Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 441

Haldinn í fjarfundi,
03.04.2025 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Berglind Friðriksdóttir áheyrnarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Elliði Vignisson, bæjarstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2502033 - Beiðni um frestun á greiðslu gatnagerðargjalda
Fyrir fundinum lá erindi frá First Water þar sem óskað var eftir samningum um ógreidd gatnagerðargjöld og niðurfellingu á dráttarvöxtum.

Á 440. fundi bæjarráðs sem haldinn var þann 24. mars s.l. var tekið fyrir erindi frá First Water hf. um áfangaskiptingu á greiðslu gatnagerðargjalda. Bæjarráð samþykkir að greiðslum First Water hf. verði skipt niður í 18 mánaðarlegar greiðslur.

Bæjarstjóra falið að ganga frá samkomulagi með nánari tilgreiningu á greiðslufyrirkomulagi.

Samþykkt samhljóða.
2. 2503015 - Framlög til stjórnmálasamtaka
Fyrir bæjarstjórn lá minnisblað bæjarstjóra um styrki til stjórnmálaflokka. Í minnisblaðinu er farið í gegnum helstu lög sem gilda um opinberan stuðning við stjórnmálaflokka og ljósi varpað á stöðu mála hvað varðar framlög til stjórnmálaflokka í Ölfusi. Fram kemur að einn af þremur stjórnmálaflokkum sem hefur fengið framlög frá sveitarfélaginu er ekki skráð sem stjórnmálasamtök.




Berglind Friðriksdóttir áheyrnarfulltrúi H-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Það hefur sannarlega ekki skort umfjöllun um framlög úr opinberum sjóðum til stjórnmálasamtaka og fyrir liggur ákvörðun fjármálaráðherra . Þar segir m.a. að frá og með árinu 2022 var skilyrði að stjórnmálasamtök væru skráð í sérstaka stjórnmálasamtakaskrá og að ráðuneytinu bar að gæta þess að fyrir lægi staðfesting frá ríkisskattstjóra á skráningu í stjórnmálaskrá. Þar segir enn fremur að hefði verið gætt að þessu hefði ráðuneytið geta leiðbeint um að skráningu væri ábótavant. Niðurstaða ráðuneytisins, sem byggir á tveimur óháðum lögfræðiálitum, er að hafi stjórnmálasamtök uppfyllt önnur skilyrði til úthlutunar en það sem varðar skráningu í stjórnmálasamtakaskrá, þá standi veigamikil rök gegn því að endurkröfuréttur sé fyrir hendi.
Við á Íbúalistanum erum meðvituð um það að skráningarskyldan hefði átt að vera öðruvísi. En sú meðvitund kviknaði ekki fyrr en eftir að styrkjamálið svonefnda kom í hámæli. Þá um leið, eða 30. janúar, tókum við frumkvæði og sendum póst á Skattinn og óskuðum eftir leiðbeiningum. Þær bárust 24. febrúar og erum við að vinna samkvæmt þeim til þess að uppfylla kröfur í þessum lögum.
Þess má geta að þegar Íbúalistinn var skráður hjá Skattinum í mars 2022 fengum við efnislegar leiðbeiningar og athugasemdir um skráningu sem þó höfðu ekkert með það að gera að við vorum að skrá félagið sem félagasamtök, jafnvel þó í 2. gr. samþykktanna standi: „Tilgangur félagsins er að vinna að málefnum Sveitarfélagsins Ölfuss með þátttöku í sveitarstjórnarkosningum og í bæjarstjórnarstörfum. Eingöngu er um félagasamtök að ræða og enginn atvinnurekstur er fyrirhugaður hjá félaginu". Með öðrum orðum, það var ekki gerð nein athugasemd við að Íbúalistinn væri skráður sem félagasamtök árið 2022 og var það gert samkvæmt okkar bestu vitund.
Þá er líka vert að nefna að Sveitarfélagið Ölfus gerði ekki athugasemd eða leiðbeindi um rétta skráningu áður en það greiddi út styrkina árin 2022, 2023 og 2024. Á árunum 2022-2024 fékk Íbúalistinn, sem er ekki með neinn starfsmann né nokkra yfirbyggingu, samtals 298.078 krónur í styrki. Því er um að ræða allt aðrar og miklu minni fjárhæðir en eru undir hjá þeim stjórnmálasamtökum sem starfa á landsvísu og þiggja styrki á grundvelli niðurstöðu þingkosninga. Ekki er búið að greiða styrk fyrir árið 2025 og því ljóst að þegar að því kemur þá verður Íbúalistinn rétt skráður. Það er til samræmis við afgreiðslu fjármálaráðuneytisins, sem taldi það nægilegt í tilfellum stjórnmálasamtaka sem áttu eftir að leiðrétta sína skráningu.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra að kalla eftir áliti lögmanns sveitarfélagsins um það hver næstu skref ættu að vera í ljósi þeirra laga sem gilda um framlög til stjórnmálaflokka.

Samþykkt samhljóða.
3. 2304043 - Fundartími bæjarráðs
Þar sem næsti reglulegi fundur bæjarráðs lendir á skírdegi (17.apríl) er lagt til að fundurinn verði miðvikudaginn 16.apríl.
Bæjarráð samþykkir að næsti fundur bæjarráðs verði miðvikudaginn 16. apríl kl. 08:15.

Samþykkt samhljóða.
4. 2503054 - Samkomulag um markmið afkomu og efnahag sveitarfélaga árin 2026-2030
Samkomulag um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga árin 2026-2030 á grundvelli 11. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Markmið samkomulagsins er að ríki og sveitarfélög stuðli að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála.
Um er að ræða samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?