Útilistaverk í Þorlákhöfn og nágrenni

Fjölmörg útilistaverk prýða Þorlákshöfn og nágrenni. Líklega óhætt að fullyrða að fjöldi metnaðarfullra skúlptúra sé óvíða að finna fleiri miðað við höfðatölu.

LATUR er stór steinn sem notaður var sem viðmið um sjófærð hér áður fyrr

A) Við sjónarrönd - við Ráðhús Ölfuss

Eftir Helga Gíslason myndhöggvara, 2001

Listaverkið tengist beint sögu staðarins með vísun í manninn, sjóinn, bátskjöl og biskupsstaf og er unnið í brons.

Kvenfélag Þorlákshafnar hafði frumkvæði að því að gert yrði listaverk til að prýða bæinn. Í kjölfarið var haft samband við Helga Gíslason og óskað eftir því að hann ynni listaverk fyrir Þorlákshöfn. Listaverkið var afhent bænum á 50 ára afmælishátíð staðarins. Það var afhjúpað af forseta Íslands þann 11. ágúst 2001.

Helgi Gíslason er fæddur í Reykjavík árið 1947. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1965-69, var í frjálsri myndlistardeild við sama skóla 1970-71 og Valand listaháskóla Gautaborgar 1971-76. Hann á útilistaverk víða um land sem og erlendis. Vinnur í alls konar efni: Málmur, tré, gler, gifs og textíll t.d.

B) Lífsfley - við Þorlákskirkju

Minnisvarði um drukknaða eftir Bjarna Jónsson, 2007

Minnisvarðinn stendur fyrir framan Þorlákskirkju. Áhugamannahópur tók sig til og bað Bjarna um að hanna minnisvarða um drukknaða sem reistur yrði í Þorlákshöfn. Ennfremur safnaði hópurinn styrkjum víða til að fjármagna verkið.

Minnisvarðinn var smíðaður úr stáli og stendur á sæbörðu grjóti. Hann var vígður á sjómannadaginn árið 2007.

Ég vil leiðast af Jesú, uns líður á nótt

og mitt lífsfley að höfninni nær.

Þegar sígur á myrkrið, þá syng ég svo hljótt:

Jesús sigrar í dag sem í gær.

Bjarni Jónsson nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Teikni­gáfu sína nýtti Bjarni í rík­um mæli til vernd­ar þjóðleg­um heim­ild­um og þjóðlífi. Má þar nefna 60 mál­verk sem varðveita sögu ára­skip­anna og eru í eigu Þjóðminja­safns Íslands. Viðamesta verk hans eru skýr­ing­ar­teikn­ing­ar í Íslensk­um sjáv­ar­hátt­um, alls fimm bindi.

C) Minnisvarði um Egil Thorarensen - við Egilsbraut

Eftir Gunnstein Gíslason, 1987

Steinsmiðja Sigurðar Helgasonar vann verkið fyrir Gunnstein en verkið var unnið í grástein. Hægt að túlka það á ýmsa vegu t.d. blóm sem opnast = vöxtur, gróska. Stundum kallað Eplið þar sem kjarninn er í miðjunni og sneiðarnar falla til hliðar = máttarstólpi, samfélagið. En sama hvernig horft er á það og hvert sjónarhornið er þá er það alltaf miðjan og svo eitthvað sem kemur út frá henni allt í einni heild.

Gunnsteinn vann einnig altaristöfluna sem er í Þorlákskirkju. Hún er múrrista og heitir "Herra bjarga þú mér" og byggir á 30. versi í 14. kafla Matteusarguðspjalls.

Gunnsteinn Gíslason er fæddur 1946, stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1963-67 í kennaradeild og frjálsri myndlist, innritaðist í Edinburgh College of Art 1967 og lagði stund á veggmyndagerð og glerhönnun.

 

D) Vor - við Hafnarnes/Ver

Eftir Grím Marínó, 2002

Verkið sýnir svani að hefja sig til flugs og var sett fyrir framan útgerðina Hafnarnes Ver árið 2002. Verkið er í eigu Þórhildar Ólafsdóttur og Hannesar Sigurðssonar.

Hannes sá þetta verk í geymslu í Kópavogi og heillaðist af því. Hann sá í því hvalsporði og stefni á skip. Sumir sjá kríur steypa sér niður.

Grímur Marinó Steindórsson listamaður fæddist 25. maí 1933 í Vestmannaeyjum. Hann stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni og sótti nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Grímur var lærður járnsmiður og vann við þá iðn sína, og lagði stund á höggmynda- og málaralist auk þess að myndskreyta bækur. Hann sótti sjóinn frá unga aldri, átti og gerði út trillu.

Listaverk Gríms Marinós eru víða um land, meðal annars Súlurnar á Hörgaeyrargarði í Eyjum, skútan við höfnina í Stykkishólmi, Beðið í von á Hellissandi, Vor við Fjölbrautaskólann á Húsavík og Friður, verðlaunaverkið um fund þeirra Gorbatsjov og Reagan í Reykjavík. Þá var verk hans Landpóstar vígt með athöfn við Staðarskála í Hrútafirði að viðstöddu fjölmenni, Jötnar fyrir utan Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Í Kópavogi er Freyjublómið við Boðaþing.

 

E) Koma Auðar djúpúðgu - við útsýnisskífu

eftir Erling Ævarr Jónsson, 2015

Vorið 2014 vann Erlingur Ævarr teikningu af víkingaskipi með Unni/Auði Djúpúðgu í stafni, en talið er að skip hennar hafi komið að landi í Hafnarskeiði.

Verkið er einskonar silouhetta (skuggamynd) skorið í járnplötu og hefur verið sett upp á útsýnisstað á varnargarði í Þorlákshöfn. Verkið var formlega vígt á vordögum 2015. Erlingur Ævarr lærði leirkerasmíði í fjögur ár áður en hann hóf sjómennsku, en hana stundaði Erlingur í fimmtíu ár, þar af í þrjátíu og fimm ár sem skipstjóri.

Hann nam m.a. leirkerasmíðina hjá Guðmundi frá Miðdal sem á margt þekkra leirverka s.s. Ekki síst af dýrum.

Í Laxdælu segir frá því að Auður djúpúðga Ketilsdóttir hafi smíðað knörr á laun úti í skógi. Þegar skipið var fullbúið hélt hún af stað til Íslands með frítt föruneyti, þar af tuttugu frjálsborna karlmenn. Ennfremur segir þar að ekki sé vitað til að nokkur kvenmaður hafi komist á brott frá slíkum ófriði með jafnmikið föruneyti og fé. Af því megi álykta að Auður hafi verið mikið afbragð annarra kvenna.

Samkvæmt Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar strandaði skip Auðar á Vikrarskeiði sem talið er vera Hrauns- eða Hafnarskeiðið, miðja vegu milli Þorlákshafnar og Ölfusáróss. Engan mun hafa sakað og reið Auður héðan vestur í Dali þar sem hún nam land.

 

 

 F) Minnisvarði um sjómenn sem fórust með áraskipum - við Hafnarnesvita

eftir Erling Kr. Ævarr Jónsson, 2018

Listaverkið stendur við Hafnarnesvita og gaf Erlingur Ævarr Sveitarfélaginu Ölfusi það að gjöf á sjómannadaginn árið 2018. Um er að ræða tvíburaverk við Komu Auðar djúpúðgu og þetta verk einnig einskonar silouhetta (skuggamynd).

Steinn Guðmundsson, frá Einarshöfn á Eyrarbakka er talinn hafa smíðað flest áraskip sem róið var á frá Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og víðar. Hann smíðaði 138 skip og sá um viðhald á þeim. Árið 1929 sigldi síðasta áraskipið úr höfn frá Þorlákshöfn. Það var Farsæll og á honum var Kristinn Vigfússon skipstjóri frá Eyrarbakka. Verkið er gert til minningar um alla þá sjómenn sem fórust á þessum áraskipum. 

 

 

Ágústa Ragnarsdóttir tók saman heimildir um listaverkin

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?