Kögunarhóll er hólstrýta úr móbergi suður af Ingólfsfjalli að vestanverðu. Suðurlandsvegurinn liggur um skarðið milli hóls og fjalls. Þjóðsaga hermir að Kögunarhóll sé haugur sem Ingólfur Arnarson hafi orpið yfir skip það er hann sigldi á hingað til lands. Nafnið Kögunarhóll mun merkja útsýnishóll.
Í fornu máli var til orðið köguður sem merkir "varðmaður sá sem skyggnist um". Sá sem fer upp á Kögunarhól til að kaga er þar af leiðandi köguður.
Árið 2006 voru reistir 52 krossar við Kögunarhól, í minningu fórnarlamba umferðarslysa á Suðurlandsvegi. Hugmyndina að athöfn þessari átti Hannes Kristmundsson garðyrkjumaður.