Skrúðgarðurinn

Skrúðgarðurinn er hátíðar og viðburðasvæði Þorlákshafnarbúa og Ölfusinga.
Gaman er að ganga um garðinn og stoppa við fjölbreytt viðverusvæði. Á góðvirðisdögum er tilvalið að fjölskyldufólk njóti lífsins í garðinum við leik eða bara í slökun á grasinu. Árlega er þjóðhátíðardagurinn haldinn í garðinum og bæjarhátíðin Hamingjan við hafið er lífleg og skemmtileg sumarhátíð með fjölbreyttum tómlistarviðburðum og listsýningum. Í október hefur skammdegishátíðin Þollóween fest sig í sessi og þá er garðurinn skreyttur ljósum og draugar gera sig heimakomna. Skrúðgarðurinn breytist í jólagarð í desember þar sem jólaljósin ljóma á trjánum.

 

Saga Skrúðgarðsins
Kvenfélag Þorlákshafnar hóf uppbyggingu Skrúðgarðsins árið 1974 en hreppsnefnd Ölfuss afhenti Kvenfélaginu svæði milli Hjallabrautar og Hafnarbergs til að byggja upp útivistarsvæði og skrúðgarð. Mörgum fannst mikil bjartsýni að leggja af stað með þá hugsjón að rækta upp landið sem þótti ekki mjög ræktarlegt með berum klöppum og stórum grjóthnullungum. Kvenfélagskonur fengu Óla Val Hansson, garðyrkjuráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands, til að teikna og skipuleggja svæðið. Síðan var hafist handa og brett upp ermar við að fjármagna verkefnið. Gengið var í hús til að safna fjármagni og tóku þorpsbúar vel á móti þessum stórhuga konum. Fyrirtækin í þorpinu lánuðu vörubíla til að keyra skít og mold í svæðið. Eiginmenn kvenfélagskvenna og fleiri sjálfboðaliðar girtu af skrúðgarðinn og lagði Ölfushreppur til girðingaefni.

Kvenfélagskonur gróðursettu um 4000 plöntur á 10 ára tímabili. Þær sáu um að hirða og lagfæra Skrúðagarðinn þangað til Sveitarfélagið réð Hrönn Guðmundsdóttur í hlutastarf til að sjá um garðinn vorið 1981. Vorið 1984 afhenti kvenfélagið Ölfushreppi garðinn og hvöttu þær til þess að lokið yrði við hönnun garðsins á þann hátt að hann myndi þjóni betur hlutverki sínu sem útivistarsvæði fyrir íbúa bæjarins og gesti þeirra.

Sveitarfélagið Ölfus fékk Hlín Sverrisdóttir landslagsarkitekt til að ljúka við hönnun svæðisins og opnaði Skrúðgarðurinn eftir endurbætur árið 2014. Hlín ólst upp í Þorlákhöfn og hafði sterka taug til heimaþorpsins. Hún gaf alla sína vinnu við hönnunina.

Edda Laufey Pálsdóttir var ein þeirra kvenfélagskvenna sem lét sér mjög annt um garðinn og dreymdi hana um áframhaldandi uppbyggingu og gróðursetningu. Í viðtali við Hákon Svavarsson, sumarstarfsmann í bókasafninu 2010, sagði Edda Laufey að hún horfði til þess að skrúðgarðurinn yrði nokkurskonar grasagarður sem væri áhugaverður fyrir ferðamenn og fróðleiksfúsa íbúa. Eddu Laufeyju fannst tilvalið að gróðursetja íslensku flóruna í norðvesturhorni garðsins, innan um klappirnar. Nemendur skólanna myndu koma í garðinn til að læra plöntuheiti, njóta náttúrunnar og skoða litrík og falleg blóm.
(Latur, 6. maí 1982, bls. 1 )

                                 

Hákon Svavarsson tók viðtal við Eddu Laufeyju um tilurð garðsins, 2010.                      Framkvæmdir við hleðslutorgið í miðju garðsins 2014.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?