Fundargerðir

Til bakaPrenta
Framkvæmda- og hafnarnefnd - 36

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
09.02.2023 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Eiríkur Vignir Pálsson formaður,
Grétar Ingi Erlendsson varaformaður,
Erla Sif Markúsdóttir aðalmaður,
Gunnsteinn R. Ómarsson aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi,
Sigmar Björgvin Árnason sviðsstjóri,
Benjamín Þorvaldsson hafnarstjóri,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Elliði Vignisson, Bæjarstjóri
Á fundin undir erindi 1-2 og 3 mætti Sigurður Ás Grétarsson eftirlistaðili/ráðgjafi með hafnarframkæmdum og fór yfir stöðu framkvæmda ofl.

Sigmar Árnason sat fundinn á fjarfundi Teams


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2109002 - Stækkun hafnarinnar Áfangi 1. Suðurvarargarður og Suðurvararbryggja
Á fundin mætti eftirlitsmaður verksins og fór yfir stöðu framkvæmda við stækkun hafnar áfangi 1. Verkfundargerð 26 lögð fram til kynningar.

Verktaki hefur síðustu 2 vikur verið vinna við að raða grjóti að innanverðu og er það að mestu komið upp í kóta 3,0m að haus. Nú er verktaki að raða grjóti 2 fl í haus. Unnið er í námuvinnslu á svæði 2C og 4A. Unnið er í mölun. Samkvæmt borskýrslum er búið að sprengja um 287 þús. m3 af fastri klöpp án undirborunar og búið að keyra út í garð um 272 þús. og á lager um 79 þús. m3 (inn í tölu er líka fyrir Landeldi). Samkvæmt borskýrslum eru komnir um 290 steinar í 1 fl. og 1180 í 2 fl. Áætlað heildarmagn í grjótflokki 1 er 560 steinar eða um 34% sem þarf og í flokki 2 um 1900 steinar um 70%. Áætlað að komið sé nóg í flokk 3. Búið er taka úr garði um 5000 í m3 af grjóti yfir 3 tonn, gróft metið. Verktaki hefur skilað inn borskýrslur til 2023.01.10. Dagskýrslur komnar til 20.12. 2022. Á næstu tveimur vikum er stefnt að því að vinna í hausnum. Unnið verður fyrst í 2 fl neðst og 4 fl. að hluta svo í 1 fl. og eftir það farið í fót, kjarna og flokk 4. Spáð er aftakaveðri um helgina og verktaki ætlar að verja garð fyrir það veður. Unnið verður við grjótvinnslu á svæði 2C og 4A. Búið að mala um 1 þús. m3 (alls 33 þús. m3) fyrir Landeldi. Efnið er tekið úr námu.Áætlað magn á lager Landeldis um 30 þús. rúmmetrar. Ekki farið í Hafnasandsnámu fyrr en í mars. Verktaki er á undan áætlun í garði en eftir í námu.

Vegna ummæla í viðtali „Heimildarinnar“ við Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur þar sem látið var í veðri vaka að framkvæmdir við höfnina hafi stjórnast af annarlegum hagsmunum þar sem ma. hafi verið tekin ákvörðun um að stækka höfnina til vestur í stað austurs til að mæta hagsmunum eins fyrirtækis fram yfir önnur, óskaði formaður eftir því að Sigurður Áss Grétarsson, hafnarverkfræðingur gerði grein fyrir forsendum þessara ákvarðana.

Í máli hans kom ma. fram að verkfræðileg forsenda frekari þróunar hafnarinnar væru framkvæmdir við vesturenda hennar. Slíkt hafi verið nauðsynlegt til að draga úr ókyrrð innan hafnar og tryggja sem best öryggi sæfarenda. Til grundvallar þeirrar niðurstöðu lágu fyrst og fremst öldulíkan Vegagerðarinnar og útreikningar þar að lútandi. Án slíkra framkvæmda hefði einfaldlega ekki verið hægt að taka inn þá stærð sem stefnt er að.


Eftirfarandi bókun lögð fram:

Undirrituð gera alvarlegar athugasemdir við framgöngu bæjarfulltrúans Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur sem einnig á sæti í framkvæmda- og hafnarnefnd. Það er grafalvarlegt að saka núverandi og fyrrverandi nefndarfólk í framkvæmda- og hafnarnefnd um annarlega hagsmuni eins og gert er í viðtalinu og í tengslum við orð bæjarfulltrúans. Slíkt er bein ásökun um brot á 24. gr. laga um skyldur sveitarstjórnarmanna.

Bent er á að ferill rannsókna og undirbúningur ákvarðanna var gagnsær og allar forsendur kynntar í fagráðinu. Fyrir liggja ítarleg minnisblöð og skýrslur auk fjölda kynningafunda sem haldinn var í aðdraganda ákvarðanna. Ferlið var leitt af hafna- og framkvæmdanefnd með aðkomu allra þeirra sem þar áttu sæti. Allar ákvarðanir voru samþykktar án mótatkvæða enda fullur einhugur um framkvæmdina. Ásakanir um annarlega hagsmuni snúa að öllum þeim sem að ferlinu koma.

Undirrituð benda á að bæjarfulltrúinn og nefndarmaðurinn, Ása Berglind, hefur ekki í eitt einasta skipti spurt út í forsendur ákvörðunar um stækkun hafnarinnar til vesturs, hvorki í bæjarstjórn né í fagnefndinni. Hafi bæjarfullrúinn og nefndarmaðurinn haft áhyggjur af stjórnsýslu eða hverskonar annarlegum hagsmunum er rétta leiðin ekki að vera með ádrátt um slíkt í fjölmiðlum þar sem þeir sem eru sökum bornir geta ekki varið sig. Rétta leiðin er að nýta þá stöðu sem fylgir því að vera kjörin til ábyrgðar fyrir samfélag sitt. Vísast þar ma. til 28. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem skýrt kemur fram að sérhver sveitarstjórnarmaður hefur ríkan rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggja í stjórnsýslu sveitarfélags og varða málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveitarstjórn.

Undirrituð hvetja að lokum nefndarfólk í framkvæmda- og hafnarnefnd til að viðhafa vönduð vinnubrögð, sýna hvert öðru virðingu og haga störfum sínum þannig að nauðsynlegt traust myndist milli fólks. Þannig er hagsmuna samfélagsins best gætt.

Eiríkur Vignir Pálsson
Erla Sif Markúsdóttir
Grétar Ingi Erlendsson
2. 2302001 - Dýpkun við Suðurvararbryggju
Lagt er fyrir nefnd útboðsgögn vegna dýpkunnar við Suðurvarabryggju. Á fundin mætti eftirlitsmaður hafnarframkvæmda og fór yfir útboðsgögn.
Afgreiðsla: Lagt fram
3. 2302007 - Dælulögn Ísþórs innan hafnarsvæðis
Hjörtur Methúsalemsson f/h Ísþórs sækir um að gera breytingar á legu fiskflutningslögn sem liggur niður á Suðurvararbryggju og leggja nýja lögn meðfram grjótgarði að Skarfaskersbryggja.
Vegna breytinga á höfninni þar sem Suðurvarabryggja verður rifin og færð vestar er ný lögn því nauðsynleg svo hægt sé að flytja fiskinn öruggan um borð í brunnbát í sumar 2023.

Afgreiðsla:
Nefndin samþykkir fyrir sitt leyti að lögn Arnarlax verði lögð í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Samþykkið er með þeim fyrirvara að lögnin sé víkjandi og ef verði flutt eða fjarlægð ef þess verði krafist af hafnaryfirvöldum. Nefndin felur hafnarstjóra að vinna með umsækjanda að því að finna heppilegustu lagnaleiðina.
4. 2204028 - Íþróttamiðstöð- endurnýjun rennibrautar
Fyrir nefndina eru lagður úrskurður kærunefndar útboðsmála vegna kæru Sportís ehf. vegna útboðs fyrir nýja rennibraut í sundlaug Þorlákshafnar.

Ágreiningur málsins laut að innkaupum varnaraðila, SÖ, á vatnsrennibraut í sundlaug Þorlákshafnar. Meðan málið var til meðferðar hjá kærunefndinni upplýsti SÖ að ákveðið hefði
verið að falla frá útboðinu og bjóða innkaupin út á nýjan leik. Í úrskurði kærunefndar útboðsmála var rakið að í ljósi ákvörðunarinnar hefði kærandi, S ehf., hvorki lögvarða
hagsmuni af kröfu sinni um að hið kærða útboð yrði ógilt og auglýst að nýju né kröfu sinni um að tilgreind ákvörðun varnaraðila yrði lýst ólögmæt en kröfur kæranda voru að öðru leyti teknar til efnislegrar úrlausnar. Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu kæranda um álit á skaðabótaskyldu en féllst á að varnaraðili skyldi greiða honum málskostnað vegna reksturs kærumálsins.

Tillaga afgreiðslu: Nefndin samþykkir að gera breytingar á útboðslýsingu og bjóða verkið aftur út.
5. 2302013 - Clean up Iceland - Boð um þátttöku
Hafnarstjóra barst erindi frá AECO, samtökum leiðangursskipa á Norðurslóðum. Leiðangursskip eru lítil farþegaskip, með að meðaltali 200 farþega.

Þeir eru að fara af stað með verkefni sem heitir Clean up Iceland, sem felur í sér að gestir af leiðangursskipum fara í land og hreinsa rusl í fjörum. Samstarfsaðilar þeirra eru Gára og Blái herinn. Sjá nánari upplýsingar um verkefnið og leiðangursskip í viðhengi. Leitað er eftir afstöðu til þess hvort Þorlákshafnarhöfn hefðu áhuga á að taka þátt í þessu verkefni með þeim? Sé áhugi þá óska þeir eftir að fá sendan lista yfir fjörur í okkar umdæmi sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

Aðgengilegar Zodiac (gúmmíbátum). Skipið er á akkeri og farþegar fara í land á zodiac bátum.
Nægilegt rusl sem má tína.

Þær hafnir sem taka þátt í verkefninu þurfa einnig að vera reiðubúnar til að taka við ruslinu sem safnast endurgjaldslaust (ef við á). Þessu rusli er haldið aðskildu frá öðru rusli um borð.

Afgreiðsla. Nefndin samþykkir þátttöku fyrir sitt leyti og felur hafnarstjóra að fylgja málinu eftir.
6. 2302009 - Stækkun lóðar fyrir fráveituhreinsistöð
Stækka þarf lóð sem ætluð er fyrir fráveitu hreinsistöð og dælubrunn við Hafnarbakka 10. sjá meðfylgjandi tillögu unna af Eflu verkfræðistofu.
Afgreiðsla: Samþykkt
7. 2302010 - Endurnýjun dælubrunns fyrir fráveitu
Þar sem gera þarf breytingu á dælubúnaði á fráveitulögn við hreinsistöð er lögð fram gróf kostnaðaráætlun fyrir nefnd vegna þeirra framkvæmda.
Breytingin felur í sér að steyptur verður nýr brunnur þar sem nýjum sogdælum verður komið fyrir í þururými í staðin fyrir blautdælur sem eru til staðar núna. Núverandi dælur og allur búnaður þeim tengdum eru komnar á tíma og allt viðhald þeim tengdum er mjög erfitt á 2-4 metra dýpi í skolpi.

Skoðað verður hvort mögulegt er að bíða með þennan hluta framkvæmda til ársins 2024

Afgreiðsla: Ekki er gert ráð fyrir endurnýjun á dælum vegna þeirra framkvæmda sem gert er ráð fyrir á hreinsistöð í fjárhagsáætlun. Áætlaður viðbótarkostnaður vegna endurnýjunar á dælubrunni fyrir fráveitu er á bilinu 8-9 milljónir. Lagt er til að sviðsstjóri leggi fram beiðni um viðauka vegna þessa á næsta fundi bæjarráðs.
8. 2302008 - Ný fráveituhreinsistöð
Lagðar eru fyrir nefndina teikningar af nýrri fráveituhreinsistöð. Unnið er við gerð útboðsgagna, gert er ráð fyrir að útboðsgögn liggi fyrir í lok mars.
Afgreiðsla: Lagt fram
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?