Hafnarnes og Hafnarnesviti
Hafnarnes er sunnan við byggðina í Þorlákshöfn. Þar er fallegt útivistarsvæði þar sem margir brimbrettakappar koma að spreyta sig á öldunum en margir telja þetta besta svæðið til brimbrettaiðkunar á Íslandi.
Útsýnisskífa er staðsett rétt hjá Hafnarnesvita og þaðan er víðsýnt útsýni yfir fjöllin í kring s.s. Ingólfsfjall, Heklu og Eyjafjallajökul. Á góðum degi má einnig sjá yfir til Vestmannaeyja.
Hafnarnesviti var byggður árið 1951 og er ljóshæð hans 11 metra yfir sjávarmáli. Ekki er opið fyrir almenning í vitann en allt í kringum vitann eru stórbrotnar klappir sem gaman er að ganga á og dást að ölduganginum.