Reglur Sveitarfélagsins Ölfuss um fjarvistir og starfsendurhæfingu
vegna veikinda og/eða slysa
Inngangur
Stefna Sveitarfélagsins Ölfuss er að standa vörð um velferð starfsmanna og aðstoða þá við að koma aftur til starfa eftir veikindi og/eða slys. Öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, gott skipulag og stjórnun fjarvista og stuðning við endurkomu til starfa hefur áhrif á fjarveru frá vinnu. Þess vegna eru skilgreindir vinnuferlar um tilkynningar, skráningu og viðbrögð við fjarvistum vegna veikinda nauðsynlegir ásamt fræðslu og upplýsingagjöf til starfsmanna og stjórnenda um þarfar umbætur á stofnunum og deildum sveitarfélagsins.
Eftirfarandi eru leiðbeiningar um hvernig skal tilkynna veikindi og önnur forföll, hvenær skila ber vottorðum, hvernig skráningu veikinda eða annarra forfalla er háttað og hvernig standa ber að endurkomu til starfa eftir veikindi og/eða slys.
Mikilvægt er að yfirmenn kynni þessar reglur fyrir starfsmönnum og nýliðum hverju sinni.
1. grein - Tilkynning um skammtíma fjarvistir
Starfsmaður skal tilkynna um fjarvistir vegna veikinda, slyss eða annarra forfalla símleiðis til yfirmanns eða forstöðumanns á viðkomandi stofnun eða deild, áður en vinnudagur hefst. Tilkynningar í gegnum þriðja aðila, tilkynningar með sms skilaboðum, gegnum tölvupóst eða samfélagsmiðla eru ekki teknar gildar nema aðstæður geri það að verkum að starfsmaður sé ekki sjálfur fær um að annast tilkynninguna vegna veikinda eða slysfara.
Starfsmaður skal tilkynna daglega um veikindi / fjarvistir meðan á þeim stendur til næsta yfirmanns, nema að sammælst sé um annað.
2. grein – Tilkynning um langtíma fjarvistir – skil vottorða
Hafi starfsmaður verið frá vegna veikinda eða í kjölfar slyss lengur en 5 vinnudaga samfleytt skal hann skila læknisvottorði til yfirmanns þegar hann kemur aftur til starfa. Ef starfsmaður er óvinnufær í lengri tíma vegna veikinda eða slyss skal hann skila nýju læknisvottorði til yfirmanns á fjögurra vikna fresti.
3. grein – Endurkoma til starfa eftir langtíma veikindi
Það er mikilvægt að starfsmaður sem er lengi fjarverandi vegna veikinda eða slyss fái stuðning frá vinnustaðnum. Lagt er upp með að yfirmenn séu í reglulegu sambandi við starfsmanninn og sýni honum þannig bæði umhyggju og jákvæðan stuðning. Ef fjarvera er umfram 28 daga skal starfsmaður skila starfshæfnisvottorði frá trúnaðarlækni áður en starf hefst að nýju í samráði við yfirmann. Bent er á að allir almanaksdagar eru taldir. Eftir atvikum skal eiga sér stað formlegt samtal um endurkomu til vinnu, þar sem farið er yfir réttindi starfsmanns, aðlögun og endurhæfingu ef þörf krefur.
Veikindi í orlofi.
Veikist starfsmaður í orlofi skal hann tilkynna sínum næsta yfirmanni um veikindin um leið og þau hefjast. Einnig þarf að tilkynna stjórnandanum hvenær veikindunum lýkur. Sá tími sem veikindin vara telst ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann hafi ekki getað notið orlofs. Vottorði skal skilað til næsta yfirmanns strax að orlofi loknu.
Læknisheimsóknir á vinnutíma.
Í samræmi við 69 gr. vinnuverndarlaganna nr. 46/1980 verður starfsmaður ekki fyrir tekjutapi vegna heilsuverndareftirlits, læknisskoðana, mælinga eða rannsókna. Í slíkum tilfellum fá starfsmenn samþykki hjá sínum næsta yfirmanni fyrir því að fara frá og þurfa ekki að stimpla sig út á meðan (nema í þeim tilfellum að læknistími sé í 2 klst. eða meira).
Veikindi vegna barna:
Foreldri eða forsjármaður á rétt á að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga (96 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri.
4. grein – Skráning forfalla og eftirfylgni
Skráningu veikinda og annarra forfalla er á ábyrgð forstöðumanna og næsta yfirmanns viðkomandi starfsmanns. Veikindin eru skráð í Vinnustund tímaskráningarkerfið, skráð er upphafsdagsetning og lokadagsetning veikinda. Ef um síendurtekin veikindi eða fjarvistir er að ræða er brugðist við eftir því sem tilefni eru til hverju sinni.
5. grein – Fjarverusamtal
Ef veikindi eða fjarvistir ná 25-124 stigum á 13 vikna tímabili eða 100-499 stigum á einu ári, skulu stjórnandi og starfsmaður eiga svokallað „Fjarverusamtal“. Fjarverusamtal er formlegt samtal á milli starfsmanns og stjórnanda til að meta aðstæður og þörf fyrir aðlögun á vinnustað .
Fylgiskjöl: 1.
1. Ákvæði kjarasamninga.
2. Upplýsingar til starfsmanna og leiðbeiningar til forstöðumanna.
a. Viðbrögð við fjarvistum.
b. Fjarverusamtal.
c. Ráð til að draga úr fjarvistum.
d. Virkniáætlun
3. Hlutverk öryggistrúnaðarmanna.
Ef veikindi eða fjarvistir ná 500-999 stigum skal starfsmaður fara í viðtal hjá viðkomandi sviðsstjóra og gerð skal aðgerðaráætlun. Nái veikindi eða fjarvistir yfir 1000 stig er starfsmaður sendur í viðtal hjá trúnaðarlækni í samráði við sviðsstjóra.
Reglur þessar um fjarvistir og starfsendurhæfingu vegna veikinda og/eða slysa sem bæjarstjórn hefur samið og samþykkt taka gildi við staðfestingu bæjarstjórnar. Þær ber að endurskoða eigi sjaldnar en við upphaf hvers kjörtímabils.