Gönguleiðir
Hengilssvæðið er fjalllendi milli Suðurlandsvegar og Þingvallavatns, frá Mosfellsheiði austur að Grafningsfjöllum. Á svæðinu er flest það sem prýðir íslenska náttúru: áhugavert landslag, hvera- og gígasvæði, fjölbreytt gróðurfar, ár og stöðuvötn. Svæðið er kjörið til útivistar allan ársins hring. Unnið hefur verið markvisst að því að búa í haginn fyrir útivistarfólk með neti merktra gönguleiða, upplýsingatöflum, gönguskála og útgáfu gönguleiðakorts. Orkuveita Reykjavíkur hefur haft veg og vanda af þessu starfi síðan 1990, í samráði við sveitastjórnir á svæðinu.
Gönguleiðir á Hengilssvæðinu
Jarðfræði og landslag
Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NA-SV og ganga út í Þingvallavatn. Á Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast. Eftir ísöld eru þekkt 4–5 sprungugos á svæðinu. Seinast gaus á Hengilssvæðinu fyrir um 2000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi. Síðustu umbrot í Hengilskerfinu urðu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubelti sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár og land seig um 1–2 m. Hverir og laugar finnast í öllum eldstöðvakerfunum, en þó mest í Hengilskerfinu. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal.
Gróðurfar
Fyrir landnám óx birkiskógur með fjölbreyttum undirgróðri á svæðinu upp í 3–400 metra hæð yfir sjávarmáli. Ofar tók við harðgerður og lágvaxinn fjallagróður og samfelld gróðurþekja náði upp í 5–600 metra hæð. Smám saman breyttist gróðurfar í kjölfar kólnandi veðurfars, búsetu og skógarnytja. Nú er samfellt birkikjarr á afmörkuðum svæðum upp af Þingvallavatni. Birkistofninn er kræklóttur og lágvaxinn en getur þó náð tveggja metra hæð. Fjölbreytni í gróðri er allmikil, en grasaættin er einkennandi og útbreiddust. Margar gerðir mólendis eru á svæðinu, en það er mest áberandi í Grafningi. Í Ölfusi er land grösugra, en graslendi nær þó sjaldnast yfir stór, samfelld svæði. Á láglendi eru stærstu votlendissvæðin við Villingavatn, Króksmýri og í Dælum austan við Úlfljótsvatnsfjall, auk minni mýrlenda við tjarnir og læki. Allstórt og fjölbreytt flóasvæði er í Fremstadal. Mýrastör er jafnan ríkjandi tegund í mýrum. Strjáll bersvæðisgróður vex á melum, en tegundafjöldi er þó mikill. Þar má nefna geldingahnapp, lambagras, blávingul, blóðberg, músareyra, holurt, holtasóley o.fl. Í Nesjahrauni er samfelld breiða af gamburmosa, sem er landnámsplanta á hraunum. Mosinn myndar jarðveg fyrir aðrar tegundir og þar dafnar krækilyng, bláberjalyng, blávingull, kornsúra, móasef, túnvingull, hvítmaðra, grávíðir og fleiri tegundir.
Landgræðsla og skógrækt
Orkuveita Reykjavíkur hefur síðan 1989 unnið að umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt á jörðum sínum. Áhersla er lögð á að endurheimta gróður á röskuðum svæðum og nýta til þess gróður sem fyrir er á staðnum. Þar má nefna söfnun og dreifingu á fræslægju ásamt mosadreifingu og söfnun og gróðursetningu á víðigræðlingum sem teknir eru á svæðinu. Mikil vinna er lögð í frágang og landgræðslu á röskuðum svæðum vegna framkvæmda við Hellisheiðarvirkjun á líkan hátt og gert var á Nesjavöllum á sínum tíma. Jafnframt hafa skátar og önnur félagasamtök stundað skógrækt á svæðinu með góðum árangri.
Heimild: Orkuveita Reykjavíkur