Fundargerðir

Til bakaPrenta
Skipulags- og umhverfisnefnd - 82

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
06.11.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Geir Höskuldsson formaður,
Hjörtur S. Ragnarsson varaformaður,
Margrét Polly Hansen Hauksdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Guðmundur Oddgeirsson áheyrnarfulltrúi,
Sigurður Steinar Ásgeirsson skipulagsfulltrúi,
Kristina Celesova embættismaður,
Fundargerð ritaði: Sigurður Steinar Ásgeirsson, Skrifstofu- og verkefnastjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2410041 - M2 Óseyrarbraut - breyting á aðalskipulagi
Skipulagshöfundar munu koma fyrir fundinn klukkan 9 og kynna skipulagstillöguna.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin þakkar kynninguna.
2. 2410070 - Uppskipting landeignar - Hnjúkamói 5
Lagt er fram merkjalýsing: Uppskipting landeignar - Hnjúkamói 5.
Afgreiðsla: Samþykkt
3. 2410073 - Engidalshvísl - Stækkun byggingarreits DSKbr
Lögð er fram óveruleg breyting á deiliskipulaginu Engidalskvísl þar sem finna má vatnstökuholur Orkuveitunnar. OR þurfa að koma fyrir búnaði (hraðabreyti) við hverja holu og því er nauðsynlegt að byggja yfir borholurnar. Með skipulaginu er byggingarreitur stækkaður svo borholur falli innan byggingarreits og þannig verði heimilt að reisa mannvirki á þeim.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulags og byggingarfulltrúum verði heimilað að samþykkja breytinguna og ganga frá málinu í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
4. 2402017 - Grímslækjarheiði - Hraunkvíar DSK
Lagt er fram deiliskipulag fyrir Ytri-Grímslæk og Hraunkvíar sem eru saman um 9,2 ha. að stærð. Til stendur að afmarka 14 íbúðalóðir í samræmi við aðalskipulag Ölfuss reit ÍB17.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Frestað. Samþjónustulóð er komin töluvert langt frá byggðinni og ef hún yrði nýtt fyrir skólaakstur gæti verið erfitt að tryggja öryggi skólabarna. Nefndin leggur til að samþjónustulóð verði færð nær byggð.
5. 2410042 - Vetrarbraut 29-39 óv. DSKbr.
Lögð er fram óveruleg breyting á skipulagi Vetrarbrautar. Breytingin felur í sér stækkun lóða að götu. Lóðirnar sem um ræðir eru annars vegar Vetrarbraut 29-33 og hins vegar Vetrarbraut 35-39. Deiliskipulagsbreytingin er í samræmi við fyrirspurn sem var tekin fyrir á 74 fundi nefndarinnar og samþykkt.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 2. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr 123/2010.
6. 2410075 - Breytt stærð landeignar Vetrarbraut 29-31-33 og Vetrarbraut 35-37-39
Lagt er til að breyta stærð lóðar - Vetrarbraut 29-31-33 og Vetrarbraut 35-37-39.
Vetrarbraut 29-31-33 - lóðin var áður skráð 828 m² í fasteignaskrá HMS en stækkar nú um 162,9 m² og verður 990,9 m².
Vetrarbraut 35-37-39 - lóðin var áður skráð 828 m² í fasteignaskrá HMS en stækkar nú um 157,5 m² og verður 985,5 m².
Breytingar eru í samræmi með óveruleg breytingu á skipulagi Vetrarbrautar.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Samþykkt. Breytingar verða lagðar fram á ferli HMS eftir skipulagssamþykki og gildistöku auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.
7. 2410076 - Undanþága til að geyma númerslausa rútu á Hafnarskeiði
Sveitarfélagið hefur leyft eigendum atvinnutækja að geyma þau á lóð við Hafnarskeið. Það hefur þó verið almenn krafa að tæki séu á númerum. Málsaðili á rútu sem hann notar í atvinnurekstur á sumrin en tekur númerin af henni yfir vetrarmánuðina. Þess er farið á leit að hann fái að geyma rútuna án númera í vetur á áðurnefndu svæði við Hafnarskeið.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin geldur varhug við að heimila bifreiðar eða vinnutæki án númera á lóð sveitarfélagsins. Erindinu er synjað en bent er á að heimilt er að geyma rútuna á svæðinu sé hún á númerum.
8. 2410019 - Nafnasamkeppni Vesturbyggð
Teknar verða fyrir tillögur sem bárust frá íbúum um götunöfn í Vesturbyggð áfanga 3 og 4.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Ákvörðun nefndarinnar er að notast verði við tillögðu Sigþrúðar Harðardóttur. Götunöfn verða eftirfarandi:

Mávavík
Kríuvík
Hrafnavík
Lóuvík
Gauksvík
Tjaldavík
Arnarvík
Fálkavík
Smyrilsvík
Spóavík

Götunöfnum skal raðað í stafrófsröð í gegnum hverfið.
9. 2411007 - Úttekt á umhverfisáhrifum mölunarverksmiðju í kjölfar varhugs fyrirtækisins First Water
Á 336. bæjarstjórnarfundi sem haldinn var þann 25. október sl. var ákveðið að haldin skyldi íbúakosning um staðsetningu Mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn. Íbúakosningin hefst 25. nóvember nk. á skrifstofu sveitarfélagsins og stendur yfir í tvær vikur eða til 9. desember 2024. Mögulegt verður að greiða atkvæði í íbúakosningunni samhliða atkvæðagreiðslu til alþingiskosninga þann 30. nóvember 2024.

Verkfræðistofan Cowi tók að sér að rannsaka og leggja fram gögn er varðar þann varhug sem FirstWater galt varðandi ryk, hávaða og titring frá mölunarverksmiðju í Keflavík. Þeirri vinnu er nú lokið og hafa gögnin verið lögð fram. Þá var einnig aflað hættumats vegna hafnar í Keflavík frá fyrirtækinu Det Norske Veritas. Í samræmi við fyrri samþykktir fól Sveitarfélagið Ölfus verkfræðistofunni Eflu að yfirfara gögnin og leggja mat á fagleg gæði þeirra og aðferðafræði. Enn fremur að Efla leggi sérstakt mat á hvort að niðurstöður þessara rannsókna kalli á að Sveitarfélagið Ölfus óski eftir því að Skipulagsstofnun opni umhverfismat að nýju.

Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

Hljóðvist er talin óveruleg:

Hljóðmengun frá starfsemi er innan viðmiðunarmarka samkvæmt reglugerðum. Hljóðvist hefur verið metin óveruleg með tilliti til umferðar vörubíla. Hljóðstig frá framleiðslunni er áætlað um 40-45 dB(A) við lóðarmörk miðað við 70 dB(A) við húsvegg. Það er vel innan þeirra marka sem kveðið er á um í reglugerð fyrir iðnaðarsvæði. Til viðmiðunar er hámarks hljóðstig í þéttbýli 50 dB(A) að degi og 40 dB(A) að nóttu. Þá mælist núverandi hljóðstig á svæðinu 40-55 dB(A), þ.e. vegna vinds og öldu fyrst og fremst.

Loftmengun er talin óveruleg:

Loftmengun er talin óveruleg, og áætlunin felur í sér að allar efnisvinnslur fari fram innandyra með lofthreinsibúnaði til að koma í veg fyrir rykmengun. Loftsíur verða á öllum búnaði sem miða að því að rykmagn í lofti verði minna en 10 mg/Nm3. Í Þorlákshöfn eru algeng gildi á hverjum degi 5-25 µg/m3. Vöktun á rykmengun á rekstrartíma er nauðsynleg.

Titringur er talinn óverulegur:

Titringur á rekstrartíma er talinn óverulegur, en sprengingar á framkvæmdartíma gætu valdið tímabundnum áhrifum. Reglugerðir um varnir gegn álagi eru taldar duga til að lágmarka áhrif. Titringur frá framleiðslunni við lóðarmörk er áætlaður 0,07-0,15 mm/s sem er sambærilegt við þann titring sem mælist á svæðinu í dag (0,07-1,3 mm/s).

Áhættumat hafna:

Áhættan á olíuleka er metin sem fjarlæg en afleiðingar gætu verið alvarlegar. Líkurnar á olíuleka var reiknuð með því að margfalda slysatíðni með líkum á olíuleka eftir skipagerð. Heildarárstíðni olíuleka er metin sem 8,47 × 10?5, sem þýðir að olíulekavá gæti orðið á um 11.806 ára fresti. Í heildina er tíðni skipaslysa í svæðinu talin mjög lág; áætlað er að slys geti orðið einu sinni á um 580 ára fresti. Áhersla er lögð á að tryggja að hafnirnar séu tilbúnar með viðbragðsáætlanir til að draga úr skaða ef olíuleki skyldi verða enda ljóst að skaði lífríkis af mögulegu olíuslysi yrði verulegur.

Efla hefur nú lokið sinni yfirferð og leggur fram skýrslu um úttektina sem er meðfylgjandi. Var það mat Eflu að niðurstöður framkvæmdaaðila, varðandi matframkvæmdar á umrædda áhrifaþætti, séu áreiðanlegar. Efla taldi ekki þörf á því að umhverfismat framkvæmdar yrði endurskoðað.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin hefur yfirfarið framlögð gögn. Fallist er á niðurstöðu Eflu verkfræðistofu um að umræddir umhverfisþættir hafi verið metnir eins vel og hægt er að gera fyrirfram. Vísast þar ma. til loka orða minnisblaðs Eflu þar sem segir:

„Að því gefnu að framkvæmdaraðili tryggi að framkvæmdin fari ekki yfir tilskilinn viðmiðunargildi í lögum og reglugerðum og að í starfsleyfi séu skýrar kröfur varðandi lofthreinsibúnað, vindþéttni mannvirkja og vöktun, telur EFLA ólíklegt að framkvæmdin komi til með að hafa veruleg áhrif á hljóðvist, loftmengun og titring. EFLA telur að frekari líkanagerð, útreikningar og túlkun fyrir umrædda umhverfisþætti myndu bæta litlu eða engu við núverandi þekkingu. Því telur EFLA ekki þörf á því að umhverfismat framkvæmdar sé endurskoðað og líklegt yrði að niðurstöður frekari skoðunar yrðu þær sömu og hafa verið kynntar í núverandi umhverfismatsskýrslu. EFLA telur þó mikilvægt að samhliða framkvæmdum og rekstri sé lögð rík áhersla á vöktun og að gripið sé til mótvægisaðgerða ef þörf er á“

Með hliðsjón af þessu telur Umhverfis- og skipulagsnefnd mikilvægt að starfsleyfi verksmiðjunnar, ef af byggingu hennar verður, verði háð því að rauntímamælingar verði á hljóðmengun, rykmengun og titringsmengun frá verksmiðjunni og tryggt að fari starfsemin út fyrir þau mörk sem miðað er við falli starfsleyfi úr gildi. Þá telur nefndin það einnig brýnt að starfsleyfi verksmiðjunnar verði háð því að heimild fáist til að sækja efnið í sjávarnámur enda vandséð að núverandi vegakerfi ráði við álagið sem fylgdi því að flytja efnið þá leiðina.

Með þessu er áréttað að viðhafa þarf eftirlit með þessum þáttum og ráðast í mótvægisaðgerðir eða eftir atvikum stöðvun starfsemi ef raunveruleg áhrif verða meiri en áætlað hefur verið og fara umfram viðmið.

Nefndin kallar eftir því að sveitarfélagið leggi fram öll skipulagsgögn, þ.e. vegna aðalskipulagsbreytingar, deiliskipulags og umhverfismat sem nú eru aðgengileg í skipulagsgátt. Gögnin verði lögð fram á einum stað svo þau séu sem aðgengilegust fyrir alla íbúa. Einnig mætti auglýsa í héraðsblöðum, heimasíðu og á íbúasíðu sveitarfélagsins hvar nálgast má gögnin. Nefndin vill hvetja íbúa sveitarfélagins til að kynna sér gögn málsins svo fólk geti tekið upplýsta ákvörðun í komandi íbúakosningu.

Guðmundur Oddgeirsson áheyrnarfulltrúi H-lista tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

"Það er ekki góð stjórnsýsla að setja á dagskrá viðamikið mál kl 15:52 daginn fyrir fyrir fund sem hefst 8:15. Þetta ber merki þess óðagots sem er varðandi mölunarverksmiðjuna og boðaða íbúakosningu dagana 25 - 30/11/204. Eins og Sigurður Steinar Ásgeirsson segir í tölvupósti kl 15:52 5/11/2024 „Almennt hefði verið heppilegra að fjalla um málið í skipulagsnefnd áður en það færi í almenna kynningu en vegna reglna um íbúakosningar sveitarfélaga þá urðum við að setja þetta strax í almenna kynningu“.
Einnig bendi ég á auglýsingu um skipulag frá 15/10/2024 , liður „Mölunarverksmiðja og höfn við Keflavík - breyting á aðalskipulagi“ að þar kemur fram að athugasemdarfrestur er til lok vinnudags 28/11/2024 sem er eftir að íbúakosningin hefst um umrætt skipulag. Búast má við að athugasemdir, ný gögn, berist sem þarf síðan að fjalla um og taka afstöðu til.
Í áliti EFLU dagsettu 5/11/2024 eru ýmsir varnaglar settir fram eins og varðandi loftmengun en þar segir m.a. að „?telur EFLA að aðferðafræði viðbótarannsókna sé ekki fullnægjandi“. Í samantekt EFLU segir einnig „Aðferðafræði við mat á loftmengun er háð óvissu í ljósi þess að rannsóknartímabil var stutt“.
EFLA fjallar ekki um hver áhrif af settjörnunum kunni að verða.
Að mínu mati er langt í land að öll gögn séu komin fram fyrir íbúakosninguna."

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?