Starfslok
Hægt er að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem mælt er fyrir í ráðningarsamningi. Starfslok þeirra sem hætta sökum aldurs eða veikinda skulu vera sveigjanleg eftir föngum og unnin í nánu samstarfi við viðkomandi starfsmann. Með starfslokum er átt við þegar starfsmaður hættir í einu starfi og flyst í annað, starfsmaður hættir vegna tímabundinnar ráðningar, starfsmaður segir upp, starfsmanni er sagt upp, eða starfsmaður hættir vegna veikinda eða aldurs. Starfsmanni skal veita lausn frá starfi sínu ekki síðar en í lok þess mánaðar sem hann verður 70 ára. Kennurum skal þó heimilt að halda ráðningu sinni til loka þess skólaárs sem þeir verða 70 ára. Forstöðumenn stofnana skulu láta af því starfi við 65 ára aldur en þeim skal tryggt áframhaldandi starf og gilda um þá sömu reglur um aldurshámark og hjá öðrum starfsmönnum. Þó skal regla þessi ekki hafa áhrif til lækkunar á grundvöll áunninna lífeyrisréttinda þeirra né heldur á föst dagvinnulaun nema um breytt starfshlutfall verði að ræða.
Starfsmönnum sem láta af störfum sökum aldurs og/eða veikinda skal boðið upp á viðtal við starfsmann félagsþjónustu sem kynnir og fer yfir réttindi viðkomandi starfsmanns er tengjast starfslokum. Einnig skal starfsmanninum veitt aðstoð sveitarfélagsins við að sækja réttindi sín óski hann þess.