Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 321

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
05.10.2023 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir 1. varaforseti,
Grétar Ingi Erlendsson bæjarfulltrúi,
Erla Sif Markúsdóttir bæjarfulltrúi,
Hrönn Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson bæjarfulltrúi,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir bæjarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri
Í upphafi fundar leitaði forseti eftir athugasemdum við fundarboð en engar bárust. Einnig óskaði forseti eftir því að taka inn með afbrigðum fundargerð 405.fundar bæjarráðs frá 05.10.2023 og var það samþykkt samhljóða.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2309043 - Orkuöflun - kynning Orkuveita Reykjavíkur
Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur ásamt sérfræðingum OR og dótturfyrirtækja, komu inn á fundinn og kynntu fyrir bæjarstjórn framtíðaráform OR í verkefnum sem snúa að orkuöflun.


Bæjarstjórn þakkar kynninguna.

Bæjarstjórn vill nota tækifærið og minna á mikilvægi þess að allir sem vinna að einhvers konar auðlindanýtingu innan Sveitarfélagsins Ölfuss geri það á forsendum Orku- og auðlindastefnu Ölfuss.

Með auðlindastefnunni markar sveitarfélagið sér stefnu um formlega aðkomu að stjórn nýtingar allra auðlinda í sveitarfélaginu. Stefnt skal að því að nýting verði með áherslu á hagsmuni sveitarfélagsins, íbúa þess og fyrirtæki. Stýring nýtingar og leyfi til auðlindanýtingar verði þannig ætíð með hagsmuni íbúa að leiðarljósi og ávinning samfélagsins fyrir komandi kynslóðir. Þannig verði sveitarfélagið allt séð sem auðlindagarður þar sem heimili og fyrirtæki nýta með beinum eða óbeinum hætti auðlindir svæðisins.

Með Auðlindastefnu Ölfuss er lagður grunnur að verndar- og nýtingaráætlun. Með því að líta á Sveitarfélagið Ölfus sem einn samfelldan auðlindagarð eru verndar- og nýtingarmöguleikar sveitarfélagsins settir fram og línur lagðar um með hvaða hætti umgengni um Ölfus verður háttað m.t.t. nýtingar og verndar.

Í stefnunni er höfuð áhersla lögð á:

* Að sveitarfélagið sé beinn gerandi í stjórnun auðlinda í sveitarfélaginu.
* Að sveitarfélagið og íbúar þess njóti góðs af auðlindum í sveitarfélaginu.
* Að nýting auðlinda sé sjálfbær.
* Að nýting orku sé meðal forgangsatriða í auðlindastýringu. Þannig verði horft til áframhaldandi uppbyggingu á umhverfisvænni orkunýtingu.

Gestir yfirgáfu fundinn kl. 17:50 að lokinni kynningu og umræðum.
2. 2305015 - Viðauki fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2023.
Lagður er fram viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2023. Í viðaukanum eru lántökur teknar niður um 250 milljónir hjá eignasjóði og lækkun á fjárfestingu ársins er kr. 178,4 milljónir. Aukning á rekstrartekjum í viðauka er 19,5 milljónir frá upphaflegri áætlun. Viðaukinn hefur fengið samþykkt í bæjarráði á fundi þess 19.09.2023 og var honum vísað til bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn samþykkir viðaukann.

Samþykkt samhljóða.
3. 2305013 - Samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss
Fyrir bæjarstjórn lágu breytingar á samþykktum Sveitarfélagsins Ölfuss til síðari umræðu.
Bæjarstjórn samþykkir breytingarnar.

Samþykkt samhljóða.
4. 1906015 - Erindisbréf nefnda.
Fyrir bæjarstjórn lá erindisbréf dreifbýlisnefndar til staðfestingar. Málið var áður til umræðu í bæjarráði 05.09.2023 og var þar samþykkt samhljóða.


Bæjarstjórn samþykkir erindisbréfið og felur starfsmönnum að fylgja stofnun dreifbýlisnefndar eftir.

Samþykkt samhljóða
5. 1806017 - Kosning í nefndir og ráð Sveitarfélagsins Ölfuss.
Kosning 3 aðalmanna og jafn margra varamanna í dreifbýlisnefnd Sveitarfélagsins Ölfuss. Bæjarstjórn skal jafnframt kjósa formann og varaformann nefndarinnar.

Bæjarstjórn samþykkir að dreifbýlisnefnd verði svo skipuð:

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir (D lista), formaður
Geir Höskuldsson (D lista), varaformaður
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson (B lista)

Til vara:
Margrét Pollý Hansen Hauksdóttir (D lista)
Kjartan Ólafsson (D lista)
Dagbjört Guðmundsdóttir (B lista)

Samþykkt samhljóða.
6. 2310009 - Samkomulag við Heidelberg, úthlutun nýrrar lóðar og samstarf um hafnarstarfsemi
Fyrir bæjarstjórn lágu drög að samkomulagi milli Heidelberg og sveitarfélagsins.

Með þessu samkomulagi semja aðilarnir um breytt fyrirkomulag á undirbúningi og þróun á fyrirhugaðri starfsemi félagsins í Þorlákshöfn á grundvelli viljayfirlýsingar aðila frá 20. nóvember 2020, (viljayfirlýsingin). Að auki eru uppi áform um að félagið muni standa fyrir byggingu á hafnarmannvirkjum í einkaframkvæmd innan sveitarfélagsins.

Frá gerð viljayfirlýsingarinnar hafa aðstæður breyst nokkuð og aðilar komið sér saman um að félagið sækist eftir annarri lóð fyrir sína starfsemi í sveitarfélaginu. Bæjarstjórn hefur fjallað um áform félagsins og á fundi hennar 24. nóvember 2022 var fjallað um nauðsynlegar breytingar á áformum og skilyrði fyrir því að þau gætu gengið eftir. Þá hefur verið haldinn fundur með íbúum og áformin rædd, en í framhaldinu hefur verkefnið þróast og áformin breyst á þann veg að nú er stefnt að því að finna starfseminni staðsetningu fjær byggð og byggja fremur nýja höfn en að auka álag og umsvif inni í bænum vegna starfsemi félagsins. Þá hefur félagið tekið tillit til ábendinga íbúa og sveitarstjórnar um hæð bygginga og mannvirkja við þau, endurskipulagt verkefnið með það fyrir augum að draga úr flutningum um þjóðvegi og færa efnisflutninga að stórum hluta til á sjó. Þá hefur hönnuðum verið falið að haga allri hönnun húsa og mannvirkja þannig að þau falli sem best að landi, byggð og aðstæðum öllum.

Á þessum nótum gerir samkomulagið ráð fyrir að:

1. Heidelberg skilar inn öllum lóðum sem það hafði áður sótt um og fengið úthlutað og þess í stað verður ráðist í undirbúning þess að starfsemin verði við svokallaða Keflavík sem er í um 5 km fjarlægð frá þeim lóðum sem áður var horft til og þar með utan þéttbýlisins. Lóðinni verður úthlutað skv. gildandi gjaldskrám og með fullum fyrirvara um lögbundna skipulagsferla.

2. Heidelberg hyggst ráðast í gerð nýrrar hafnar við lóð sína í Keflavík. Umgjörð hafnarinnar verður nánar skilgreind með samkomulagi aðila en er þar m.a. horft til svo kallaðs Spalarmódels sem gerir ráð fyrir því að höfnin verði byggð á ábyrgð og kostnað Heidelberg og rekstur hennar verði einnig á ábyrgð félagsins. Að ákveðnum tíma liðnum eignist sveitarfélagið höfnina.

3. Þegar verkefnið hefur verið mótað og frekari forsendur liggja fyrir stefnir Sveitarfélagið Ölfus að því að haldin verði íbúakosning um forsendur þeirra skipulagsbreytinga (aðal- og deiliskipulag) sem nauðsynlegar eru til að verkefnið fái framgang.

Hrönn Guðmundsdóttir, Grétar Ingi Erlendsson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Hrönn Guðmundsdóttir tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að undirrita samkomulagið.

Bæjarstjórn ítrekar enn fremur að haldin verður íbúakosning um framgang verkefnisins þegar frekari forsendur liggja fyrir og áður nauðsynlegar breytingar á aðal- og deiliskipulagi fá framgang.

Afgreiðslan var samþykkt með 6 atkvæðum bæjarfulltrúa D- og B-lista. Ása Berglind Hjálmarsdóttir bæjarfulltrúi H-lista sat hjá.
7. 2309034 - Dagforeldrar í Ölfusi - staða mála
Málið var tekið fyrir á fundi fjölskyldu- og fræðslunefndar 20.09.2023. Fyrir þeim fundi lá minnisblað sviðsstjóra um stöðu dagforeldrakerfisins í Þorlákshöfn. Þar kemur m.a. fram að dagforeldrar í Ölfusi hafi ákveðið að hætta störfum um mánaðarmótin mars/apríl 2024. Þá lá einnig fyrir bréf frá nokkrum foreldrum þar sem þeir lýsa áhyggjum af stöðu mála og óska eftir umbótaáætlun frá bæjaryfirvöldum.

Afgreiðsla nefndar:
Nefndin þakkar minnisblaðið og tekur undir þá aðgerðaáætlun sem þar kemur fram. Bent er á að þjónusta dagforeldra er ekki á vegum sveitarfélagsins og því mikilvægt að virða sjálfstæði þeirra sem rekstraraðila í samkeppnisumhverfi. Eftir sem áður er nefndin meðvituð um mikilvægi þess að stuðla að því að þjónusta dagforeldra sé í boði og telur þær tillögur sem fram koma í minnisblaðinu líklegar til að hvetja einstaklinga til að hefja störf sem dagforeldrar.

Með fyrirvara um samþykki bæjarráðs og/eða bæjarstjórnar um viðauka vegna tilgreinds kostnaðar felur nefndin því sviðsstjóra:
- að auglýsa eftir dagforeldrum til starfa í október.
- að bjóða stofnstyrk kr. 300.000 til þeirra dagforeldra sem eru tilbúin að hefja starfsemi í Þorlákshöfn/Ölfusi.
- að aðstoða við að setja upp öryggishnapp á kostnað sveitarfélagsins.
- að hvetja einstaklinga til að starfa sem dagforeldrar og um leið að auka þjónustu til foreldra/forráðamanna.
- að leita leiða, ef á þarf að halda, til að finna hentugt húsnæði fyrir starfsemina.
- að hækka framfærslu (heimgreiðslur) til foreldra í kr. 100.000 á mánuði.
- að auka niðurgreiðslu á þjónustu dagforeldra.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir, Grétar Ingi Erlendsson og Elliði Vignisson tóku til máls.

,,Bæjarfulltrúar B- og H- lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Miðað við frásagnir foreldra hefur verið allur gangur á því hvort að börn komist inn við 18 mánaða aldur á leikskólann og ljóst að árgangurinn sem verður 18 mánaða á næsta misseri er mjög stór og því lýsum við yfir miklum áhyggjum af dagvistunarmálum í sveitarfélaginu. Á sama tíma og staðan þyngist í dagvistunarmálum er mikil uppbygging í Þorlákshöfn og má reikna með fjölgun barnafjölskyldna. Það er ljóst að hér þurfum við að hugsa til lengri tíma með því að flýta byggingu nýs leikskóla eins og hægt er og stefna á að taka börn inn 12 mánaða á leikskóla og útrýma þessu ófremdarástandi sem foreldrar standa frammi fyrir þegar brúa þarf bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla."

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson.

Bæjarfulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
,,Fulltrúar D-lista vilja benda á að aldrei í sögu sveitarfélagsins frá því að Bergheimar voru stofnaðir hefur leikskólaplássum verið fjölgað jafn hratt og á síðustu tveimur árum. Fyrir tveimur árum var tekin í notkun ný stofa sem rúma á 20 börn. Um næstu áramót verður svo tekin í notkun önnur stofa sem einnig rúmar 20 börn og hefur plássum þá fjölgað um 40. Nú þegar er unnið að samkomulagi við Hjallastefnuna sem gerir ráð fyrir því að eftir áramót, vonandi eigi síðar en um mánaðarmótin mars-apríl, verði búið að tryggja öllum börnum eldri en 15 mánaða þjónustu leikskóla. Einnig vilja bæjarfulltrúar D-lista benda á að hönnun nýs leikskóla er lokið og útboðsgögn eru tilbúin. Þá eru jarðvegsframkvæmdir langt komnar og vonir standa til að hægt verði að bjóða út verklega framkvæmd núna í október eða öllu falli eigi síðar en í nóvember. Öll tilvísun til ófremdarástands er því vísað á bug."

Erla Sif Markúsdóttir, Gestur Þór Kristjánsson, Grétar Ingi Erlendsson og Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir.

Afgreiðsla fundar:
Bæjarstjórn tekur undir afstöðu nefndarinnar og felur starfsmönnum að gera ráð fyrir kostnaði vegna þeirra tillagna sem koma fram í afstöðu nefndarinnar í fjárhagsáætlun komandi árs sem taka munu gildi í upphafi komandi árs.

Samþykkt samhljóða
8. 2309015 - Jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2023-2026
Samkvæmt 13. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála skulu sveitarstjórnir að afloknum sveitarstjórnarkosningum sjá til þess að sveitarfélagið setji sér áætlun um jafnréttismál fyrir nýtt kjörtímabil. Fyrir fundinum liggur jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2023-2026 til samþykktar.
Bæjarstjórn samþykkir Jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2023 - 2026.

Samþykkt samhljóða.
9. 2309058 - Málstefna Sveitarfélagsins Ölfuss
Skv. 130.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skulu sveitarstjórnir móta sér málstefnu. Málstefna sveitarfélagsins er hér lögð fram til staðfestingar.
Elliði Vignisson tók til máls.

Bæjarstjórn samþykkir Málstefnu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.
10. 2112015 - Skólastefna Sveitarfélagsins Ölfuss
Bæjarstjórn tók til afgreiðslu skólastefnu Sveitarfélagsins Ölfuss. Málið var áður til umræðu á fundi fjölskyldu- og fræðslunefndar 20.09. sl.

Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að í maí 2022 hafi komið saman vinnuhópur sem myndaður var í því skyni að vinna að endurgerð skólastefnu Ölfuss. Hópurinn samanstóð af kjörnum fulltrúum, skólastjórnendum beggja skóla, fulltrúum kennara, fulltrúum foreldra og fulltrúum nemenda í grunnskólanum. Verkefna- og ritstjóri stefnunnar var Guðlaug Einarsdóttir og faglegur ráðgjafi dr. Ingvar Sigurgeirsson. Til að fá fram sjónarmið allra hagaðila voru haldnir upplýsinga- og vinnufundir með nemendum og starfsfólki sem og íbúaþing um stefnuna. Skipuð var ritnefnd sem samanstóð af verkefnastjóra og skólastýrum beggja skólanna.

Vinnuhópurinn hefur lokið störfum og er skólastefnan lögð fram til samþykktar.

Afgreiðsla nefndar var svohljóðandi: Nefndin þakkar ritstjóra, faglegum ráðgjafa, vinnuhópnum og öðrum sem komu að gerð skólastefnunnar kærlega fyrir góða vinnu.

Stefnan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Sviðsstjóra var í framhaldi falið að leggja lokahönd á vinnuskjalið samkvæmt þeim ábendingum sem komu fram á nefndarfundinum og koma skólastefnunni í birtingahæft form á vef Sveitarfélagsins Ölfus.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Elliði Vignisson tóku til máls.

Bæjarfulltrúar B- og H- lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Menntastefnan er afrakstur mikillar vinnu sem skólasamfélagið tók allt þátt í. Niðurstaðan er fagleg og spennandi stefna í menntamálum sveitarfélagsins til ársins 2030. Okkur langar að leggja áherslu á að vinnunni verði áfram haldið og búin verði til aðgerðaráætlun með tímasettum og mælanlegum markmiðum um innleiðingu á stefnunni til að auka líkurnar á að okkar góðu skólar verði búnir að ná markmiðum hennar árið 2030.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson.

Bæjarstjórn samþykkir skólastefnu sveitarfélagsins og þakkar þeim fjölmörgu sem komu að gerð hennar.

Samþykkt samhljóða.
11. 2309024 - Skipan í starfshóp um uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk
Beiðni frá Bergrisanum bs. um tilnefningu í starfshóp um uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk á starfssvæði Bergrisans.
Bæjarstjórn samþykkir að Erla Sif Markúsdóttir taki sæti í starfshópi um uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk á starfssvæði Bergrisans.

Samþykkt samhljóða.
12. 2310006 - Stofnun nefndar sem skipuð er íbúum í Ölfusi með erlendan bakgrunn - tillaga frá B og H lista
Fyrir bæjarstjórn lá tillaga frá bæjarfulltrúum B- og H-lista um stofnun nefndar sem skipuð er íbúum í Ölfusi með erlendan bakgrunn.

Tillagan er svohljóðandi:

"Nú þegar verið er að endurskoða stjórnskipulag sveitarfélagsins og bæta á við nefnd sem fjallar um málefni dreifbýlisins langar okkur í minnihluta að leggja til að á sama tíma verði stofnuð nefnd sem í sitja fulltrúar íbúa í Þorlákshöfn sem hafa erlendan bakgrunn. Viljum við horfa sérstaklega til þess sem hefur verið gert með góðum árangri í Vík í Mýrdal. Markmið með nefndinni er að búa til sterkan og markvissan vettvang fyrir raddir þeirra 22% íbúa sem hér búa og eru með erlendan bakgrunn, auðvelda þeim aðlögun og aðgengi að samfélaginu, veita þeim aðgengi til að taka þátt í stjórnsýslunni og móta samfélagið og síðast en ekki síst nýta þeirra reynslu til að gera samfélagið enn betra fyrir fólk með erlendan bakgrunn."

Hrönn Guðmundsdóttir, Elliði Vignisson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Grétar Ingi Erlendsson og Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir tóku til máls.

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir lagði fram eftirfarandi frávísunartillögu fyrir hönd bæjarfulltrúa D-lista:
,,Bæjarstjórn telur ekki ástæðu að svo stöddu til að skipa sérstaka nefnd sem skipuð er íbúum í Ölfusi með erlendan bakgrunn. Bent er á að af 614 íbúum með erlent ríkisfang eru 304 þeirra eða 50% með sömu 12 heimilisföngin. Yfirgnæfandi meirihluti þessara íbúa eru karlmenn á vinnualdri sem líklegt má telja að dvelji hér um lengri eða skemmri tíma vegna atvinnu sinnar.
Þar sem framkomin tillaga vísar til fordæmis í Vík í Mýrdal er rétt að halda til haga að rúmlega 61% íbúa þar er með erlent ríkisfang. Það er því aðdáunarvert að stjórnsýslan þar gæti sérstaklega að þessari einstöku stöðu meðal íslenskra sveitarfélaga. Slíkt hið sama hugleiða sjálfsagt t.d. Skaftárhreppur, sem er með 43,1% hlutfall erlendra ríkisborgara, og Bláskógabyggð með 36,4%.
Í stað þess að stofna nefnd sem er skipuð íbúum með erlendan bakgrunn telur bæjarstjórn vænlegra að leggja áherslu á að samtvinna alla þjónustu sveitarfélagsins þannig að hún standi öllum íbúum til boða óháð ríkisfangi. Með það í huga beinir bæjarstjórn því til forstöðufólks hjá sveitarfélaginu að gæta sérstaklega að þörfum íbúa með erlent ríkisfang við mótun þjónustuúrræða.
Að öðru leyti vísar bæjarstjórn því til fjölskyldu- og fræðslunefndar að huga sérstaklega að þörfum íbúa með erlent ríkisfang og eftir atvikum láta fara fram sérstakt mat á þörf fyrir aukin úrræði fyrir þennan hóp íbúa."

Frávísunartillagan var lögð í atkvæðagreiðslu og var hún samþykkt með 4 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista, bæjarfulltrúar B-lista sátu hjá og bæjarfulltrúi H-lista greiddi atkvæði á móti tillögunni.
13. 2306003 - ASK Nýir jarðstrengir að fiskeldi vestan Þorlákshafnar
Verkfræðistofan EFLA leggur fram breytingu á aðalskipulagi sem fjallar um jarðstrengi frá tengistöð við Suðurstrandaveg að lóðum fiskeldisstöðvanna First Water (sem áður hét Landeldi ehf) og Geo Salmo. Bæði þéttbýlis- og dreifbýlisuppdrættir breytast.

Búið er að auglýsa skipulagslýsingu vegna breytingarinnar sem samþykkt var á 51. fundi nefndarinnar í júní.

Í fylgiskjali er kort sem sýnir nákvæma staðsetningu strengjanna.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa breytinguna og ganga frá málinu í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Þess verði gætt við lagningu strengjanna að innviðir sveitarfélagsins, eins og stígar, verði ekki fyrir skemmdum og haldist opnir. Vestan við núverandi göngustíg verði gengið frá yfirborði skurða þannig að sveitarfélagið geti lagt göngustíg.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
14. 2305035 - Fasteignaþróun við Óseyrarbraut
Bæjarstjórn ræddi fasteignaþróun við Óseyrarbraut. Málið var síðast rætt á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 20.09.

Fyrir liggur að á 46. fundi skipulags- og umhverfisnefndar samþykkti nefndin að kanna áhuga byggingarfyrirtækja á því að koma að fasteignaþróun við sunnanverða Óseyrarbraut. Í kjölfarið á því var auglýst eftir samstarfi við áhugasama aðila um þróun byggðar sem gæti rúmað 90 til 120 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Samhliða var tilkynnt að til skoðunar væru forsendur byggingar á hjúkrunarheimili við Egilsbraut og fjölgun sérhæfðs leiguhúsnæðis fyrir aldraða.

Í auglýsingunni kom m.a. fram að við hönnun svæðisins væri lögð áhersla á lágreista byggð sem félli vel að eldri mannvirkjum á aðliggjandi svæði. Ráðandi hlutfall íbúða skyldi vera hugsað fyrir fjölskyldufólk og umhverfið m.a. hannað út frá þörfum barna. Byggingar skyldu vera fjölbreyttar og til þess fallnar að skapa svæðinu hlýlegt og manneskjulegt yfirbragð sem tengir saman hafnarsvæðið og nýjan miðbæ sem unnið verður að samhliða.

Til að skerpa á þeim þáttum sem sveitarfélagið lagði áherslu á mótaði skipulagsnefnd eftirfarandi matskvarða við val á samstarfsaðila um fasteignaþróun við Óseyrarbraut:

Hugmyndafræði 25%
Áhugasamir skili inn ítarlegum lýsingum á því hvernig þeir sjá fyrir sér fasteignaþróun við Óseyrarbraut. Mikilvægt er að fram komi áætlað byggingarmagn, hlutfall íbúðarhúsnæðis gagnvart annarri nýtingu, áætluð stærð íbúða og hlutfall hvers stærðarflokks, drög að útliti bygginga, byggingarefni og annað það sem auðveldar sveitarfélaginu að meta hugmyndina. Æskilegt er að gögn séu studd teikningum, eftir atvikum þrívíddarteikningum.

Fólk í fyrirrúmi 15%
Áhugasamir skili inn ítarlegum upplýsingum um það hvernig tryggt verður að hverfið falli að fyrirliggjandi byggingum og hvernig tilkoma þess getur stutt við mannlíf, menningu og annað sem setur íbúa og gesti þeirra í fyrirrúm.

Reynsla af sambærilegum verkefnum 15%
Áhugasamir skili inn lýsingum af sambærilegum verkefnum sem þeir hafa komið að.

Fjárhagsleg geta 15%
Áhugasamir skili inn yfirliti yfir niðurstöður seinustu þriggja ársreikninga. Gögnin verða nýtt til að leggja mat á fjárhagslega burði viðkomandi til að ráðast í verkefnið.

Tímarammi verkefnisins 15%
Áhugasamir skili inn drögum að tímaramma verkefnisins með áherslu á framkvæmdahraða á áfangaskiptingu.

Þjónusta við aldraða 15%
Á skipulagssvæðinu og við jaðar þess liggur svæði sem skipulagt hefur verið undir þjónustu fyrir aldraða. Sveitarfélagið Ölfus hefur einlægan áhuga á að framkvæmdir við Óseyrabraut verði til að byggja upp enn frekari þjónustu við aldraða. Því er þess óskað að áhugasamir geri grein fyrir því hvort og þá hvernig þeir sjá fyrir sér að framkvæmdin geti orðið til þess að auka þjónustu við aldraða hvað varðar til að mynda aukið framboð af heppilegum eignum, heppilegu leiguhúsnæði, hjúkrunarheimili eða hvað annað sem stutt gæti við þróun á skipulagsreit fyrir aldraða.

Svo fór að 6 fyrirtæki skiluðu inn hugmyndum sínum og þar með ósk eftir samstarfi. Um er að ræða fyrirtækin Íslenskar fasteignir, Nordic/Ísold, Skuggi Byggingafélag, Hrímgrund, Múr og eftirlit, og VSÓ ráðgjöf/Sundaborg/Fortis.
Til að auðvelda yfirferð var farin sú leið að fela arkitekt í sumarstarfi hjá Ölfus Cluster að yfirfara innsend gögn og draga saman upplýsingar. Við yfirferð lá niðurstaða hennar og mat fyrir.

Afgreiðsla nefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd beinir því til bæjarstjórnar að ganga til samninga við fleiri en eitt fyrirtæki sökum umfangs verkefnisins.

Í ljósi innsendra gagna og fyrirliggjandi úrvinnslu þeirra leggur nefndin til að byrjað verði á því að ræða við Íslenskar fasteignir og Nordic/Ísold um mögulegt samstarf um þróun reitsins.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Elliði Vignisson tóku til máls.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir bæjarfulltrúi H-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
,,Það vantar ekki lóðaframboð í Ölfusi, ný hverfi eru að rísa og önnur í skipulagsferli. Nú tel ég rétt að staldra við svo að uppbygging og innviðir samfélagsins haldist í hendur. Þar að auki tel ég þetta svæði henta ákaflega illa fyrir aukna íbúabyggð vegna nálægðar við höfn og atvinnusvæði, vikurhauga og þá hávaða og umhverfismengun sem kemur af iðnaðarsvæðinu yfir þá byggð sem fyrir er. Nóg er af landi í sveitarfélaginu og því ekki ástæða til að þétta byggðina þarna við gamla bæinn. Betra er að mínu mati að eiga þetta svæði fyrir hafnsækna starfsemi, þjónustu, skrifstofur, móttökur fyrir skemmtiferðaskip, afþreyingu og þróun og uppbyggingu á grænum svæðum."

Grétar Ingi Erlendsson lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa D-lista:
,,Bæjarfulltrúar D-lista lýsa undrun sinni á bókun fulltrúa H-lista sem enn og aftur leggst gegn framfara hugmyndum sem tengjast uppbyggingu samfélagsins. Umrætt mál hefur verið rætt og reifað í marga mánuði án þess að nokkur fulltrúi H-lista hreyfi þar mótmælum. Nú á seinustu mínútu við vinnslu málsins leggst bæjarfulltrúinn gegn málinu.
Bent er á að ekkert í umhverfi þeirra lóða sem til umræðu eru kemur væntanlegum framkvæmdaaðilum né íbúum á óvart og þeim því frjálst að velja sjálfir hvort þeim líkar búseta nærri atvinnusvæði eða ekki. Þá er og bent á að fagnefndin skipulags- og umhverfisnefnd hefur varið mikilli vinnu við undirbúning þessa máls og hvorki sanngjarnt né eðlilegt að ganga fram með þessum máta í andstöðu við nefndina."

Niðurstaða nefndarinnar staðfest með 6 atkvæðum bæjarfulltrúa D- og B-lista, bæjarfulltrúi H-lista sat hjá.
15. 2309039 - Lýsuberg 10 grenndarkynning L171049
Eigandi að Lýsubergi 10 óskar eftir að byggja við húsið í samræmi við skissur í viðhengi. Um er að ræða um 32 fermetra stækkun við hús sem er 196,2 fermetrar fyrir, eða rúmlega 16% stækkun.

Afgreiðsla nefndar: Samþykkt að grenndarkynna tillöguna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 2. málsgr. 43 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br eftir að skilyrðin hafa verið uppfyllt.
Tillagan verði grenndarkynnt með bréfi til lóðarrétthafa eftirtalinna lóða: Setberg 19, 21 og 23 og Lýsuberg 8 og 12.
Umsækjandi þarf að skila inn málsettri afstöðumynd, grunnmynd og sneiðingu af viðbyggingunni auk samþykkis þinglýstra eiganda hússins, áður en tillagan verður grenndarkynnt.
Hrönn Guðmundsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.

Hrönn Guðmundsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest með 6 atkvæðum.

Hrönn Guðmundsdóttir kom aftur inn á fundinn.
16. 2309040 - DSK Breytinga deiliskipulaginu Hjarðarból lóðir 1 og 2
Hermann Ólafsson leggur fram breytingu á deiliskipulagi Hjarðarbóls lóðir 1 og 2 sem hjá Skipulagsstofnun er flokkað sem "Hjarðarból svæði 3 og 4". Bætt er við lóð fyrir dæluhús við borholu og settir byggingarskilmálar fyrir það. Einnig er skipulagsmörkum breytt lítillega svo lóðin verði innan skipulagssvæðisins.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
17. 2309010 - DSK Þrastarvegur 1 - breyting á deiliskipulagi
Baldur Ó. Svafarsson arkitekt leggur fram breytingu á deiliskipulagi Þrastarvegar 1. Deiliskipulagi er breytt þannig að unnt sé að byggja eitt hús sem hýsir bæði íbúð og verkstæði/skemmu og hesthús undir einu þaki í stað þriggja.
Nefndin tók jákvætt í fyrirspurn um erindi í þessa veru á 47. fundi í mars. Ekki er um aukningu á byggingarmagni að ræða frá fyrri tillögu

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
18. 2303017 - DSK Vesturbyggð norðan Selvogsbrautar ÍB10 og ÍB11
Tillaga að deiliskipulagi nýs hverfis vestan við bæinn, norðan Selvogsbrautar hefur verið auglýst. Ekki komu athugasemdir frá lögboðnum umsagnaraðilum nema hvað Minjastofnun benti á eina vörðu sem hefði lent innan lóðar á skipulagsuppdrætti. Skipulagshöfundur hefur lagfært gögn til samræmis við það og fyrir liggur bréf frá Minjastofnun þar sem heimilað er að auglýsa gildistöku skipulagsins með skilyrði um að sótt verði um leyfi til að raska vörðunni áður en framkvæmdir hefjast á lóðinni sem varðan er á.
Íbúi á nærliggjandi svæði í bænum gerði athugasemd við skipulagið og er tillaga að svarbréfi í viðhengi.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Skipulagsfulltrúa falið að svara íbúanum í samræmi við fyrirliggjandi tillögu að svarbréfi.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
19. 2301039 - DSK Deiliskipulag Bjarnastaðir L171687
Skipulagsstofnun gerði kom með nokkrar ábendingar við lokayfirferð tillögunnar. Í viðhengi er uppfærð tillaga þar sem skerpt hefur verið á ýmsu í samræmi við ábendingar skipulagsstofnunar.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
20. 2206054 - DSK Geo Salmo fiskeldi - Básar vestan við Keflavík
Skipulagsstofnun gerði nokkrar athugasemdir við yfirferð deiliskipulags fiskeldisstöðvar Geo Salmo í Básum. Skipulagshöfundar hafa nú brugðist við og uppfært tillöguna í samræmi við athugasemdirnar.

Í fylgiskjali er uppfærð tillaga og jafnframt minnisblað frá skipulagshöfundi þar sem farið er nákvæmlega í gegnum það sem var breytt/bætt.

Breytingarnar eru ekki þess eðlis að auglýsa þurfi tillöguna aftur.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
21. 2302023 - ASK og DSK Litla Sandfell breyting á aðalskipulagi og deiliskipulag
Lögð er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi fyrir námasvæðið við Litla-Sandfell. Unnið hefur verið umhverfismat og liggur álit Skipulagsstofnunar þar um fyrir.

Sértæk skipulagsákvæði fyrir svæðið eru óbreytt nema hvað námasvæðið er stækkað úr 24,3 ha. í 40 ha. og heildar efnistaka eykst úr 10.000.000 rúmmetrum í 18.000.000 rúmmetra:

Eftirfarandi sértæk skipulagsákvæði koma fram í tillögunni:
Þar sem hluti námunnar er á fjarsvæði vatnsverndar skal liggja fyrir aðgerðaráætlun um hvernig bregðast skuli við óhöppum varðandi mengandi efni, áður en starfleyfi er gefið út. Áætluð efnitaka á ári er um 625.000 m3. Gera þarf deiliskipulag og vinna umhverfismat áður en náman er tekin í notkun.

Nefndin hefur áður samþykkt skipulaglýsingu vegna breytingarinnar.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að óska eftir að Skipulagsstofnun auglýsi tillöguna í samræmi við 31. grein skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br. Hrönn Guðmundsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest með 5 atkvæðum Gests Þórs Kristjánssonar D-lista, Erlu Sifjar Markúsdóttur D-lista, Grétars Inga Erlendssonar D-lista, Sigurbjargar Jennýjar Jónsdóttur D-lista og Vilhjálms Baldurs Guðmundssonar B-lista. Hrönn Guðmundsdóttir B-lista sat hjá og Ása Berglind Hjálmarsdóttir H-lista greiddi atkvæði á móti.
22. 2306003 - ASK Nýir jarðstrengir að fiskeldi vestan Þorlákshafnar - rafstrengir
Verkfræðistofan EFLA leggur fram breytingu á aðalskipulagi sem fjallar um jarðstrengi frá tengistöð við Suðurstrandaveg að lóðum fiskeldisstöðvanna First Water (sem áður hét Landeldi ehf) og Geo Salmo. Bæði þéttbýlis- og dreifbýlisuppdrættir breytast.

Búið er að auglýsa skipulagslýsingu vegna breytingarinnar sem samþykkt var á 51. fundi nefndarinnar í júní.

Í fylgiskjali er kort sem sýnir nákvæma staðsetningu strengjanna.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa breytinguna og ganga frá málinu í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Þess verði gætt við lagningu strengjanna að innviðir sveitarfélagsins, eins og stígar, verði ekki fyrir skemmdum og haldist opnir. Vestan við núverandi göngustíg verði gengið frá yfirborði skurða þannig að sveitarfélagið geti lagt göngustíg.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
Fundargerðir til staðfestingar
23. 2308006F - Skipulags- og umhverfisnefnd - 57
Fundargerð 57.fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 06.09.2023 til staðfestingar.

1. 2306003 - ASK Nýir jarðstrengir að fiskeldi vestan Þorlákshafnar. Tekið fyrir sérstaklega.
2. 2210005 - DSK Eima - Deiliskipulag í landi Eimu i Selvogi. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
3. 2308044 - Stofnun lóðar fyrir hótel á reit VÞ5 úr L209844. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
4. 2308003 - Latur - sögulegum stein fundinn viðeigandi staður.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Elliði Vignisson tóku til máls undir þessum lið. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
5. 2308048 - Fyrrum Suðurlandsvegur - ný skilti. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
6. 2309001 - Umferðaskilti i dreifbýli Ölfus. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
7. 2308005F - Afgreiðslunefnd byggingarfulltrúa - 53. Til kynningar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
24. 2309001F - Stjórn vatnsveitu - 14
Fundargerð 14.fundar stjórnar vatnsveitu frá 05.09.2023 til staðfestingar.

1. 2307014 - Kaldavatnsveitan Seyla í Árbæjarhverfi. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
2. 2309003 - Beiðni um tenging við vatnsveitu Ölfuss- Háagljúfur. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
3. 2309004 - Beiðni um tenging við vatnsveitu Ölfuss- Akurholt. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
4. 2309006 - Beiðni um tenging við vatnsveitu Ölfuss- Kambastaðir. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
5. 2305048 - Vatnsveita dreifbýli - úttekt vatnsbólum Ölfusborgir og Berglind. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.

25. 2309006F - Íþrótta- og tómstundanefnd - 40
Fundargerð 40.fundar íþrótta- og tómstundanefndar frá 13.09.2023 til staðfestingar.

1. 2309019 - Frístundastyrkir 2022.
Grétar Ingi Erlendsson tók til máls undir þessum lið og lagði til að tillögum sem fram koma í fundargerðinni varðandi nýtingu elsta hóps barna á frístundastyrkjum verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar. Samþykkt samhljóða.
2. 2309022 - Skólahreystivöllur. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
3. 2309020 - Starfsskýrsla og ársskýrsla Ungmennafélagsins Þór 2022. Til kynningar.
4. 2309014 - Knattspyrnufélagið Ægir. Til kynningar.
5. 2309013 - Golfklúbbur Þorlákshafnar. Til kynningar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.

26. 2309004F - Framkvæmda- og hafnarnefnd - 43
Fundargerð 43.fundar framkvæmda- og hafnarnefndar frá 13.09.2023 til staðfestingar.

1. 2304034 - Girðingar á lóðum hafnarsvæðis. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
2. 2109002 - Stækkun hafnarinnar Áfangi 1. Suðurvarargarður og Suðurvararbryggja. Til kynningar.
3. 2209001 - Svartaskersbryggja endurbygging þekju. Til kynningar.
4. 2301017 - Framkvæmdaráætlun 2022-23. Til kynningar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.

27. 2309002F - Skipulags- og umhverfisnefnd - 58
Fundargerð 58.fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 20.09.2023 til staðfestingar.

1. 2309035 - ASK Meitlar og Hverahlíð II - Aðalskipulagsbreyting vegna rannsóknaboranna. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
2. 2302017 - DSK Meitlar deiliskipulag vegna rannsóknarborhola í Meitlum á Hellisheiði. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
3. 2302023 - ASK og DSK Litla Sandfell breyting á aðalskipulagi og deiliskipulag. Tekið fyrir sérstaklega.
4. 2206054 - DSK Geo Salmo fiskeldi - Básar vestan við Keflavík. Tekið fyrir sérstaklega.
5. 2301039 - DSK Deiliskipulag Bjarnastaðir L171687. Tekið fyrir sérstaklega.
6. 2303017 - DSK Vesturbyggð norðan Selvogsbrautar ÍB10 og ÍB11. Tekið fyrir sérstaklega.
7. 2309010 - DSK Þrastavegur 1 - breyting á deiliskipulagi. Tekið fyrir sérstaklega.
8. 2309040 - DSK Breytinga deiliskipulaginu Hjarðarból lóðir 1 og 2. Tekið fyrir sérstaklega.
9. 2309039 - Lýsuberg 10 grenndarkynning L171049. Tekið fyrir sérstaklega.
10. 2305035 - Fasteignaþróun við Óseyrarbraut. Tekið fyrir sérstaklega.
11. 2203020 - Bárugata 1 - umsókn um fjölgun íbúða og breytingu á deiliskipulagi. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
12. 2309008 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Reykir - Flokkur 1. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
13. 2309007 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Reykir - Flokkur 1. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
14. 2309029 - Unubakki 32 - nú Unubakki 50 L209551. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
15. 2309037 - Skólahreystibraut. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
16. 2309021 - Minningarsteinn við þjóðveginn. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
17. 2003004 - Umsókn um afnot af lóð. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
18. 2309028 - Ályktun um skógarreiti og græn svæði innan byggðar - Skógræktarfélag Íslands. Til kynningar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
28. 2309008F - Afgreiðslunefnd byggingarfulltrúa - 54
Fundargerð 54.fundar afgreiðslunefndar byggingarfulltrúa frá 21.09.2023 til kynningar.

1. 2309047 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Kolviðarhóll lóð 1 - Flokkur 1
2. 2307029 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Elsugata 19-21-23 - Flokkur 2
3. 2309048 - Umsókn um stöðuleyfi

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
29. 2309007F - Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 13
Fundargerð 13.fundar fjölskyldu- og fræðslunefndar frá 20.09.2023 til staðfestingar.

1. 2309050 - Frístundaheimilið - kynning. Til kynningar.
2. 2302055 - Skýrsla leikskólastjóra. Til kynningar.
3. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra. Til kynningar.
4. 2309044 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn - starfsáætlun. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
5. 2309036 - Skólaþjónusta Ölfuss - kynning. Til kynningar.
6. 2112015 - Skólastefna Sveitarfélagsins Ölfuss. Tekið fyrir sérstaklega.
7. 2309032 - Greining á úrræðum í stigskiptri þjónustu við börn. Til kynningar.
8. 2309034 - Dagforeldrar í Ölfusi - staða mála. Tekið fyrir sérstaklega.
9. 2309038 - Íþróttavika Evrópu - dagskrá í Ölfusi. Til kynningar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
30. 2308007F - Bæjarráð Ölfuss - 403
Fundargerð 403.fundar bæjarráðs frá 05.09.2023 til staðfestingar.

1. 2308046 - Dreifbýlisnefnd - minnisblað. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
2. 2308047 - Beiðni um endurnýjun á viljayfirlýsingu vegna Hnjúkamóa 2 og 4. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
3. 2309002 - Beiðni um gjaldfrest. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
4. 2308041 - Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2024-2027. Til kynningar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
31. 2309005F - Bæjarráð Ölfuss - 404
Fundargerð 404.fundar bæjarráðs frá 19.09.2023 til staðfestingar.

1. 2304034 - Girðingar á lóðum hafnarsvæðis. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
2. 2305015 - Viðauki fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2023. Tekið fyrir sérstaklega.
3. 2308041 - Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2024-2027. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
4. 2308047 - Viljayfirlýsing vegna Hnjúkamóa 2 og 4. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
5. 2309031 - Beiðni um framlag til starfsemi Stígamóta 2024. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
6. 2309042 - Beiðni um styrk vegna Erasmus verkefnis. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
7. 2309023 - Hvatning til sveitarstjórna um mótun málstefnu. Til kynningar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
40. 2310001F - Bæjarráð Ölfuss - 405
1. 2310003 - Beiðni um aukinn stuðning við afreksstarf hjá Knattspyrnufélaginu Ægi. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
2. 2310012 - Beiðni um styrk - Sjóðurinn góði Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
3. 2310013 - Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa 2023. Til kynningar.
4. 2310014 - Áhersluverkefni fyrir Sorpstöð Suðurlands 2024 Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
5. 2310015 - Uppbygging skólaþjónustusvæða í landshlutanum Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
6. 2310002 - Bréf til sveitarfélaga um innviði fyrir orkuskipti Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
7. 2310001 - Samráðsgátt - Hvítbók um skipulagsmál Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
8. 1704002 - Lagafrumvörp Beiðni Alþingis um umsögn. Til kynningar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
Fundargerðir til kynningar
32. 1601020 - Hreinlætismál Fundargerðir stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands.
Fundargerð 319.fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands frá 07.09.2023 og 320.fundar frá 02.10.2023 til kynningar.

Lagt fram til kynningar.
33. 1701026 - Brunamál Fundargerðir stjórnar Brunavarna Árnessýslu
Fundargerð 10.fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu frá 05.09.2023 til kynningar.
Lagt fram til kynningar.
34. 1603005 - Samstarf sveitarfélaga Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerð 932.fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 08.09.2023 og 933.fundar frá 18.09.2023 til kynningar.

Lagt fram til kynningar.
35. 1701032 - Fræðslumál Fundagerðir stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga.
Fundargerð 207.fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga frá 13.09.2023.
Lagt fram til kynningar.
36. 2009052 - Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands
Fundargerð 230.fundar stjórnar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 11.09.2023 til kynningar.

Lagt fram til kynningar.
37. 1602012 - Samstarf sveitarfélaga Fundargerðir stjórnar SASS.
Fundargerð 598.fundar stjórnar SASS frá 17.08.2023, 599. fundar frá 01.09.2023 og 600.fundar frá 18.09.2023 til kynningar.

Lagt fram til kynningar.
38. 2009027 - Fundargerðir stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga.
Fundargerð aukaaðalfundar Samtaka orkusveitarfélaga frá 19.09.2023 til kynningar.
Lagt fram til kynningar.
39. 1805041 - Menningarmál Fundargerðir stjórnar Byggðasafns Árnesinga
Fundargerð 8.fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga frá 23.09.2023 til kynningar.
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:05 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?