| |
1. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrsla skólastjóra. | 25. jan var haldið upp á bóndadaginn góð mæting var af feðrum og öfum á þorrablótið. 1.febrúar var grænn litadagur þá mættu allir í einhverju grænu eða með eitthvað grænt á sér. Fyrsta vikan í febrúar var Tannverndarvika á vegum Embættis landlæknis og Tannlæknafélags Íslands, þá var lögð áhersla á tannvernd og allt sem snýr að því. Petra Vilhjálmsdóttir tannlæknir í Þorlákshöfn kom 4. febrúar í heimsókn til okkar. Dagur stærðfræðinnar var 1. febrúar og Dagur leikskólans var 6. febrúar í tilefni þessara daga voru listaverk barnanna í Bergheimum hengd upp í Kr versluninni, anddyrinu hjá Kaffi Sól, Heilsugæslunni og í íþróttahúsinu Börnin voru spurð að því hvað þeim langaði að gera á Degi leikskólans og voru nokkrar hugmyndir sem komu fram. Ákveðið var að taka úr þeim tvær hugmyndir en það var að borða pönnukökur og halda diskó í salnum. Félag eldriborgara kom í heimsókn á Tröllaheima 12. febrúar. í tilefni af konudeginum þá var mæðrum og ömmum boðið í vöfflukaffi þann 22. febrúar kl. 14.30-15.30. Það er ný tímasetning og kom hún vel út og var mjög vel mætt. Elstu börnin eru að fara í sund einu sinni í mánuði og er það að koma vel út, það byrjaði fast í haust. 4. mars eru að koma 3 nemar og verða þrjár vikur í verknámi í Bergheimum og eru þeir allir á fyrsta ári í leikskólakennara námi í HÍ.
Í byrjun febrúar hætti aðstoðarmatráðurinn í hennar stað kom nýr starfsmaður. Einnig er búin að vera langtímaveikindafrí og fékk ég einn starfsmann inn í þá vinnu og mikið er búið að vera um löng veikindi bæði á starfsmönnum og nemendum sl. vikur og hefur farið mikill tími að skipuleggja dagana vegna þess.
Nefndin þakkar upplýsingarnar.
| | |
|
2. 1703014 - Leikskólinn Bergheimar: Ársskýrsla. | Leikskólastjóri kynnti fyrir nefndarmönnum ársskýrslu skólans vegna starfsársins 2018, m.a. viðhald og breytingar sem unnar voru á því ári, nýjungar í starfi, starfsmannahald, símenntun starfsmanna, námskrá skólans og stefnu, áherslur í kennslu og fleiri mikilvæga þætti í starfi skólans.
Nefndin þakkar upplýsingarnar.
| | |
|
3. 1901037 - Sálfræðiþjónusta í leikskólanum Bergheimum. | Leikskólastjóri kynnti fyrir nefndarmönnum erindi sitt varðandi skóla- og velferðarþjónustu Árnessþings, einkum varðandi sálfræðiþjónustu. Er það reynsla leikskólastjóra að biðlistar hafi verið alltof langir og ófullnægjandi svör verið veitt við fyrirspurnum um biðtíma. Í framhaldinu var málefnið rætt, m.a. hver staðan væri á sömu þjónustu í Grunnskólanum.
Nefndin þakkar upplýsingarnar og felur formanni að senda skóla- og velferðarþjónustu Árnessþings erindi vegna málsins þar sem óskað verði eftir skýrari svörum um sálfræðiþjónustu við börn í sveitarfélaginu, núverandi ástand, væntanlega biðtíma næstu misserin og hvernig áætlað sé að bregðast við til langs tíma af hálfu skóla- og velferðarþjónustunnar. Formaður kynnir drög bréfi fyrir nefndarmönnum áður en það verður sent út.
| | |
|
4. 1902056 - Hegðunar- og uppeldisráðgjöf | Lagt var fyrir fundinn erindi starfsmanns leikskólans um tillögur að úrbótum á sviði snemmtækrar íhlutunar fyrir börn í vanda. Lúta tillögurnar m.a. að því að bæta við stöðu við báða skóla sveitarfélagsins sameiginlega, sem hefði það að markmiði að veita ráðgjöf, gera áætlanir og fylgja málum eftir, og að sinna jafnframt kennslu í jóga og núvitund á báðum skólastigum.
Skólastjórnendur greindu frá því hvernig þarfir skólanna væru á þessum tímapunkti og það að útfærsla á þessari góðu hugmynd gæti komið til framkvæmda, t.d. mögulega á þann veg að taka upp sérverkefni/verkefnastjórn innan a.m.k. leikskólans á þessu sviði.
Nefndin þakkar erindið kærlega og fagnar því að starfsmenn sveitarfélagsins sýni með þessum hætti frumkvæði og nýsköpun í störfum sínum. Er það mat nefndarinnar að tillögurnar séu afskaplega jákvæðar og gætu sannarlega komið að gagni í starfi skólanna. Hvetur nefndin bréfritara, skólastjórnendur og bæjarstjórn/bæjarráð til þess að huga sérstaklega að þessum tillögum við gerð næstu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins.
| | |
|
5. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra. | Skýrsla skólastjóra
Að venju er margt um að vera í grunnskólanum og fjölmargt gert til að brjóta upp hversdaginn. Við fögnuðum Þorra og bóndadegi með þorramat og lopapeysudegi. Í hverjum mánuði er hádegisdiskó en þá er spiluð tónlist í hádegi og nemendur dansa eftir matinn. Dagur stærðfræðinnar var 1. febrúar en þá unnu nemendur margvísleg stærðfræðiverkefni með vinabekkjum. Foreldrasamtöl voru í lok janúar. Þá mættu nemendur með foreldrum sínum í samtal við kennara. Að þessu sinni var mat á lykilhæfni nemenda grundvöllur samtalanna. Lykilhæfni var metin í fyrsta skipti og var það mat kennara að samtalið hefði verið gott og mikilvægt að ræða þessa lykilþætti í námi og starfi nemenda sem eru þrautseigja, skapandi hugsun, samskipti og samvinna, sjálfstæði og ábyrgð og tjáning. Niðurstöður ytra mats Menntamálastofnunar bárust í lok janúar. Kynning á niðurstöðum og vinnu við umbótaáætlun hefur farið fram. Grunnskólahluti fræðslunefndar fékk sérstaka kynningu, einnig var fjallað um niðurstöður á starfsmannafundi og í skólaráði. Sérstakt foreldrabréf var einnig sent út þar sem niðurstöður voru kynntar. Gerð umbótaáætlunar er vel á veg komin en hún verður send í mars til Menntamálastofnunar. Gera má ráð fyrir að skýrslan verði birt opinberlega að þessum ferli loknu. Niðurstöður ytra mats voru heilt yfir góðar og lýstu skólastarfi sem einkennist af virðingu og jákvæðum skólabrag. Gagnlegar ábendingar voru einnig settar fram en brugðist verður við þeim í umbótaáætlun. Í febrúar og mars fara fram starfsmannaviðtöl. Að þessu sinni verða viðtölin tvö við hvern starfsmann. Í fyrra viðtalinu er einblínt á starfsanda, starfsánægju og vöxt í starfi en í því seinna, sem fer fram í mars til apríl, er hugað að endurmenntun, starfsþróun og framtíðarsýn.
Nefndin þakkar upplýsingarnar.
| | |
|