Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 24

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
14.08.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðlaug Einarsdóttir aðalmaður,
Davíð Arnar Ágústsson varaformaður,
Hrafnhildur Lilja Harðardóttir aðalmaður,
Hlynur Logi Erlingsson aðalmaður,
Helena Helgadóttir leikskólastjóri,
Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri,
Svala Ósk Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Sveinn Júlían Sveinsson áheyrnarfulltrúi,
Ragnheiður María Hannesdóttir áheyrnarfulltrúi,
Jóhanna M Hjartardóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Jóhanna M. Hjartardóttir, sviðsstjóri
Formaður setti fund og óskaði eftir athugasemdum við fundarboð. Engar komu fram.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2311017 - Skýrsla skólastjóra
Skólastjóri sneri aftur til starfa eftir árs námsleyfi auk þess sem ráðningaferli vegna aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra fór fram.

Nýtt stjórnendateymi kom til starfa eftir verslunarmannahelgi og fer samstarfið vel af stað.

Tvö námskeið verða á starfsdögum. Fyrra námskeiðið fjallar um leiðsagnarmat en leiðbeinandi er Nanna Kristín Christiansen höfundur bókarinnar Leiðsagnarnám, hvers vegna, hvernig, hvað?

Síðara námskeiðið er um núvitund og samkennd. En niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að núvitundarþjálfun skilar sér t.d. í aukinni starfsánægju, bættum samskiptum, minni fjarveru og aukinni hugrænni færni s.s. einbeitingu, minni og skapandi hugsun. Námskeiðið er fyrir allt starfsfólk og er fyrsta skiptið af fjórum á þessu skólaári. Leiðbeinandi er Anna Dóra Frostadóttir sálfræðingur.

Nemendafjöldi er ekki endanlega kominn á hreint en ljóst er að nemendum er að fjölga.

Skólasetning verður fimmtudaginn 22. ágúst

Nefndin þakkar veitttar upplýsingar og kynningu.
2. 2403046 - Skóladagatal 2024-2025
Skólastjóri lagði fram leiðrétt skóladagatal fyrir árið 2024-2025. Áður hafði skóladagatalið verið samþykkt með einum of mörgum nemendadögum.

Samkvæmt kjarasamningi sveitarfélaga við Kennarasamband Íslands skulu skóladagar nemenda vera 180 á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní.

Leiðrétt skóladagatal Grunnskólans í Þorlákshöfn 2024-2025 lagt fram til kynningar og samþykktar.

Lagt fram til kynningar og samþykktar. Nefndin samþykkir samhljóða þessa breytingu.
3. 2311012 - Skýrsla leikskólastjóra
Þegar leikskólinn tekur til starfa á haustdögum eru 135 nemendur við nám. Nemendum mun fjölga eftir því sem líður á haustið.

Elsti árgangur leikskólans telur 32 nemendur núna þegar við hefjum þetta skólaár og höfum við ekki verið með svo stóran árgang í mörg ár. Eða ekki síðan við vorum með elsta árgang leikskólans í grunnskólanum.

Skólinn er fullmannaður fyrir haustið, en það eru nokkrar breytingar á starfsmannahaldi.

Nefndin þakkar veittar upplýsingar og kynningu á starfinu.
4. 2408012 - Skólaþjónusta Ölfuss - áherslur vetrarins 2024-2025
Sviðsstjóri kynnti áherslur skólaþjónustu Ölfuss en þjónustan byggir á góðu samstarfi við skólana í Ölfusi og um leið að styðja við það góða og öfluga starf sem þar fer fram. Foreldrasamstarf er mikilvægur hluti af skólagöngu og uppeldi barna okkar til að stuðla að góðri menningu, upplýstu samtali og jákvæðri samvinnu heimilis og skóla.
Fyrirhuguð verkefni sem styrkja samstarf skólasamfélagsins og foreldra:
- Heimili og skóli - Kynning á samtökunum fyrir foreldra og starfsfólk skólana í Ölfusi
- SAFT netöryggisverkefnið ? örugg og jákvæð tækja og miðlanotkun

Verkefnið Föruneyti barna - Samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytis og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Lagt fram til kynningar sem efst á baugi í ráðuneytinu.

Nefndin þakkar kynninguna.
5. 2408010 - Reglur um starfsemi leikskóla
Drög að reglum um starfsemi leikskóla í Ölfusi lögð fram til kynningar og umræðu.
Reglurnar bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða og vísað til bæjarstjórnar til samþykktar.
6. 2408011 - Reglur um þjónustu frístundaheimilis í Ölfusi
Drög að reglum um þjónustu frístundaheimilis Grunnskólans í Þórlákshöfn lagðar fram til kynningar og umræðu.
Í umræðu nefndarinnar kom fram sú tillaga að reglurnar taki ekki gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. sept. Fram að gildistöku reglnanna er skólastjóra og forstöðumanni frístundar falið að eiga samtal við foreldra þeirra barna sem breytingar á opnunartíma hefur áhrif á.

Reglurnar bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða og vísað til bæjarstjórnar til samþykktar.
7. 2403047 - Foreldrahandbók frístundaheimilis grunnskólans
Drögum að foreldrahandbók frístundaheimilisins lögð fram til kynningar.
Handbók frístundar lögð fram til kynningar. Forstöðumanni er falið að breyta handbókinni til samræmis við samþykktar reglur um þjónustu frístundaheimilis Ölfuss.
8. 2407031 - Gjaldfrjálsar skólamáltíðir
Alþingi samþykkti í júní bráðabirgðaákvæði við lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga vegna árlegs framlags úr ríkissjóði á árunum 2024-2027 til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum grunnskóla upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Forsenda úthlutunar til sveitarfélaga er að nemendum grunnskóla sé boðið upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
Samkvæmt tölvupósti Jöfnunarsjóðs, dags. 2. júlí sl., skulu sveitarfélög upplýsa Jöfnunarsjóð um hvort þau hyggist bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir á skólaárinu 2024-2025.

Bæjarráð samþykkir að frá og með upphafi skólaársins 2024-2025 verði boðið upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Ákvörðunin er háð því að ríkið standi við ákvörðun sína um aðkomu að fjárhagslegum kostnaði við ákvörðunina.

Bæjarráð fól fjölskyldu- og fræðslusviði að útfæra verkferla vegna þessa í samráði við fagnefnd.

Sviðsstjóri fjölskyldu og fræðslusviðs lagði fram minnisblað með tillögum að verkferlum. Lagt fram til kynningar og samþykktar.


Nefndin samþykkir verkferla, um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í Ölfusi, samhljóða.
11. 2406002 - Farsældarráð á Suðurlandi
Erindi frá SASS þar sem óskað er eftir afstöðu og umboði frá sveitarfélögum í landshlutanum vegna stofnunar á farsældarráði í landshlutanum.

Bæjarráð vísar erindinu til faglegrar umfjöllunar í fjölskyldu- og fræðslunefnd.

Fjölskyldu og fræðslunefnd Ölfuss samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti að taka þátt í samstarfi um útfærslu á farsældarráði á Suðurlandi og skoðuð verði tækifæri til samstarfs í þessu verkefni þar sem unnið er þvert á landshlutann að samhæfingu með farsæld barna að leiðarljósi.

Nefndin fagnar því að fjármunir fylgi samningnum og að hann feli ekki í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir sveitarfélögin.
12. 2407047 - Sláttur fyrir eldri borgara og öryrkja
Minnisblað frá umhverfisstjóra lagt fram til kynningar og samþykktar.

Í ört stækkandi samfélagi á Þjónustumiðstöðin orðið erfitt með að sinna samfélagsþjónustu eins og garðslætti. Þjónustuþegum sem óska eftir garðslætti hefur fjölgað mjög undanfarin ár og hefur verið erfitt að fá sumarstarfsfólk til vinnu. Umhverfisfulltrúi leggur til að hætta með sláttuþjónustu fyrir eldri borgara og öryrkja sumarið 2025 og benda á verktaka sem sinna þessari þjónustu gegn gjaldi.

Nefndin felur sviðsstjóra að hefja vinnu við að uppfæra reglur er varðar þjónustu við fasteignir eldri borgara og öryrkja í Ölfusi og leggja fyrir nefndina.
Mál til kynningar
9. 2407023 - Staða drengja í menntakerfinu
Í lok árs 2022 setti Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á fót vinnu við að kortleggja áskorun drengja í íslensku menntakerfi og mögulegar lausnir.

Til að mæta þessari stöðu drengja eru lagðar til átta lausnir með samtals 27 liðum af aðgerðum. Hver aðgerð byggir á ráðgjöf og
reynslu kennara og sérfræðinga, árangri af vel heppnuðum úrræðum og mælingum á farsæld drengja.

Skýrslan lögð fram til kynningar.

Nefndin þakkar kynninguna.
10. 2404089 - Farsæld barna - skrefin okkar í Ölfusi
Sviðsstjóri lagði fram til kynningar:
a) Drög að farsældarbæklingi fyrir íbúa, foreldra og fjölskyldur í Ölfusi
b) Nýja og uppfærða þjónustusíðu fyrir íbúa, Velkomin í Ölfus, á vef Ölfuss

Fjölskyldu og fræðslusvið vill tryggja greiðan aðgang að þjónustu fyrir íbúa í Ölfusi og að íbúar fái góðar upplýsingar og aðstoð frá viðeigandi aðilum.

Nefndin þakkar kynninguna.

Skólastjórnendur og áheyrnafulltrúar viku af fundi kl. 9:45.
13. 2405178 - Sumarhópur Saman - bréf til sveitarstjórna
Bréf frá SAMAN hópnum þar sem hvatt er til samveru fjölskyldunnar í sumar og beiðni til sveitarstjórna um að dreifa skilaboðum hópsins.
Bæjarráð vísar erindinu til fjölskyldu- og fræðslunefndar.

Síðastliðið vor setti sviðsstjóri inn eftirfarandi tilmæli til foreldra á heimasíðu Ölfuss:

Njótum sumarsins, verum örugg og leikum saman

Mikilvægt er að allir taki höndum saman og hugi að öryggismálum í sumarleikjum. Trampolín eru nokkuð algeng í görðum og er brýnt að foreldrar ítreki fyrir börnum að sýna aðgát og að öryggisnet séu uppsett. Munum líka eftir hjálmunum í sumar, hvort sem við erum á hjóli, hestbaki, línuskautum eða brettum.

Góðar samverustundir fjölskyldunnar búa til góðar minningar

Reynslan hefur sýnt að foreldrar sem taka virkan þátt í lífi barna sinna eru besta forvörnin. Samvera foreldra og barna er afar mikilvæg og gefast mörg tækifæri til slíkra stunda á sumrin.

Lagt fram til kynningar.

Nefndin þakkar kynningu á tilmælum til foreldra sem er á heimasíðu Ölfuss.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:03 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?