Upplýsingar um fyrstu skref skipulags
Skipulagsferli getur verið langur og tímafrekur ferill. Þar sem margir aðilar koma jafnan að borðinu og hafa eitthvað með málið að segja.
Það er ekki til neitt sem heitir: „drífa þetta áfram“, „hleypa þessu í gegn“ eða „vinna þetta hratt“. Ferillinn er ákveðinn og samþykktur í skipulagslögum og reglugerð.
Vilji einkaaðili skipuleggja eigið land þarf hann að óska eftir slíkri heimild skv. 38. gr. skipulagslaga. Sveitarfélagið mun þó alltaf annast auglýsingar og umsýslu.
Það er ekki á ábyrgð sveitarfélagsins að landeigandi hafi lagt seint af stað í skipulagsvinnu eða sé jafnvel tilbúinn að byrja að byggja áður en ferlinu er lokið.
Starfsmenn hafa alveg skilning fyrir slíkum framkvæmdarhug en eru bundnir samþykktum skipulagsferlum og vinna eftir þeim. Landeigandi er að skipuleggja eignarland sitt og því er ábyrgðin á stöðu mála hans.
Flest allt er tengist skipulagsmálum má kynna sér www.skipulag.is
Einnig má nálgast Skipulagslög 123/2010 og Skipulagsreglugerð 90/2013 á netinu.
Gott er að kynna sér ferlið vel til þess að öðlast skilning á hverju skrefi fyrir sig. Það er á ábyrgð málsaðila að fræða sig áður en lagt er af stað.
Deiliskipulag getur tekið allt að 12 mánuði þegar allt er upp talið.
Yfirlit yfir deiliskipulagsferli
Nýtt deiliskipulag
Breyting á deiliskipulagi
Séu skipulagshugmyndir ekki í samræmi við samþykkt aðalskipulag sveitarfélagsins þarf að fara í aðalskipulagsbreytingu. Það ferli lengir heildartíma breytinga og er flóknara en hefðbundin deiliskipulagstillaga eða breyting. Sveitarfélagið getur lagst gegn slíkum breytingum en stundum er hægt að vinna slíkar breytingar samhliða deiliskipulagi. Stundum þarf að leggja til skipulagslýsingar skv. lögum sem segja frá áformum sem þarfnast þá sérstakrar kynningar áður en lengra er haldið, grenndarkynningar eða íbúafundir geta einnig verið hluti af skipulagsferlinu.
Breyting á aðalskipulagi
Annað útgefið efni og leiðbeiningarblöð Skipulagsstofnunar má finna hér.
Auglýsingartímar geta verið 4-6 vikur og lögboðnir aðilar geta nýtt sér þann tíma til þess að veita umsagnir á ýmsum stigum málsins.
Að öllum málum koma nær alltaf Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Vegagerðin og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Í skipulagslögum 123/2010, 37 gr., 5. mgr. stendur: Þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skal lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru, með gerð húsakönnunar. Þegar unnið er að slíku hverfisskipulagi er heimilt að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar eru til deiliskipulagsáætlana í nýrri byggð og leggja frekar áherslu á almennar reglur um yfirbragð.
Þessi kostnaður fellur á landeiganda og er sveitarfélagið ekki ábyrgt vegna tafa sem af þessu geta hlotist.
Málsaðili eða umsækjandi ber ábyrgð á að gögn sem send eru sveitarfélaginu séu vel unnin, gott er að kynna sér gátlista. Starfsmenn annast ekki beinan yfirlestur gagna en koma með ábendingar eða óska eftir breytingum sé þess þörf. Skipulagshönnuður landeiganda/umsækjanda er einnig ráðgjafi landeiganda í ferlinu og skal sá aðili kynna sér samþykkt aðalskipulag sveitarfélagsins og vinna eftir því. Hann á að geta upplýst verkkaupa um hvað aðalskipulagið og greinargerð þess heimilar.
Aðalskipulag Ölfuss
Deiliskipulög í Ölfusi
Sveitarfélagið og starfsmenn þessu eru að fylgja eftir og vinna að um 30-40 skipulagsmálum hverju sinni sem komin eru mislangt í ferli. Hvort sem þau eru fyrir einkaaðila eða fyrir hönd sveitarfélagsins, álag fylgir því verkefnastöðu. Því betri sem gögnin eru því líklegar er að þau hljóti hraða málsmeðferð, ekki er hægt að ætlast til að starfsmenn fari yfir gögn strax eða samdægurs. Gögn eru lög fyrir Skipulags-, bygginga- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins sem fundar að jafnaði einu sinni í mánuði. Samþykktir þeirra nefndar þurfa staðfestingu bæjarstjórnar sem einnig fundar mánaðarlega. Samkvæmt þeim afgreiðslum vinna svo stafsmenn sveitarfélagsins. Gögn sem berast stuttu fyrir fund gætu alla jafna þurft að bíða næsta fundar þar sem starfsmenn þurfa að geta kynnt sér og undirbúið erindi fyrir nefndarmenn. Því skulu ný skipulagserindi ekki berast síðar en viku fyrir fund.
Komi athugasemdir á ferlinu eða á auglýsingartíma getur sama mál þurft að fara oft fyrir fundi nefndarinnar til umræðu skv. lögum.
Þó sveitarfélagið eða nefndir þess samþykki að hleypa málum áfram í lögboðið kynningarferli skv. skipulagslögum, hefur svietarfélagið ekki samþykkt skipulagið eða áformin með neinum formlegum hætti. Slíkri samþykkt fylgir engin skuldbinding af hálfu sveitarfélagsins og geta umsagnir, athugasemdir eða gögn ollið því að skipulagið verði ekki samþykkt af fulltrúum sveitarfélagsins síðar á ferlinu.
Samtöl við starfsmenn eru ekki bindandi heldur leiðbeinandi og geta þeir ekki gefið neinar samþykktir eða loforð. Ákvörðunarvaldið hefur Skipulagsnefnd og Bæjarstjórn.
Sveitarfélagið hefur heimild til þess að rukka málsaðila um alla þá sérfræðiaðstoð sem kalla þarf til vegna málsins sé umfang þess með þeim hætti. Einnig getur sveitarfélagið rukkað sérstaklega fyrir þann tíma sem starfsmenn leggja til sé hann mikið umfram það sem eðlilegt gæti talist vegna lélegra gagna eða mikillar aðstoðar sem skipulagshönnuður/ráðgjafi málsaðila ætti að geta leyst eins og fram kemur í pósti þessum. Skipulags-, bygginga- og umhverfisnefnd er heimilt að rukka afgreiðslugjald nefndar (5.4.14) vegna innsendra erinda, umræðna og undirbúnings. Slíkt gjald fylgir gjaldskrá sveitarfélagsins og vísitölu. Sveitarfélagið rukkar landeiganda fyrir afgreiðslu og auglýsingarkostnað eftir að skipulag hefur hlotið birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Þetta er í samræmi við samþykkta gjaldskrá sveitarfélagsins og tekur jafnt til nýrra sem og breytinga á skipulagi.
Sveitarfélagið er alltaf reiðubúið til aðstoðar og umræðna um skipulagsmál. Einnig óska starfsmenn þess að vera upplýstir um skipulagsáform áður en farið er í téða vinnu eða skipulag lagt fram, slíkt getur komið í veg fyrir árekstra á seinni stigum og óþarfa vinnu.
Erindi má senda á skipulag@olfus.is
Sé óskað eftir fundi með starfsmönnum skipulagssviðs þarf að bóka tíma með pósti eða í síma 480-3800.