Almennt eru störf sem losna hjá sveitarfélaginu auglýst m.a. í bæjarblöðum og á vef sveitarfélagsins og með því er framgangur jafnhæfra starfsmanna tryggður. Undantekningar geta verið gerðar í þeim tilvikum þar sem litið er svo á að ráða skuli í starf með uppfærslu innan starfsgreinarinnar hjá tiltekinni stofnun, en þá er heimilt að auglýsa á þeim vettvangi einum. Þetta gæti t.d. átt við ef ákveðið er að auglýsa stöðu aðstoðarskólastjóra eða deildarstjóra einungis innan viðkomandi skóla. Lágmarksumsóknarfrestur er 2 vikur.
Ávallt skal lögð áhersla á að ráða til starfa hæfustu starfsmennina sem völ er á. Meta skal menntun, reynslu, færni og hæfni umsækjenda. Fylgja skal jafnréttisstefnu sveitarfélagsins við allar ráðningar. Bæjarstjórn ræður starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu og yfirmenn stofnana í samráði við bæjarstjóra ráða aðra starfsmenn skv. samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Ölfuss