Héraðsnefnd Árnesinga

Héraðsnefnd Árnesinga bs. tók til starfa 1. janúar 2013. Byggðasamlagið er stofnað í samræmi við ákvæði IX. Kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138, 2011. Stofnendur eru öll sveitarfélög í Árnessýslu. Verkefni byggðasamlagsins er að annast yfirstjórn og rekstur þessara stofnana fyrir hönd sveitarfélaga sem aðilar eru að byggðasamlaginu. Byggðasafn Árnesinga, Listasafn Árnesinga, Héraðsskjalasafn Árnesinga, Tónlistarskóli Árnesinga, Almannavarnir Árnessýslu og Brunavarnir Árnessýslu. Forveri byggðasamlagsins var Héraðsnefnd Árnesinga sem stofnuð var 13. október 1988 að tilhlutan Sambands sunnlenskra sveitarfélaga. Tók nefndin að flestu leyti við hlutverki Sýslunefndar Árnessýslu sem starfaði frá 1874 – 1988 er hún var lögð niður. Hélt hún sinn síðasta fund á stofnstað sínum, Kiðabergi í Grímsnesi, haustið 1988.

Fulltrúaráð Héraðsnefndar Árnesinga bs. setur stofnunum samþykktir, þar sem kveðið skal á um markmið þeirra og verkefni. Auk þessara verkefna annast byggðasamlagið þau verkefni sem varða öll aðildarsveitarfélögin og sveitarstjórnir fela henni samkvæmt sérstakri samþykkt allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna. Þá skal byggðasamlagið láta sig skipta sveitarstjórnamál sem varða héraðið sem heild og tillögur um hvað eina sem verða má héraðinu til gagns. Fulltrúaráð kýs sér formann og varaformann úr eigin hópi til tveggja ára á fyrsta fundi eftir sveitarstjórnarkosningar. Formaður stjórnar fundum fulltrúaráðs. Fulltrúaráð kýs fundarritara úr sínum hópi eða ræður sérstakan fundarritara. Formaður skal sjá um að fundargerðir séu skipulega færðar í sérstaka gerðabók, þar sem m.a framkomin mál skulu skráð og hvaða afgreiðslu þau hljóta.

Formaður og varaformaður fulltrúaráðs skulu jafnframt vera formaður og varaformaður framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga bs. Atkvæðavægi allra fulltrúa skal vera jafnt. Fulltrúaráð getur enga ályktun gert nema meira en helmingur fulltrúa séu viðstaddir á fundi. Ef jafnmörg atkvæði eru með málefni og á móti fellur það en við kosningar ræður hlutkesti. Fulltrúaráð samþykkir alla meiriháttar samninga sem gerðir eru og teljast ekki til daglegs rekstrar einstakra stofnana eða falla undir verksvið framkvæmdastjórnar.

Fulltrúar sveitarfélagsins í Héraðnefnd Árnesinga kjörtímabilið 2022-2026 eru:

Gestur Þór Kristjánsson (D)
Erla Sif Markúsdóttir (D)
Baldur Guðmundsson (B)

Varamenn:
Grétar Ingi Erlendsson (D)
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir (D)
Hrönn Guðmundsdóttir (B).

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Héraðsnefndar Héraðsnefnd Árnesinga (heradsnefndarnesinga.is)

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?