Saga Þorlákshafnar
Sveitarfélagið Ölfus er vestast í Árnessýslu. Þorlákshöfn er þéttbýlisstaður sveitarfélagsins. Nafn sitt dregur Þorlákshöfn af Þorláki helga Skálholtsbiskupi (1133-1193) og fer tvennum sögum af tilkomu nafnsins.
Önnur sagan segir að staðurinn hafi fengið þetta nafn eftir að Þorlákur biskup steig þar á land þegar hann kom frá biskupsvígslu árið 1178.
Hin sagan segir að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák helga sér til liðsinnis og svo gefið Skálholti jörðina. Talið er að áður hafi jörðin heitið Elliðahöfn.
Útræði hefur alla tíð verið frá Þorlákshöfn enda er þar besti lendingarstaður á suðurströndinni frá náttúrunnar hendi og skammt í fengsæl fiskimið. Fram til loka 18. aldar var jörðin í eigu kirkjunnar en síðan í eigu ýmissa bænda fram til 1934 þegar Kaupfélag Árnesinga eignaðist hana. Meðan gert var út á áraskipum var ekki óalgengt að róið væri á 30-40 skipum frá Þorlákshöfn og hafa því íbúarnir verið um 3-400 yfir vertíðina og bjuggu þeir í byrgjum sem hlaðin voru úr torfi og steini.
Hægt er að kaupa bókina Saga Þorlákshafnar 1930 - 1990 á Bæjarbókasafni Ölfuss og með tölvupósti á arny@olfus.is.
Saga Þorlákshafnar kom út árið 2015 og spannar tímabilið frá 1930 til 1990. Bókin er skrifuð af Birni Pálssyni, fyrrum héraðsskjalaverði Árnessýslu.
Tímabilið sem fjallað er um, er spennandi tími í sögu Þorlákshafnar, þar sem ungt og athafnasamt fólk ákveður að koma, byggja hús og flytja með fjölskyldur sínar. Smám saman verður til þorp sem býr að athafnagleði, virku félagslífi, framtakssemi og samtakamætti þeirra sem hingað fluttu.
Á bakhlið bókarinnar skrifar handritshöfundur „Hér er brugðið upp myndum af framkvæmdum í Þorlákshöfn, fyrirtækjum, félögum og lífsháttum íbúa. Hundruð ljósmynda og teikninga hjálpa lesanda að rata þær söguslóðir. Skráðir íbúar árið 1950 voru fjórir, 523 árið 1970 og 1218 við sögulok árið 1990. Nefnd eru öll íbúðarhús byggð á 20 árum frá 1951, íbúa getið og hvaðan þeir komu. Fjölskyldumyndir eru af nær öllum þeim sem þar höfðu tekið sér búsetu fyrir árið 1971 og teljast því frumbyggjar Þorlákshafnar.“
Hægt er að nálgast myndasafn Ölfuss hér.
Einnig er er að finna fjölmargar gamlar og skemmtilegar myndir inn á Facebook hópnum Þorlákshöfn - gamlar myndir sem er opinn öllum.