Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 338

Haldinn í fjarfundi,
05.11.2020 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602017 - Fjármál Fjárhagsupplýsingar Sveitarfélagið Ölfus 2020.
Fyrir bæjarráði lá rekstraryfirlit aðalsjóðs og samstæðu, hvort tveggja dagsett 30. sept. Þá lá einnig fyrir yfirlit fjárfestinga fyrir það sem af er 2020.

Fyrir liggur að útsvarsgreiðslur hafa hækkað um 2% á milli ára 0g fara úr 905.330.780 kr. í 925.955.937 kr., fyrstu 9 mánuði ársins. Tekjur vegna fasteignaskatts hækka um 17% og lóðarleiga um 26%. Í heildina aukast skatttekjur um 5% og fara úr 1.575.922.826 kr. í 1.652.980.259 kr.

Útgjöld milli ára vaxa nokkuð. Þannig vaxa útgjöld vegna félagsþjónustu um 15%, fræðslu- og uppeldismál um 11% og æskulýðs- og íþróttamál um 5%.

Yfirlit fjárfestinga sýnir að alls er búið að framkvæma fyrir 378.722.862 kr á árinu. Þar af hefur 126.947.900 verið varið til framkvæmda við hið nýja fimleikahús, 59.811.991 í gatnagerð, 88.200.000 til kaupa á dráttarbátnum Herdísi og 62.775.910 í fjölgun íbúða fyrir aldraða.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar
2. 2009012 - ASK og DSK Vesturberg
Fyrir bæjarráði lá minnisblað frá sviðsstjóra vegna forkönnunar á samstarfsaðilum um gerð nýs aðalskipulags og deiliskipulags fyrir Vesturberg, nýtt byggingasvæði vestan núverandi byggðar í Þorlákshöfn.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
3. 2011004 - Viljayfirlýsing
Fyrir bæjarráði lá drög að viljayfirlýsingu við Eignarhaldsfélagið Hornsteinn ehf. 450711-0980, Bíldshöfða 7, Reykjavík, og dótturfélög þess, Björgun ehf., BM Vallá ehf. og Sementsverksmiðjan ehf.

Með viljayfirlýsingunni er stefnt að því að aðilar að henni vinni saman að því að þróa framtíðarstarfsemi Hornsteins og framangreindra dótturfélaga innan Sveitarfélagsins Ölfuss. Sérstaklega er þar kveðið á um að á undirbúningstíma úthluti sveitarfélagið ekki öðrum aðilum tilgreindar lóðir nærri hafnarsvæðinu sem fyrirhugað er að félagið nýti undir byggingar sem það þarf vegna starfsemi sinnar.

Á fundinn kom Þorsteinn Víglundsson forstjóri félagsins og gerði nánari grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi. Þennan lið fundar sátu einnig bæjarfulltrúarnir Gestur Þór Kristjánsson, Kristín Magnúsdóttir, Jón Páll Kristófersson og Guðmundur Oddgeirsson.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra að undirrita samkomulagið. Frekari gögn munu liggja fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar.

Þrúður Sigurðardóttir fulltrúi O-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

Ég vil byrja á að þakka bæjarstjóra fyrir að hafa brugðist hratt og vel við beiðni minni um kynningu á málinu og að öll bæjarstjórn hefði aðgang að þeirri kynningu. Það er ljóst að þessi drög þörfnuðust betri yfirferðar og samtals.

En um leið fagna ég áhuga þessara aðila á að vilja byggja upp hér í okkar sveitarfélagi og það er vilji okkar að veita þeim brautargengi en þetta þarf einnig að falla að hagsmunum heildarinnar og í sátt við umhverfið.

Ég samþykki málið með þeim fyrirvara að frekari gögn um starfsemina liggi fyrir næsta bæjarstjórnarfundi.


4. 2010018 - Endurnýjun girðingar í Selvogi
Fyrir bæjarráði lá erindi frá verkefnastjóra girðingaframkvæmda hjá Landgræðslunni vegna endurnýjunar á girðingum á Hafnarsandi.


Bæjarráð vísar erindinu til umfjöllunar í framkvæmda- og hafnarnefnd.

5. 2010019 - Ósk um viðbótar kennslukvóta skólaárið 2020-2021
Fyrir bæjarráði lá beiðni frá Tónlistarskóla Árnesinga um aukinn kennslukvóta vegna fjölgunar nemenda á biðlista í sveitarfélaginu.

Í erindinu kemur fram að um sé að ræða leiðréttingu á lögheimilum nemenda, viðbrögð við biðlistum og aukna áherslu á kynningu á málmblásturshljóðfæri í Þorlákshöfn.

Fram kemur að um sé að ræða 5,5 til 6 klst. og hver klst. kosti um 570.500 kr. á ári. Í erindinu er því óskað eftir viðbótarúthlutun upp á 309.020 kr. á mánuði. Viðbótarkostnaður vegna nóvember og desember 2020 er því um 618.000 kr.


Bæjarráð fagnar auknum áhuga á tónlistarnámi meðal barna í sveitarfélaginu og felur starfsmönnum að undirbúa viðauka vegna þess kostnaðar sem fellur til á árinu 2020 en vísar kostnaði vegna 2021 til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár.

6. 2010036 - Ósk um styrk-Blái herinn
Fyrir bæjarráði lá erindi frá forsvarsmanni Bláa hersins um styrk til hreinsunar á fjörum í sveitarfélaginu.

Fram kemur að Blái herinn hafi staðið fyrir 8 hreinsunarverkefnum í sveitarfélaginu frá árinu 2016 og hreinsað upp yfir 20 tonn af rusli úr strandlengjunni frá Herdísarvík og nokkur hundruð metra austur fyrir Selvogsvitann. Á árinu 2020 hefur Blái herinn hreinsað yfir 5400 kg. í tveimur aðgerðum.



Bæjarráð þakkar Bláa hernum fyrir mikilvægt framlag þeirra til umhverfismála í sveitarfélaginu. Bæjarráð hefur því miður ekki svigrúm til að styrkja verkefnið að þessu sinni en útilokar ekki aðkomu að málinu síðar.
7. 2001009 - Endurnýjun samstarfssamninga við íþróttafélög í Ölfusi.
Fyrir bæjarráði lá minnisblað frá íþrótta- og tómstundanefnd vegna endurskoðunar á styrktar- og samstarfssamningum við íþrótta- og æskulýðsfélög í sveitarfélaginu.

Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að:

Íþrótta- og tómstundanefnd leggur til að vægi þjónustusamninga almennt verði minnkað og í stað komi beinir styrktarsamningar. Þá leggur nefndin það til að samningurinn um íþrótta- leikja og smíðavöll verði ekki endurnýjaður og er það í samræmi við þær tillögur sem hafa verið uppi um að færa allt sumarstarf í 1.-4. bekk í sumarfrístund. Einnig leggur nefndin til að samningurinn um umsjón með íþróttavallarsvæði sem hefur verið eins konar þjónustu- og styrktarsamningur verði breytt þannig að upphæðin til þessa samnings lækki og endurspegli eins og kostur er þann kostnað sem það kostar félagið að sjá um þetta verkefni.

Þá leggur nefndin fram nýjan styrktarsamning við Knattspyrnufélagið Ægi vegna meistaraflokks karla og er hann á svipuðum nótum og styrktarsamningur sem Umf.Þór körfuknattleiksdeild er með við sveitarfélagið. Upphæð samningsins yrði þannig að ekki kæmi til lækkunar framlaga til knattspyrnufélagsins Ægis vegna breytinganna.

Bæjarráð þakkar fyrir upplýsingarnar og vísar þeim hluta þess sem snýr að fjárhagslegum málefnum til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár.
8. 1810058 - Tilkynning um niðurfellingu af vegaskrá.
Enn sem fyrr gerir bæjarráð athugasemdir við þá ákvörðun Vegagerðarinnar að fella mikið notaða vegi af vegaskrá og hvetur til þess að ákvörðunin verði dregin til baka. Búseta á jörðum í Ölfusi hefur verið í þróun á síðastliðnum árum. Sveitarfélagið hefur fundið fyrir vaxandi áhuga ungs fólks að taka upp búsetu í dreifbýlinu og stunda þar blöndu af búskap og annarri atvinnu. Í slíkri gerjun gerist það oft tímabundið að ekki verði um fasta búsetu að ræða á jörðum. Ákvarðanir Vegagerðarinnar og annarra ríkisstofnana mega ekki verða til þess að slíkt tímabundið ástand sé nýtt til að skerða möguleika fólks til að setjast þar að.
9. 2010031 - Ágóðahlutagreiðsla 2020.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá EBÍ um ágóðahlutagreiðslu vegna 2020. Hlutdeild Sveitarfélagsins Ölfuss í Sameignarsjóði EBÍ er 1.585% og er greiðsla ársins af þeim 70 milljónum sem greiddar verða út kr.1.109.500.
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
10. 2010037 - Móttökusveitarfélög - beiðni félagsmálaráðuneytisins um þátttöku í tilraunaverkefni
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Félagsmálaráðuneytinu.

Með erindinu leitar félagsmálaráðuneytið að sveitarfélögum sem eru áhugasöm um að taka þátt í móttöku á flóttafólki.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
11. 1704002 - Lagafrumvörp Beiðni Alþingis um umsögn.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis,nr. 24/2000 (jöfnun atkvæðavægis), 27. mál.
Tillaga til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál,85. mál.
Frumvarp til laga um almannatryggingar (hækkun lífeyris),25. mál.
Frumvarp til laga um almannatryggingar (skerðing á lífeyrivegna búsetu), 28. mál.
Frumvarp til laga um fjarskipti, 209. mál.
Frumvarp til laga um um skrá yfir störf hjá sveitarfélögum sem heimild til verkfallsnær ekki til, 206. mál


Lagt fram
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:30 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?