1. grein
Hvatning til starfsfólks.
Það er mikilvægt fyrir starfsemi Sveitarfélagsins Ölfuss að stuðla að hagnýtri og fræðilegri þekkingu starfsmanna í samræmi við kröfur tímans. Möguleiki starfsmanna á að afla sér viðbótarþekkingar fer eftir heimildarákvæðum hlutaðeigandi kjarasamninga um námsleyfi starfsmanna.
2. grein.
Möguleikar á að sækja um launað námsleyfi.
Starfsmaður sem uppfyllir ákvæði um heimild til að fá launað námsleyfi til að stunda fjar- eða staðnám samkvæmt þeim kjarasamningi sem hann fær laun eftir skal eiga kost á að sækja um leyfi. Samráð skal hafa við yfirmann viðkomandi stofnunar.
3. grein.
Lengd námsleyfis.
Hámarkslengd leyfis ákvarðast af rétti starfsmanns samkvæmt kjarasamningi viðkomandi en getur þó aldrei orðið lengra en eitt ár. Starfsmenn geta einnig sótt leyfi til skemmri tíma. Heimilt er að skipta leyfinu á tvö skólaár. Dreifa má leyfi á lengri tíma, eða allt að fimm ár með möguleika á lengingu ef námið krefst þess, t.d. ef lagt er stund á fjarnám eða nám með vinnu.
4. grein.
Umsóknarferli.
Sækja þarf skriflega um námsleyfi til bæjarstjórnar og skulu yfirmenn stofnana veita skriflegar umsagnir um umsóknir. Sækja þarf um með þriggja mánaða fyrirvara. Í umsókn skulu koma fram nákvæmar upplýsingar um fyrirhugað nám, námstíma og starfsferil umsækjanda. Fjöldi samþykktra námsleyfa ræðst af fjölda umsókna og fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss ár hvert.
5. grein.
Mat á umsóknum.
Við mat á umsókn skulu eftirfarandi atriði höfð til hliðsjónar:
- Mikilvægi námsins fyrir starf sviðsins/stofnunarinnar/sveitarfélagsins.
- Starfsaldur umsækjanda.
- Aðgengi starfsmanns að launuðu námsleyfi annars staðar, svo sem hjá stéttarfélagi.
- Fyrri umsóknir viðkomandi starfsmanns um námsleyfi.
6. grein.
Greiðslur.
Starfsmaður sem fær launað námsleyfi fær greidd föst mánaðarlaun í þeim launaflokki er hann
tekur laun eftir, en annar kostnaður svo sem ferða- og námskostnaður er ekki greiddur. Laun í
námsleyfi miðast við föst laun og meðaltal starfshlutfalls þann tíma sem rétturinn vannst á, hafi
stafsmaður ekki verið í fullu starfi.
7. grein.
Upplýsingar um nýtingu námsleyfis.
Að námi loknu skili styrkþegar prófskírteini, vottorði um námslok og/eða skriflega greinargerð
um hvernig námsleyfinu var varið. Þessi gögn berist eigi síðar en þremur mánuðum eftir að
launagreiðslum í námleyfi lýkur.
8. grein.
Skuldbinding til starfa hjá Sveitarfélaginu Ölfusi.
Samhliða samþykkt umsóknar um launað námsleyfi skal gerður skriflegur samningur við
starfsmann um að hann komi aftur til starfa hjá Sveitarfélaginu Ölfusi að námi loknu og skal í því
efni miðað við 6 mánaða – eins árs starfstíma að loknu námsleyfi.
9. grein.
Fræðslu- og þjálfunarnámskeið.
Þeir starfsmenn sem sækja fræðslu- eða þjálfunarnámskeið, samkvæmt beiðni stofnunar sinnar,
skulu halda reglubundnum launum á meðan.
Samþykkt á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss 23. maí 2014
Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri