Áhugaverðir staðir í Sveitarfélaginu Ölfusi
Sveitarfélagið Ölfus er vestast í Árnessýslu. Heildarstærð þess er um 750 ferkílómetrar og eru íbúarnir um 2.700 vorið 2024. Helstu atvinnugreinar eru tengdar inn og útflutningi á hafnarsvæðinu, fiskveiðar/fiskeldi og vinnsla, ferðaþjónusta, verslun og þjónusta, landbúnaður og iðnaður. Í Ölfusi eru margar góðar reiðleiðir, enda er mikið um hrossarækt og hestamennsku í sveitarfélaginu.
Þéttbýlisstaður sveitarfélagsins er Þorlákshöfn með rúmlega 1.600 íbúa. Nafnið er dregið af Þorláki helga Skálholtsbiskupi (1133-1193) og fer tvennum sögum af tilkomu nafnsins. Önnur sagan segir að staðurinn hafi fengið þetta nafn eftir að Þorlákur biskup steig þar á land þegar hann kom frá biskupsvígslu 1178. Hin sagan segir að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák helga sér til liðsinnis og svo gefið Skálholti jörðina. Talið er að áður hafi jörðin heitið Elliðahöfn.
Útræði hófst snemma frá Þorlákshöfn. Meðan gert var út á áraskipum var ekki óalgengt að róið væri á 20-30 skipum frá Þorlákshöfn og hafa því íbúarnir verið um 3-400 yfir vertíðina. Núverandi þéttbýli myndaðist um og upp úr miðja síðustu öld í kjölfar uppbyggingar öflugrar útgerðar á vegum Meitilsins hf. Mikil fólksfjölgun varð einnig á 8. áratugnum eftir eldgosið í Heimaey.
Í merki sveitarfélagsins er dolos, steinn sem nýttur var í hafnargarðinn sem sjóvörn. Það var Eric Merrifield hafnarverkfræðingur í East London í Suður-Afríku sem hannaði dolosinn 1963, sem góða lausn til að nota í sjóvörn þar sem að steinarnir krækjast saman. Formið á steininum kemur úr máli Búanna en þeir kalla kjúku í kindarfæti dolos. Hver steinn vegur 9,3 tonn.
Margir áhugaverðir staðir eru í Ölfusinu og hér til hliðar er hægt að finna fleiri upplýsingar um þá.