á brimbrettaöldu taki almennt um 3-8 vikur og feli í sér ítarlega gagnasöfnun. Höfundur minnisblaðsins hafi takmörkuð gögn og aðeins haft 3 daga til að vinna minnisblaðið. Taka verði tillit til þess við túlkun niðurstaðna.
Í minnisblaðinu kemur fram að höfundur þess telur hættu á að landfyllingin hafi áhrif á brimbrettaöldu og mælist til þess að ráðist verði í frekari greiningar.
Í málinu liggur einnig fyrir minnisblað Portum verkfræðistofu áhrif landfyllingarinnar á brimbrettaöldu sem sveitarfélagið lét gera á síðasta ári. Í ljósi þeirra mörgu umsagna sem borist hafa fékk sveitarfélagið verkfræðistofuna til að rýna málið betur og eftir atvikum uppfæra minnisblaðið með tilliti til framkominna athugasemda, meðal annars með því að leggja fram nánari lýsingu á aðferðafræði og bæta við myndskýringar.
Niðurstaða Portum verkfræðistofu er sú áhrif landfyllingar yrðu óveruleg á öldufar. Lagt er þó til að landhluti garðs verði gerður meira hornrétt á strönd til að minnka líkur á að endurkast fari beint á móti öldu.
Niðurstöður minnisblaðanna frá Portum annars vegar og DHI hinsvegar eru ekki samhljóma og komast höfundar að öndverðri niðurstöðu. Í minnisblaði DHI er niðurstaðan sú að hætta sé á að landfyllingin hafi verulega neikvæð áhrif á brimbrettaöldu meðan niðurstaða minnisblaðs Portum er að áhrif á brimbrettaöldu verði óveruleg.
Minnisblað Portum var unnið upp úr öldufarsgreiningum sem unnar voru af Vegagerðinni árið 2021 og sýnir minnisblaðið úr öldufarslíkani hvar aldan byggist upp. Í minnisblaði DHI er ekki stuðst við greiningar á öldufari. Að auki eru landfyllingin sem sýnd er á uppdrætti í minnisblaði DHI ekki í samræmi við raunverulegar áætlanir.
Eftir skoðun minnisblaðanna tveggja er það mat sveitarfélagsins að minnisblað Portum byggi á greinarbetri gögnum en minnisblað dönsku verkfræðistofunnar DHI. Þá ber að horfa til þess fyrirvara sem kemur fram í upphafi danska minnisblaðsins þar sem höfundur þess tilgreinir að niðurstaða þess sé einungis eins konar forkönnun en ekki endanleg niðurstaða.
Þegar myndir eru skoðaðar úr minnisblaði Portum verkfræðistofu má greina betur það svæði sem aldan fer um og hvernig landfyllingin myndi líta út í samanburði við ölduganginn. Á loftmyndum má einnig sjá hvernig landfyllingin mun vera staðsett á grynningum sem þegar innihalda mikið af stórgrýti.
Að báðum minnisblöðum virtum og með tilliti til loftmynda og öldufarsteikninga úr minnisblaði Portum verkfræðistofu er það mat sveitarfélagins að líkur á að landfylling að þessari stærð hafi áhrif á brimbrettaöldu séu hverfandi. Minnisblað verkfræðistofunnar DHI virðist hafa verið unnið upp úr mjög takmörkuðum gögnum sem erfitt er að draga veigamiklar ályktanir út frá. Ef farið yrði að tillögu Portum varðandi að lega varnargarðs yrði formuð meira hornrétt á strönd svo endurkasti sé beint upp í fjöru fremur en aftur út í átt að upptökum öldu, myndu líkindi á að aldan raskist minnka enn frekar.
Brimbrettaiðkendur hafa lagst hart gegn fyrirhugaðri landfyllingu og bera því við að hún muni hafa veruleg áhrif á brimbrettaölduna og jafnvel eyðileggja með öllu möguleika til að stunda brimbrettaiðkun á þessu svæði. Í ljósi þess sem fram hefur komið hefur Sveitarfélagið leitast eftir að greina hver raunveruleg áhætta sé á að umrædd brimbrettaalda spillist við landfyllinguna. Á móti kemur mjög brýn þörf hafnarinnar og samfélagsins fyrir aukið athafnasvæði.
Sveitarfélagið tekur undir það með brimbrettaáhugafólki að það væri mjög miður ef ekki yrði mögulegt að stunda brimbrettaiðkun á svæðinu, sér í lagi í ljósi þess mikla áhuga sem brimbrettaáhugafólk hefur sýnt á svæðinu og þeirra mörgu athugasemda sem bárust um skipulagið. En eftir yfirferð gagna er það mat sveitarfélagsins að hætta á því að brimbrettaaldan spillist sé ekki eins veruleg og brimbrettaiðkendur óttast. Þá ber að líta til þeirra verulegu hagsmuna sem fólgnir eru í eflingu hafnarinnar og þeirra brýnu þarfar sem er um aukið athafnasvæði við bryggju fyrir höfnina.
Við ákvarðanatöku í skipulagsmálum vegast oft á mismunandi hagsmunir. Með hliðsjón af heildarmati á öllum áhrifaþáttum er það niðurstaða Sveitarfélagsins Ölfus að umrædd breyting á aðalskipulagi skuli samþykkt.
Að þessu sögðu er þó lagt til að farið verði að þeim tillögum sem komu fram í minnisblaði Portum um formun landfyllingarinnar verði með þeim hætti að hætta á endurkasti öldu verði haldið í lágmarki.

Afgreiðsla: Málið var tekið til atkvæðagreiðslu á fundinum. Fulltrúar D lista greiddu atkvæði með tillögunni. Hrönn Guðmundsdóttir greiddi atkvæði á móti, Vilhjálmur Baldur Guðmundsson sat hjá.

Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 3. málsgrein 30. greinar og 2. málsgrein 32. greinar skipulagslaga nr 123/2010.
7. 2406050 - Laxabraut 15-29 Landeldisstöð First Water DSK
First Water leggja fram tillögu að deiliskipulagi fyrir Laxabraut 15-29 sem mun nefnast Laxabraut 15-23 eftir gildistöku skipulagsins. Skipulagið er í samræmi við lóðaskipulag á svæðinu sem lagt hefur verið fyrir nefndina til kynningar.
Afgreiðsla: Í ljósi þess hve viðamikið mál er um að ræða kallar nefndin eftir því að fá kynningu á skipulaginu frá skipulagshöfundi. Skipulagsfulltrúa er falið að óska eftir slíkri kynningu frá First Water á næsta fundi.
8. 2305039 - DSK Hótel og tengd starfsemi í Hafnarvík v Leirur í Þorlákshöfn - Golfvöllur
Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi fyrir hótel með heilsulind og veitingahús. Svæðið sem um ræðir er óbyggt svæði innan þéttbýlismarka Þorlákshafnar, u.þ.b. 2,5 km austan við miðbæinn. Fyrirhuguð stærð hótels er allt að 120 herbergi með áætluðum fjölda gistirúma allt að 250. Starfsmannafjöldi verður allt að 20.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr 123/2010.
9. 2403002 - Hellisheiðarvirkjun br. DSK nr. 20
-Endurkoma eftir athugasemdaferli
Engar athugasemdir bárust frá umsagnaraðilum á athugasemdatíma. Ábending kom frá UST um að fjalla þurfi um áhrif á vatnshlot. OR leggja einnig fram lítillega breytingu á texta skipulagsins á þann veg að niðurgrafin skiljuvatnslögn geti verið hvoru megin sem er meðfram gamla þjóðveginum, ekki bara sunnan megin við. Eftirfarandi skýring barst frá OR.
Breyting á deiliskipulagi fellst annarsvegar í því að afmörkun hluta af borteig X við skiljustöð 2 er breytt til að koma fyrir nýrri vinnsluholu sem rúmast ekki innan núverandi afmörkunar vegna landslags og lagna. Stærð borteigs er óbreytt og eftir sem áður er heimild fyrir einni nýrri vinnsluholu. Þar sem aðeins er verið að hliðra afmörkun svæðisins er ekki talið áhrif verði á vatnshlot svæðisins.
Hinsvegar fellst breyting á deiliskipulagi í lítilli dælustöð sem er innan skilgreind iðnaðarsvæðis í aðalskipulagi og við núverandi lagnasvæði. Einnig er gert ráð fyrir færslu á niðurgrafinni skiljuvatnslögn en eftir sem áður verður lögnin meðfram núverandi vegum. Framkvæmdir við litla dælustöð og færsla á legu lagnar sem þegar er skilgreind í deiliskipulagi eru umfangslitlar og ekki taldar hafa áhrif á vantshlot svæðisins.
Varðandi að orðalagi sé breytt þannig að niðurgrafin skiljuvatnslögn geti verið hvoru megin sem er meðfram gamla þjóðveginum en ekki bara sunnan vegarins á uppdrættinum er að þegar tillaga að deiliskipulagsbreytingu var lögð fram var ekki byrjað að hanna lögnina. Nú er hönnunarferlið hafið og við þá vinnu hefur komið í ljós að mögulega hentar betur að hafa lögnina norðan gamla þjóðvegarins að hluta eða öllu leyti.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010.
10. 2405173 - Umsókn um deiliskipulag -eða breytingu
Lögð er fram breyting á deiliskipulagi fyrir lóð skíðaskálans í Hveradölum. Meginbreyting tillögunar felst í því að stærð og lögun byggingareita 04, 05 og 06 hefur verið breytt á teikningu og reit 07 hefur verið bætt við. Ný hótelbygging kemur á reit 06 og þjónustubyggingar færast yfir á reit 04. Bílastæði eru flutt frá miðsvæði að Suðurlandsvegi til að minnka áhrif þeirra á svæðið og nýta betur miðsvæðið.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr 123/2010.
11. 2406009 - Háagljúfur 5,7 og 10 - stofnun lóðar
Lagt er fram Lóðarblað fyrir lóðirnar Háagljúfur 5, 7 og 10 og beiðni um stofnun lóðanna.
Afgreiðsla: Stofnun lóða samþykkt með fyrirvara um að afla þarf samþykki aðliggjandi lóðarhafa auk þess að leggja þarf fram útfyllt eyðublað F-550.
12. 2406010 - Vesturbakki 12 - breyting á stærð lóðar
Lögð er fram beiðni um stækkun lóðar að vesturbakka 12 skv. meðfylgjandi lóðarblöðum. Deiliskipulag vegna stækkunarinnar hefur þegar verið samþykkt.
Afgreiðsla: Stækkun lóðar samþykkt.
13. 2406017 - Vindmælingarmastur við Nesjavallaveg - umsókn um framkvæmdaleyfi
OR sækja um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda og reisingar vindmælingamasturs á sunnanverðri Mosfellsheiði um 1 km sunnan Nesjavallavega, auk aðkomuslóða frá Nesjavallavegi. Mastrið verður 125m hátt og mun að hámarki standa í 2 ár meðan vindmælingar standa yfir.
Afgreiðsla: Framkvæmdaleyfi veitt
14. 2406018 - Árhvammur - vilyrði fyrir stofnun lóðar
Borist hefur erindi frá einstaklingi sem hefur hug á að reisa einbýlishús á lóðinni Árhvammi, við Varmá. Lóðin er á landi í eigu íslenska ríkisins en er hluti af skipulagssvæði Ölfuss á reit nr OP7 í aðalskipulagi. Gera þyrfti breytingu á aðalskipulagi svo heimilt væri að skipuleggja þarna íbúðarhús þar sem aðalskipulag gerir ekki ráð fyrir byggingum á svæðinu.
Afgreiðsla: Nefndin leggst almennt ekki gegn því að aðalskipulagi svæðisins yrði breytt ef landeigandi óskar eftir því. Nefndin kallar þó eftir því að landeigandi hugsi svæðið í heild ef kæmi að skipulagsbreytingu. Nefndin gerir einnig þann fyrirvara að sjá hvernig tillaga að deiliskipulagi liti út áður en fallist yrði á uppbyggingu.
15. 2406022 - Umsókn um framkvæmdaleyfi - rannsóknarboranir í Meitlum
OR sækja um framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknarboranir í Meitlum. Framkvæmdaleyfisumsóknin byggir á deiliskipulagi sem birt var í stjórnartíðindum þann 10. maí sl.
Afgreiðsla: Framkvæmdaleyfi veitt
16. 2406024 - Selvogsbraut 12 - stækkun verslunar DSK
Lögð er fram deiliskipulagsbreyting vegna sameiningar lóða og stækkunar á verslun við Selvogsbraut 12. Deiliskipulagið byggir á hugmyndum sem lagðar voru fyrir skipulagsnefnd á síðasta fundi.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr 123/2010.
17. 2406025 - Nýtingarleyfi fyrir jarðsjó sunnan við lóðir Thor landeldi
Thor landeldi óska eftir nýtingarheimild til að nýta jarðsjó sunnan við lóðir sínar að Laxabraut. Tilefni beiðninnar er að Orkustofnun hefur gert kröfu um að borholusvæði sé sérstaklega hnitsett svo nýtingarleyfi sé veitt hjá stofnuninni. Fyrirtækið hefur áður fengið samþykkt hjá nefndinni að bora sjótökuholur fyrir sunnan lóðir sínar.
Afgreiðsla: Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á að veita Thor landeldi ehf. heimild til nýtingar á jarðsjó og ferskvatni í samræmi við ákvarðanir Orkustofnunar þar að lútandi innan svæðis sem afmarkast af framlögðum uppdrætti ásamt hnitaskrá. Gjald fyrir nýtinguna skal greiðast skv. fyrirliggjandi leigusamningum um lóðirnar Laxabraut 35-41, Ölfusi. Sækja skal sérstaklega um framkvæmdaleyfi fyrir jarðborunum til sveitarfélagsins Ölfus áður en þær hefjast. Þá skal Thor landeldi ehf. jafnframt gæta að því að gönguleið með fram ströndinni haldist opin.?
18. 2406027 - Básahraun 45 - Grenndarkynning vegna viðbyggingar
Lögð er fram beiðni um heimild fyrir viðbyggingu sem þarf að fara í grenndarkynningu. Viðbyggingin er 27 m2 og verður húsið samtals 207,7 m2 eftir stækkun. Útveggur viðbyggingar stendur 200 mm frá lóðamörkum.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 2. málsgr. 43 gr. skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br. Tillagan verði grenndarkynnt með bréfi til lóðarrétthafa eftirtalinna lóða: Básahraun 43, Básahraun 39
19. 2406019 - Vindmælingarmastur í þrengslum
OR sækja um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda og reisingar vindmælingamasturs í Leitarhrauni, 0,8 km vestan Litla-Sandfells. Tilgangur mastursins er að rannsaka vindafar og safna gögnum um vind á svæðinu vegna hugmynda um mögulegan vindorkugarð við Lambafell í Þrengslum. Mastrið mun verða 125 m hátt og standa í að hámarki 2 ár.
Afgreiðsla: Framkvæmdaleyfi veitt en gerður fyrirvari um samþykki landeiganda.
Almenn mál - umsagnir og vísanir
20. 2406016 - Umsagnarbeiðni - Aðalskipulagsbreyting vegna Selfosslínu.
Óskað hefur verið eftir umsögn sveitarfélagsins Ölfus um tillögu að breytingu á aðalskipulagi Árborgar. Aðalskipulagsbreytingin felur í sér breytingu á legu selfosslínu.
Afgreiðsla: Vísað til meðfylgjandi umsagnar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?