Leikskólinn Hraunheimar

Leikskólinn Hraunheimar

Bárugötu 22
815 Þorlákshöfn

Leikskólastjóri er Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir,  hrafnhildurh@olfus.is

Hraunheimar verður fjögurra deilda leikskóli fyrir börn á aldrinum 18 mánaða til sex ára. 

Fyrirhugað er að opna Hraunheima haustið 2025 og fyrir dvalarumsóknir um miðjan mars 2025.

Leikskólinn verður opinn frá kl. 7:30 til 16:30 alla virka daga.

Hugmyndafræði Hraunheima - Í leiknum lærum við að lesa lífið

Inngangur Í Hraunheimum byggjum við á hugmyndum um læsi í víðu samhengi og leik sem námsleið. Læsi nær yfir hæfni til að skilja, túlka og tjá sig í mismunandi aðstæðum. Leikurinn er kjarninn í námi barna, þar sem þau efla sjálfstraust, félagsfærni og hæfni til að takast á við áskoranir.

Leikurinn sem námsleið Leikurinn er lykilþáttur í alhliða þroska barna. Börn læra félagsfærni, sköpun og samskipti í gegnum leik. Kennarar stuðla að góðum námsaðstæðum þar sem barnið stjórnar framgangi leiksins og æfir alhliða færni til læsis.

Hlutverk kennarans Kennarinn býr til fjölbreytt námsumhverfi og veitir stuðning þegar þörf krefur. Þeir þurfa að lesa aðstæður og meta hvort inngrip séu nauðsynleg, með áherslu á faglegt læsi.

Læsi í leikskóla Læsi felur í sér málþroska, félagsfærni, stærðfræði og tengsl við umhverfið. Það byggir grunn að áframhaldandi námi og þátttöku í samfélaginu, með markmiði að efla heildrænan þroska barna.

Áhersluþættir læsis í Hraunheimum

Í Hraunheimum er lögð sérstök áhersla á fimm læsisþætti sem tengjast og skarast á margan hátt. Þessir þættir byggja á heildrænum þroska barna og miða að því að efla alhliða færni sem nýtist þeim í daglegu lífi og í framtíðinni.

  1. Félags- og tilfinningalæsi
    Þetta felur í sér hæfni til að þekkja, skilja og stjórna eigin tilfinningum og mynda jákvæð tengsl við aðra. Börn læra að þekkja tilfinningar sínar og annarra, stjórna viðbrögðum sínum, eiga í góðum samskiptum og leysa ágreining. Með því að æfa þessi viðfangsefni í gegnum leik og samtöl, eflum við félagslega færni barna og styrkjum sjálfstraust þeirra.
  2. Umhverfis- og samfélagslæsi
    Börn læra að átta sig á náttúrunni og samfélaginu sem þau tilheyra. Þetta felur í sér að þróa meðvitund um náttúruvernd, samfélagsgildi og menningarlegan fjölbreytileika. Börn læra að virða umhverfið, að átta sig á samfélagslegum hlutverkum sínum og taka þátt í lýðræðislegri umræðu.
  3. Stafa- og stærðfræðilæsi
    Stafa- og stærðfræðilæsi eru grunnfærni sem leggja áherslu á mál- og talnaskilning. Stafalæsi hjálpar börnum að tengja hljóð og bókstafi saman, sem er undirstaða lestrarnáms. Stærðfræðilæsi felur í sér að börn öðlist skilning á tölum, magni, stærðum og formum. Þetta er upphafið að framtíðarþekkingu í stærðfræði og læsi.
  4. Heilsulæsi
    Heilsulæsi felur í sér færni til að viðhalda heilbrigðum lífsvenjum. Börn læra að þekkja mikilvægi hreyfingar, hollrar næringar, góðrar hreinlætisvenja og félagslegrar líðanar. Áhersla er lögð á að efla andlega og líkamlega vellíðan barna, auk þess að styrkja tilfinningalæsi og félagsfærni þeirra.
  5. Faglegt læsi starfsmanna og foreldra
    Faglegt læsi snýst um hæfni starfsfólks og foreldra til að nýta þekkingu sína og reynslu í starfi með börnum. Starfsfólk þarf að hafa hæfni til að meta þroska og námið barna, átta sig á þeim áskorunum sem upp koma og veita stuðning þegar þess er þörf. Einnig er mikilvægt að starfsfólk og foreldrar vinni saman við að efla og styrkja læsi og þroska barna.

Teymisvinna starfsmanna

Í Hraunheimum er teymisvinna lykilþáttur í þróun leikskólans, þar sem markmiðið er að skapa öflugt lærdómssamfélag og efla faglegt læsi starfsmanna. Markmiðið er að viðhalda og þróa stefnu leikskólans og veita öllum starfsmönnum möguleika á að taka þátt í faglegu samtali og ígrundun í starfi.

Í upphafi hvers skólaárs mun starfsfólkið mynda fjögur teymi, þar sem hver deild á fulltrúa. Teymin í Hraunheimum eru:

  • Félags- og tilfinningateymi
  • Umhverfis- og samfélagsteymi
  • Stafa- og stærðfræðiteymi
  • Heilsuteymi

Teymin munu funda mánaðarlega þar sem sett eru markmið, deilt reynslu og rýnt í það hvernig hægt sé að þróa kennsluhætti og efla heildrænt læsi barnanna í gegnum leik. Með markvissri samvinnu fá kennarar og aðrir starfsmenn tækifæri til faglegs þroska og nýsköpunar í starfi. Starfsmenn fá einnig stuðning hvert af öðru og ákveðið frelsi og traust til að móta starfið innan stefnunnar. Segjum að starfsmann langar að nota tilraunir til að efla stærðfræðilæsi. Þá getur hann þarna, sitjandi í stafa- og stærðfræðiteymi, komið fram með þá hugmynd og útskýrt hvernig það mun nýtast til að efla stærðfræðilæsi barnanna.

Með því að skapa öflugt lærdómssamfélag meðal kennara og starfsfólks verður leikskólinn lifandi vettvangur þróunar, þar sem nýjar hugmyndir eru prófaðar og starfsaðferðir endurmetnar reglulega. Með góðri samvinnu að sameiginlegum markmiðum, skapast öflugt starfsumhverfi þar sem bæði börn og fullorðnir vaxa og dafna.

Vert er þó að það komi fram að þetta skipulag, með 4 teymum, miðast við að búið sé að opna allar 4 deildir leikskólans. Því er ólíklegt að öll teymi verði komin til starfa þegar leikskólinn opnar núna í haust.

Skólastefna Ölfuss 2023 - 2030

Reglur um starfsemi leikskóla Sveitarfélagsins Ölfuss

Ítarefni um menntun:

Aðalnámskrá leikskóla

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Mennta og barnamálaráðuneytið / leikskólar

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?