Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 380

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
18.08.2022 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602017 - Fjármál Fjárhagsupplýsingar Sveitarfélagið Ölfus.
Fyrir fundinum lá rekstraryfirlit Sveitarfélagsins Ölfuss 30.06.2022 til kynningar.

Samanburður við sama tímabil 2021 sýnir að skatttekjur hækka á milli ára um 10% eða rétt rúmlega 115 milljónir. Mestu munar þar um að útsvar hækkar um 11%.

Gjöld vegna félagsþjónustu hækka á milli ára um 11% og fara úr 187 milljónum í 206 milljónir, fræðslu- og uppeldismál hækka um 1% og fara úr 633 milljónum í 638 milljónir og æskulýðs- og íþróttamál hækka um 5% og fara úr 157 milljónum í 165 milljónir.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar
2. 2109036 - Skólaakstur dreifbýli Ölfuss.
Á 366.fundi bæjarráðs þann 16.12.2021 samþykkti bæjarráð aukafjárveitingu frá áramótum og til loka skólaársins 2021-2022 vegna viðbótaraksturs í heimkeyrslu grunnskólabarna í dreifbýli. Reynsla af akstrinum er mjög góð og hefur stytt viðveru barnanna í bílnum til muna, því er lagt til að akstrinum verði haldið áfram á því skólaári sem nú er að hefjast. Áætlaður kostnaður er um 4,5 milljónir fram að áramótum.



Bæjarráð samþykkir áframhaldandi akstur sambærilegan þeim sem var frá áramótum og til vors á síðasta skólaári og felur starfsmönnum að vinna viðauka vegna þess.

Samþykkt samhljóða.

3. 2206073 - Beiðni um lausnarlaun.
Trúnaðarmál, bókun færð í trúnaðarbók.
4. 2208005 - Styrkbeiðni vegna reksturs Aflsins 2022-2023
Styrkbeiðni frá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu þar sem það rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar.

Samþykkt samhljóða.
5. 2208027 - Þróun stjórnsýslu - minnisblað
Fyrir bæjarráði lá minnisblað þar sem vakin er athygli á þörf fyrir breytingu á stjórnsýsluumhverfi sveitarfélagsins vegna mikillar fjölgunar íbúa og stóraukinna verkefna. Í minnisblaðinu eru lögð drög að breytingu á skipuriti.
Bæjarráð samþykkir tilgreinda breytingu á skipuriti og felur starfsmönnum sínum að fylgja málinu eftir í samræmi við fram settar tillögur.

Samþykkt samhljóða.
6. 2208028 - Erindi frá kærunefnd útboðsmála vegna kæru Sportís
Fyrir bæjarráði lá erindi frá kærunefnd útboðsmála vegna kæru Sportís þar sem Sportís ltd.. kærir útboð vegna vatnsrennibrauta og stigahúss við sundlaug Þorlákshafnar.
Bæjarráð felur starfsmönnum sínum að láta lögmann sveitarfélagsins gæta hagsmuna sveitarfélagsins vegna málsins.

Samþykkt samhljóða.
7. 2208020 - Kotstrandarkirkjugarður viðhald
Erindi frá kirkjugarðsnefnd Kotstrandarkirkjugarðs þar sem farið er yfir fyrirhugaðar framkvæmdir og lagfæringar í garðinum.
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og óskar eftir því að tilgreindur kostnaður liggi fyrir áður en fjárhagsáætlun þess árs sem útgjöldin tilheyra er unnin.

Samþykkt samhljóða.
8. 2208021 - Reglur um ferðastuðning við námsmenn - endurskoðun
Bæjarráð samþykkir endurskoðaðar reglur um ferðastuðning við námsmenn í sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða..
9. 2208024 - Beiðni um innviðagreiningu - Vegagerðin
Fyrir bæjarráði lá erindi sem sent var á Vegagerðina í framhaldi af umræðu um mikilvægi innviðauppbyggingar vegna þess mikla vaxtar sem er að verða í atvinnulífinu í Þorlákshöfn.

Í erindinu kemur m.a. fram að hin mikla uppbygging m.a. í tengslum við matvælaframleiðslu, jarðefnaiðnað og orkufrekan iðnað í Ölfusi kallar á að innviðir sveitarfélagsins og þá sér í lagi þéttbýlisins í Þorlákshöfn verði styrktir verulega. Ljóst er að höfnin mun leika hér lykil hlutverk, ekki bara fyrir þá uppbyggingu sem á sér stað innan sveitarfélagsins heldur í landshlutanum og landinu öllu. Til að tryggja áframhaldandi vöxt og hámörkun á arðsemi er nauðsynlegt að höfnin vaxi samhliða og nái að anna bæði inn- og útflutningsþörfinni. Á sama hátt er mikilvægt að tengd samgöngumannvirki verði styrkt verulega til að anna til- og fráflæði hafnarinnar. Í dag eru mörg atvinnutengd verkefni í uppbyggingarfarvegi. Flest þeirra eru eðlilegir fylgifiskar vaxandi samfélags og kalla í raun ekki á nein sérstök viðbrögð hvað samgöngur varðar. Má í þessu samhengi nefna léttiðnað, þjónustufyrirtæki og ferðaþjónustu.

Öðru máli gegnir hins vegar um þau verkefni sem ekki geta talist innan slíks hefðbundins vaxtaramma:

1. Landeldi á laxi upp á 90 þúsund tonn - fjárfesting upp á 160 milljarða.
2. Jarðefni - uppsetning á framleiðslufyrirtæki og útflutningur á 3,5 milljónum tonna af jarðefnum
3. Rafeldsneyti og hliðarafurðir.

Eins og gefur að skilja mun vöxtur atvinnulífsins og sókn hafnarinnar kalla á aðgerðir á sviði samgöngumála. Vegna þessa óskar Sveitarfélagið Ölfus eftir því að:

1. Umsóknum um framlag hafnarinnar á Samgönguáætlun 2023 til 2027 verði mætt.

2. Tafarlaust verði ráðist í úttekt á nauðsynlegum vegaframkvæmdum þar sem metið verður hvort og þá hversu vel gatnakerfið mun ráða við stóraukið álag vegna flutninga til og frá höfn. Verði þar ma. metið:

a. Þrengslavegur, geta hans til að bera flutninga á 3 milljónum tonna af jarðefnum frá Lambafellsnámu niður að Þorlákshöfn auk annarrar umferðar. Metin verði þörfin fyrir tvöföldun, klifurrein við Skógarhlíðabrekku, breytingar á gatnamótum og fl.

b. Þorlákshafnarvegur frá Hveragerði að gatnamótum við Þrengsli. Metin verði þörfin fyrir frekari uppbyggingu vegarins, breikkun og breytingu gatnamóta.

c. Þorlákshafnarvegur frá gatnamótum við Þrengsli og að Þorlákshöfn. Metin verði þörfin fyrir frekari uppbyggingu vegarins, breikkun og breytingu gatnamóta. Sérstaklega verði litið til tengingar vegarins inn á hafnarsvæðið í Þorlákshöfn.



Bæjarráð tekur undir minnisblaðið og og ítrekar óskir um að Vegagerðin svari skriflega hvort og þá hvernig þessum beiðnum verði mætt, eftir atvikum með tímasettri aðgerðaráætlun.

Samþykkt samhljóða.
Fundargerðir til kynningar
10. 1701032 - Fræðslumál Fundagerðir stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga.
Fundargerð 202.fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga frá 16.08.2022 til kynningar.
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:45 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?