Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 417

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
21.03.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2208041 - Heidelberg - umræða um stöðu verkefnisins
Fyrir bæjarráði lá minnisblað um stöðu mála hvað varðar áætlun Heidelberg, sem er að fullu og öllu í eigu erlendra aðila, um að setja af stað framleiðslu á umhverfisvænum íblöndunarefnum í steypu innan sveitarfélagsins.

Fram kemur að við upphaf málsins hafi bæjarstjórn haft áhyggjur af staðsetningu innan þéttbýlis og þess álags sem gæti fylgt efnisnámi á landi til framleiðslunnar. Þá hafa verið haldnir fundir með íbúum og áformin rædd þar sem sambærilegar áhyggjur komu fram.

Í framhaldinu hefur verkefnið þróast og áformin breyst á þann veg að nú er stefnt að því að finna starfseminni staðsetningu fjær byggð í um 5 km fjarlægð frá upphaflegri staðsetningu, í svokallaðri Keflavík. Í samræmi við það hefur Heildelberg skilað öllum þeim lóðum sem það hafði áður sótt um og fengið úthlutað innan þéttbýlisins.

Þá er horft til þess að byggja fremur nýja höfn en að auka álag og umsvif inni í bænum tengt núverandi höfn vegna starfsemi félagsins. Það fyrirkomulag hefur einnig opnað á þann möguleika að flytja ráðandi hluta af hráefni til vinnslunnar úr sjávarnámum og draga þannig verulega úr því efni sem flytja þarf úr námum á landi.

Þrátt fyrir þá miklu og jákvæðu breytingu sem orðið hefur á verkefninu hefur bæjarstjórn sagt það mikilvægt að þegar verkefnið hefur verið mótað og frekari forsendur liggja fyrir verði haldin íbúakosning um forsendur þeirra skipulagsbreytinga (aðal- og deiliskipulag) sem nauðsynlegar eru til að verkefnið fái framgang. Framgangur verkefnisins veltur því á vilja íbúa.

Í minnisblaðinu er lögð til eftirfarandi tímalína til viðmiðunar:

3. apríl: Verkfræðistofan Mannvit klárar að vinna aðal- og deiliskipulag sem lagt verður fyrir skipulagsnefnd.

25. apríl: Bæjarstjórn fjallar um skipulagið til auglýsingar með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu íbúakosningar.

26.-30. apríl: Skipulagið er auglýst með ríflegum athugasemdafresti, þ.e. til 1. júní 2024.

1. júní: Íbúakosning um skipulagið samhliða forsetakosningum.

19. júní: Skipulagið er lagt aftur fyrir skipulagsnefnd

27. júní: Skipulagið lagt fyrir bæjarstjórn og samþykkt eða synjað byggt á útkomu íbúakosningar.

Ef skipulagið er samþykkt:

Byrjun júlí: Skipulagið sent til Skipulagsstofnunar. Stofnunin hefur 3 vikur til að gera athugasemdir.

Ef skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir:
31. ágúst: Aðal- og deiliskipulag birt í B-deild og tekur gildi.

Bæjarráð þakkar minnisblaðið og samþykkir til viðmiðunar meðfylgjandi tímalínu. Þá felur bæjarráð starfsmönnum að leita til óháðs ráðgjafa og fela viðkomandi að annast fyrirkomulag kosningarinnar og leggja drög að þeirri spurningu sem lögð verður fyrir kjósendur.
2. 2403054 - Stofnframkvæmdir við leikskólann Óskaland í Hveragerði
Fyrir bæjarráði lá afrit af erindi frá lögmanni Sveitarfélagsins Ölfuss til Hveragerðisbæjar vegna stofnframkvæmda við leikskólann Óskaland í Hveragerði. Fyrir liggur að leikskólinn Óskaland er í óskiptri sameign Sveitarfélagsins Ölfuss og Hveragerðisbæjar og í samningnum milli sveitarfélaganna nánar tiltekið í 9. gr. samningsins kemur þannig fram að ekki megi hefja stofnframkvæmdir nema samþykki beggja sveitarstjórna liggi fyrir.

Það kom því flatt upp á Sveitarfélagið Ölfus þegar meirihluti bæjarstjórnar í Hveragerðisbæ samþykkti á bæjarstjórnarfundi þann 8. febrúar sl. að staðfesta samninga um stofnframkvæmdir við leikskólann Óskaland, þar sem til stendur að byggingaraðili byggi viðbyggingu við leikskólann og að Hveragerðisbær skuli svo leigja viðbygginguna til allt að 40 ára. Þrátt fyrir skýr samningsákvæði um samvinnu sveitarfélaganna um rekstur leikskólans og stofnframkvæmdir var útfærsla málsins ekki borin undir Sveitarfélagið Ölfus. Raunar hefur á engum tímapunkti borist formlegt bréf eða erindi um málið og því ekki um að ræða framkvæmd sem fjallað hefur verið um í staðfestri framkvæmdaáætlun sveitarfélaganna.

Í bréfi lögmannsins er farið yfir ítrekaðar tilraunir Sveitarfélagsins Ölfuss til að vinna málið áfram í samvinnu. Fram kemur að þann 14. febrúar sl. sendi Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, tölvupóst til Geirs Sveinssonar, bæjarstjóra Hveragerðisbæjar, þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Hveragerðisbæjar þar sem fyrir lá að samningar hafi verið undirritaðir um viðskipti með eign Sveitarfélagsins Ölfuss án upplýsinga eða samþykktar þar að lútandi. Þá var þess krafist að unnið yrði að málinu samkvæmt samstarfssamningi sveitarfélaganna, sbr. 9. gr. samningsins. Elliði Vignisson ítrekaði svo erindið í öðrum tölvupósti þann 6. mars sl. Ekki hefur borist formlegt svar við erindum bæjarstjórans. Þann 29. febrúar sl. birtist svo tilkynning á vefsíðu Hveragerðisbæjar þar sem opinberlega var tilkynnt um hinar fyrirhuguðu framkvæmdir á leikskólanum. Í tilkynningunni kemur m.a. fram að framleiðsla leikskólans hafi þegar hafist og að staðfestingargreiðsla leigusala til framleiðanda hafi verið innt af hendi. Þá kemur fram að mánaðarlegar leigugreiðslur verði kr. 3.260.000, tengdar vísitölu, og að kaupréttur sé til staðar á sjö ára fresti.

Fyrirliggjandi bréf lögmanns Sveitarfélagsins Ölfuss var svo sent 13. mars á Hveragerðisbæ og í ljósi alvarleika málsins og hve miklir hagsmunir eru í húfi var þess óskað að svar bærist við erindinu eigi síðar en 18. mars. Enn hefur ekkert svar, né viðbragð, borist frá Hveragerðisbæ.

Bæjarráð lýsir undrun sinni með málarekstur Hveragerðisbæjar hvað ofangreint varðar og þá sérstaklega fullkomið skeytingarleysi gagnvart hagsmunum Sveitarfélagsins Ölfuss sem sannarlega er meðeigandi í viðkomandi fasteignum og tekur fullan þátt í rekstri hennar. Þá er torskilið hvers vegna erindum hefur ekki verið svarað.

Bæjarráð Ölfus minnir á að eignarhald og samrekstur leik- og grunnskóla í Hveragerði hefur heilt yfir reynst farsælt fyrir þjónustuþega beggja sveitarfélaga. Vilji bæjarráðs um að leikskólaplássum í skólum, sem eru í sameign sveitarfélaganna, fjölgi og aðbúnaður starfsmanna verði betri er einlægur. Það breytir ekki þeirri staðreynd að á engum tímapunkti hefur Sveitarfélagið Ölfus veitt samþykki fyrir því að ráðist yrði í veigamikla stofnframkvæmd á leikskólanum á þeirri forsendu að hún yrði leigð til baka, enda Sveitarfélagið Ölfus hvorki fengið tækifæri til að samþykkja né hafna slíku. Telja verður eðlilegt og skylt að sameigendur fasteignar standi saman að jafn veigamiklum ákvörðunum eins og um ræðir í þessu máli. Auk þess er skýrt samningsákvæði þess efnis í samstarfssamningi aðilanna.

Með vísan til alls framangreinds krefst bæjarráð þess að Hveragerðisbær rökstyðji hvernig fyrrgreind vinnubrögð samræmist samstarfssamningi aðilanna frá 2015 um leikskólann Óskaland sem er í óskiptri sameign sveitarfélaganna skv. kaupsamningi þar að lútandi. Þá er þess óskað að fá send öll gögn sem varða samningsgerðina um framkvæmdirnar og leiguskilmála án tafar. Þar undir falla undirritaðir samningar, útreikningar á forsendum samninga, útreikningar á kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga og allt það annað sem varpað getur ljósi á forsendur málsins og auðveldað upplýsta ákvörðunartöku.

Bæjarráð felur starfsmönnum sínum og lögmanni að grípa til allra lögmætra úrræða til þess að verja hagsmuni sína í málinu.

Samþykkt samhljóða.
3. 2403023 - Áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Samb. ísl.sveitarfélaga vegna kjarasamninga 2024
Áskorun frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að sveitarstjórnir taki þátt og sýni samstillt átak til að liðka fyrir gerð langtíma kjarasamninga til að kveða niður vexti og verðbólgu.
Lagt fram.
4. 2403022 - 80 ára afmæli lýðveldisins
Erindi frá afmælisnefnd 80 ára afmælis lýðveldisins sem skipuð var af forsætisráðherra.
Í erindinu er óskað eftir samstarfi við sveitarfélög landsins í tengslum við hátíðardagskránna með miðlun og hvatningu um þátttöku eins og hentar best á hverjum stað.

Lagt fram.
5. 2403027 - Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga 2024
Fundarboð á aðalfund Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. sem haldinn verður í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 14. mars nk.
Lagt fram.
6. 2403055 - Umsókn um styrk
Beiðni frá Ferðamálafélagi Ölfuss þar sem óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 300.000 vegna leiðsagnar og kynningarmála á vegum félagsins.
Bæjarráð samþykkir styrkbeiðnina.

Samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:40 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?