Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 2

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
24.08.2022 og hófst hann kl. 15:00
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðbergur Kristjánsson varaformaður,
Guðlaug Einarsdóttir aðalmaður,
Hrafnhildur Lilja Harðardóttir aðalmaður,
Hlynur Logi Erlingsson aðalmaður,
Sigrún Berglind Ragnarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Berglind Friðriksdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri,
Helena Helgadóttir leikskólastjóri,
Svala Ósk Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Sigríður Vilhjálmsdóttir, formaður fræðslunefndar
Formaður kallar eftir athugasemdum við fundarboð en engar athugasemdir eru settar fram.

Formaður óskar eftir að taka á dagskrá með afbrigðum eitt mál varðandi skólabílaakstur í dreifbýli. Samþykkt samhljóða og verður málið tekið síðast á dagskrá fundarins.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1809009 - Fræðslunefnd Erindisbréf og trúnaðaryfirlýsing
Trúnaðarheit lagt fyrir nefndarmenn til undirritunar þar sem nánar er kveðið á um þá trúnaðarskyldu sem hvílir á nefndarmönnum lögum samkvæmt.
Nefndarmenn undirrita trúnaðaryfirlýsingu.
2. 2208035 - Boð um heimsókn í Sigurhæðir
Lögð er fram til kynningar óháð úttekt Háskóla Íslands á undirbúningi, starfsemi og árangri Sigurhæða eftir fyrsta starfsárið. Niðurstöðurnar sýna mikla ánægju meðal samstarfsaðila, skjólstæðinga, starfsfólks og systra í Soroptimistaklúbbi Suðurlands. Jafnframt liggur fyrir erindi Sigurhæða þar sem nefndarmönnum félagsmálanefndar er boðið í heimsókn til að kynna sér úrræðið ef vilji stendur til þess.


Nefndin þakkar upplýsingarnar, lýsir ánægju yfir því hversu vel úrræðið Sigurhæðir er að reynast og leggur áherslu á mikilvægi þess að veita þjónustu í nærumhverfi notenda. Nefndarmenn þiggja boð um heimsókn á starfstöð Sigurhæða.
3. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrsla skólastjóra.
Leikskólastjóri greindi frá helstu þáttum í starfi leikskólans eftir sumarfrí, m.a. frá vel heppnuðum starfsdegi í ágúst og fyrirætlunum um starf samkvæmt nýliðunaráætlun í haust, þar sem farið verður yfir kennsluhætti og stefnu Hjallastefnunnar. Áður stóð til að fara í gegnum nýliðunaráætlunina haustið 2020 en gekk það ekki vegna Covid 19. Þá upplýsti leikskólastjóri að búið væri að manna allar stöður á leikskólanum, og að umsóknir hafi verið fleiri en auglýstar stöður. Þá hefur aðlögun barna inn á leikskólann gengið vel og er útlit fyrir að þau börn sem ná 18 mánaða aldri á árinu 2022 komist inn á leikskólann nú á haustmánuðum. Jafnframt greindi leikskólastjóri frá því að ekki hafi tekist að ráða talmeinafræðing í viðbótarstöðugildi þrátt fyrir auglýsingar um stöðuna, og mun þetta verða til þess að þjónusta við börn á biðlistum mun dragast eitthvað og biðlisti lengjast. Þá bárust ekki heldur neinar umsóknir um stöðu iðjuþjálfa sem auglýst var hjá HSU og munu börn í þörf fyrir slíka þjónustu því mögulega þurfa að sækja hana til Reykjavíkur.


Nefndin þakkar upplýsingarnar. Nefndarmenn greina frá áhyggjum sínum af því hve illa gengur að ráða til starfa sérfræðinga s.s. talmeinafræðing og iðjuþjálfa. Nefndin beinir því til bæjarráðs og bæjarstjórnar að leita leiða við að tryggja að störf talmeinafræðings hjá sveitarfélaginu sé faglega eftirsóknarvert.
4. 2007010 - Samningur við Hjallastefnuna um rekstur leikskólans Bergheima
Reynslutímabili samkvæmt gildandi samningi á milli sveitarfélagsins og Hjallastefnunnar lýkur þann 1. október nk. Hjallastefnan hefur lýst yfir áhuga á að halda samstarfinu áfram. Bæjarráð og bæjarstjórn munu taka endanlega ákvörðun um hvort gengið verði til áframhaldandi samninga við Hjallastefnuna. Lagt er til að fjölskyldu- og fræðslunefnd fjalli um málefnið á aukafundi þann 7. september og skili áliti sínu til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Foreldrar og starfsmenn leikskólans Bergheima skulu upplýstir um viðræður um áframhaldandi samstarf svo þeim gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við áheyrnarfulltrúa sína í nefndinni, nefndarfulltrúa eða með öðrum hætti s.s. með erindum sem beint verði til sveitarfélagsins. Jafnframt óskar fjölskyldu- og fræðslunefnd sérstaklega eftir því að foreldraráð leikskólans skili af sér umsögn um málið til nefndarinnar í samræmi við ákvæði 11. gr. leikskólalaga sem áskilur að foreldraráð hafi umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfi. Óskað er eftir því að umsögn foreldraráðs berist formanni nefndarinnar eigi síðar en þann 4. september næstkomandi.

Fulltrúar B- og H-lista leggja til eftirfarandi breytingartillögu: Lagt er til að framkvæmd verði rafræn skoðunarkönnun meðal foreldra og starfsfólks áður en ákvörðun verður tekin um það hvort ganga eigi til samstarfssamninga við Hjallastefnuna ehf.

Gengið er til kosninga um breytingatillöguna: Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn tveimur. Fulltrúar B- og H- lista greiða atkvæði með tillögunni, en fulltrúar D- lista greiða atkvæði gegn tillögunni.

Fulltrúar B- og H- lista leggja fram eftirfarandi bókun:
Okkur, fulltrúum minnihlutans, þykir sá samráðsvettvangur sem lagður er til ófullnægjandi, þ.e. að foreldrar og starfsfólk sé upplýst um viðræður um áframhaldandi samstarf og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eftir fyrrgreindum leiðum. Í ljósi þess sem á undan er gengið sl. tvö ár og áður hefur verið rætt (s.s. niðurstöður skólapúlsins í vor sem komu verr út en nokkru sinni áður, ör stjórnendaskipti, fordæmalaus starfsmannavelta ofl. ) þykir okkur sjálfsagt og eðlilegt að vandað sé til verks á þessu stigi máls og að fjölskyldu- og fræðslunefnd kalli eftir afstöðu foreldra og starfsfólks um hvort ganga eigi til viðræðna við Hjallastefnuna yfir höfuð, t.d. með rafrænni kosningu, áður en ákvörðun er tekin um að ganga til viðræðna. Við myndum vilja sjá þær niðurstöður hafa vægi í því áliti sem fjölskyldu- og fræðslunefnd skilar svo til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Við viljum líka taka það fram að okkur þykir það ekki sjálfsagður eða augljós kostur að gengið sé til viðræðna yfir höfuð í ljósi þess sem á undan er gengið. Við viljum skapa stöðugleika um starfsemi leikskólans Bergheima og teljum afstöðu foreldra og starfsfólks hvað varðar stefnu og starfsemi leikskólans nauðsynlegan part af þeirri vegferð. Fulltrúar minnihluta í fjölskyldu- og fræðslunefnd
Hrafnhildur Lilja Harðardóttir, Íbúalistinn
Hlynur Logi Erlingsson, Framfarasinnar í Ölfusi.

Fulltrúar meirihluta D-lista í nefndinni óska eftir að fá eftirfarandi bókað:
Í leikskólalögum nr. 90/2008 er fjallað um það í ýmsum greinum laganna hvernig aflað skuli afstöðu hagsmunaaðila til breytinga og stórra ákvarðanatöku í tengslum við málefni leikskóla. Þannig er það áskilið í lögum að afla skuli umsagnar foreldraráðs í slíkum tilvikum og að foreldrar eigi rétt á upplýsingum um skólastarfið og að gæta hagsmuna barna sinna. Þá er jafnframt áskilið að leikskólastjórar, starfsfólk leikskóla og foreldrar kjósi áheyrnarfulltrúa í nefnd þá sem fer með leikskólamál sveitarfélags. Fyrir liggur að álit fjölskyldu- og fræðslunefndar til málsins þarf að liggja fyrir þann 7. september næstkomandi. Á þessu stigi hefur engin ákvörðun verið tekin um að ganga til áframhaldandi samninga við Hjallastefnuna ehf. Þó svo að aðrar leiðir til að kanna afstöðu og vilja foreldra og starfsmanna séu mögulega færar, þá er það mat fulltrúa meirihluta D-listans í nefndinni, að bæði sé það skilvirkast og best í samræmi við ákvæði laga um leikskóla að afla upplýsinga um afstöðu og vilja hagsmunaaðila með þeim hætti sem lögin áskilja og lagt er til í fyrirliggjandi tillögu.

Upphafleg tillaga er borin undir atkvæði og er samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa D- listans en fulltrúar B- og H- lista greiða atkvæði gegn tillögunni.
5. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra.
Skólastjóri greindi frá helstu þáttum í starfi skólans frá því að sumarleyfi lauk, m..a. vinnu á starfsdögum og undirbúningi fyrir skólastarfið. Má t.d. nefna námskeið sem starfsmenn sóttu á vegum Samtakanna 78 um hinseginleikann. Þá upplýsti skólastjóri um helstu breytingar á starfsmannahaldi við skólann, en enn á eftir að ráða einn starfsmann í Frístund, að öðru leyti hafa allar stöður verið mannar. Skólinn var settur þann 22. ágúst og eru nemendur við skólann nú um 250, sem er svipaður fjöldi og á fyrra skólaári. Áherslur í starfi vetrarins verða Uppeldi til ábyrgðar, aukin notkun á upplýsingatækni, teymiskennsla kennara, umhverfismál og heilsueflandi grunnskóli.

Nefndin þakkar upplýsingarnar
6. 1910057 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Starfsáætlun.
Skólastjóri kynnti starfsáætlun skólans fyrir skólaárið 2022-2023. Greindi skólastjóri frá helstu þáttum starfsáætlunar en hún hefur ekki tekið miklum breytingum frá fyrra ári. Helstu breytingar eru í símenntunaráætlun starfsfólks.

Nefndin staðfestir gildistöku starfsáætlunarinnar samhljóða.
7. 2208036 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn - sjálfsmatsskýrsla 2021-2022
Skýrsla um innra mat grunnskóla skólaárið 2021-2022. Í skýrslunni er fjallað um innra mat sem framkvæmt er í Grunnskólanum í Þorlákshöfn, m.a. stefnu skólans, þau viðmið sem sett eru um árangur, þær aðferðir sem nýttar eru til að framkvæma sjálfsmatið, þriggja ára áætlun skólans og umbótaáætlun fyrir skólaárið 2022-2023.


Nefndin þakkar kynninguna.
8. 2204009 - Stefna sveitarfélagsins í málefnum eldri borgara
Þar sem skipan starfshópa fellur sjálfkrafa niður við kosningar er nauðsynlegt að skipa á ný í starfshóp um stefnu sveitarfélagsins í málefnum eldri borgara. Lagt er til að skipaðir verði 5 aðilar í starfshópinn sem vinni með starfsmönnum hópsins, þeim Hildi Þóru Friðriksdóttur ráðgjafa í félagsþjónustu Ölfuss og Sólrúnu Gunnarsdóttur öldrunarráðgjafa. Lagt er til að skipa eftirtalda fulltrúa í hópinn: Grétar Erlendsson, Bettý Grímsdóttur, Guðlaugu Einarsdóttur, Guðmund Oddgeirsson og Sigrúnu Theódórsdóttur.


Nefndin samþykkir tillöguna samhljóða.
9. 2204010 - Nýr leikskóli - starfshópur um faglegan og hugmyndafræðilegan undirbúning
Þar sem skipan starfshópa fellur sjálfkrafa niður við kosningar er nauðsynlegt að skipa á ný í starfshóp um faglegan og hugmyndafræðilegan undirbúning nýs leikskóla. Lagt er til að skipaðir verði 5 aðilar í starfshópinn. Lagt er til að skipa eftirfarandi fulltrúa í hópinn: Steinar Lúðvíksson, Ragnheiði Hannesdóttur, Erlu Sif Markúsdóttur, Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir og Böðvar G. Jónsson.

Nefndin samþykkir tillöguna samhljóða.
10. 2204012 - Málefni fólks með fötlun - starfshópur um mat á stöðu mála
Þar sem að skipan starfshópa fellur sjálfkrafa niður við kosningar er nauðsynlegt að skipa á ný í starfshóp um mat á stöðu mála varðandi málefni fólks með fötlun. Lagt er til að skipaðir verði 5 aðilar í starfshópinn. Lagt er til að skipa eftirfarandi fulltrúa í hópinn: Bettý Grímsdóttur, Elsu Jónu Stefánsdóttur, Hjört S. Ragnarsson, Lindu Rós Jónsdóttur, Örnu Þórdísi Árnadóttur.

Nefndin samþykkir tillöguna samhljóða. Nefndin beinir því til starfshópsins að kanna möguleika á að hafa samráð við notendur við meðferð málsins.
11. 2112015 - Skólastefna Sveitarfélagsins Ölfuss
Þar sem skipan starfshópa fellur sjálfkrafa niður við kosningar er nauðsynlegt að skipa á ný fulltrúa í starfshóp um endurskoðun skólastefnu sveitarfélagsins. Lagt er til að skipa eftirfarandi fulltrúa í hópinn: Guðbergur Kristjánsson, Hlynur Logi Erlingsson, Helena Helgadóttir, Ingibjörg Aðalsteinsdóttir, Júlía Káradóttir, Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, Guðlaug Einarsdóttir, Rakel Guðmundsdóttir, Berglind Friðriksdóttir, Ólína Þorleifsdóttir, Hjördís Vigfúsdóttir, Sóley Dögg Eiríksdóttir, Díana Dan Jónsdóttir.

Nefndin samþykkir tillöguna samhljóða.
12. 2109036 - Skólaakstur dreifbýli Ölfuss.
Lagt er til að stofnaður verði þriggja manna rýnihópur sem skila skuli sem fyrst tillögum um það hvernig best geti nýst það fjármagn sem varið er til skólaaksturs á yfirstandandi skólaári. Jafnframt skuli hópurinn skoða hvaða möguleikar komi til greina varðandi það að leggja nemendum til aðstöðu til að bíða eftir skólaakstri eftir að formlegri kennslu lýkur, sem og að koma með aðrar tillögur sem mögulega mega verða til þess að bæta þjónustu við börn í dreifbýli Ölfuss. Lagt er til að skipa í rýnihópinn eftirfarandi fulltrúa: Sigurbjörgu Jenný Jónsdóttur, Margréti Polly Hansen og Indíönu Sólveigu Marques.

Nefndin samþykkir tillöguna samhljóða. Nefndin beinir því til starfshópsins að kanna möguleika á að hafa samráð við nemendur við meðferð málsins.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:22 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?