Fundargerðir

Til bakaPrenta
Skipulags- og umhverfisnefnd - 83

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
20.11.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Geir Höskuldsson formaður,
Hjörtur S. Ragnarsson varaformaður,
Margrét Polly Hansen Hauksdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Guðmundur Oddgeirsson áheyrnarfulltrúi,
Sigmar Björgvin Árnason sviðsstjóri,
Sigurður Steinar Ásgeirsson skipulagsfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Sigurður Steinar Ásgeirsson, Skrifstofu- og verkefnastjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2410072 - Árbær 4 Dýraspítali - ASKbr
Lögð er fram lýsing fyrir breytingu á aðalskipulagi vegna um 8 ha lands innan jarðarinnar Árbær IV í Ölfusi. Til stendur að staðsetja á landinu Dýraspítala Suðurlands sem hingað til hefur verið staðsettur á Stuðlum við Árbæjarveg. Komin er þörf fyrir stækkun og úrbætur á núverandi dýraspítala og mun þessi nýji dýraspítali bæta þar miklu við.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa skipulagslýsinguna og ganga frá málinu í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
2. 2411019 - Kynning á fundi - Aukin starfsemi Carbfix í Ölfusi
Fulltrúar Carbfix og OR munu koma fyrir fundinn og kynna áætlanir um aukna starfsemi í Ölfusi.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin þakkar kynninguna.
3. 2311031 - ASK Mýrarsel íbúðarsvæði stækkað um fimm frístundalóðir
Lögð er fram aðalskipulagsbreyting vegna Mýrarsels á svæði við rætur Ingólfsfjalls. Samtals eru nú samþykktar 7 íbúðarhúsalóðir og 5 frístundalóðir. Allir landeigendur frístundalóðanna fimm hafa óskað eftir því að breyta frístundalóðunum Mýrarsel 8,
10, 12, 14 og 16 í íbúðarhúsalóðir og hafa áform um að byggja þar íbúðarhús. Aðalskipulagsbreytingin felur í sér að íbúðafjöldi hækkar úr 7 í 12.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa breytinguna og ganga frá málinu í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Nefndin vill vekja athygli á að staðsetja þarf samþjónustulóð miðsvæðis á skipulagssvæðinu t.d. fyrir biðstöð skólabíls, grenndargáma eða annað innan skipulagssvæðisins á deiliskipulagi í samræmi við tækilýsingu sveitarfélagsins.
4. 2306049 - DSK Breyting á skipulagi hafnarsvæðis - landfylling
- Endurkoma eftir athugasemdaferli
Umsagnarferli deiliskipulagsins er lokið. Athugasemdir sem bárust kalla ekki á að gerðar séu breytingar á deiliskipulaginu og því er það lagt fram óbreytt.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

Málið var tekið til atkvæðagreiðslu. Fulltrúar D- lista greiddu atkvæði með. Hrönn Guðmundsdóttir greiddi atkvæði á móti. Baldur sat hjá.

Nefndin felur skipulagsfulltrúa að senda svarbréf til umsagnaraðila.

Guðmundur Oddgeirsson, áheyrnarfulltrúi lagði fram eftirfarandi bókun:
Bókun - Mál nr. 2306049 - DSK
Það að telja að athugasemdir sem bárust kalli ekki á að gerðar séu breytingar á deiliskipulaginu eru að mínu mati vanhugsaðar.
Umhverfisstofnun er með ýmis tilmæli í sinni umsögn, 31/10/2024, eins og varðandi náttúruminjar og útivist „Því telur stofnunin mikilvægt að metin sé sammögnun áhrifa þeirrar uppbyggingar, sem hefur átt sé stað og er fyrirhuguð, m.t.t. útivistar og hvort tillagan hafi neikvæð áhrif á verndargildi náttúruminja.“
Um stjórn vatnamála segir UST „Strandsjávarvatnshlotið Stokkseyri að Þorlákshöfn hefur ekki verið ástandsflokkað, þ.e. vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand vatnshlotsins er ekki þekkt. Því er mikilvægt að áhrif landfyllingarinnar á vatnshlot liggi fyrir áður en framkvæmdaleyfi er veitt svo leyfisveitandi geti tekið afstöðu til þess hvort framkvæmdin sé í samræmi við vatnaáætlun og lög um stjórn vatnamála.“
Í umsögn Vegagerðarinnar 5/11/2024 segir „Vegagerðin telur að enn hafi ekki verið gerð grein fyrir áhrifum landfyllingarinnar á öldu, sjólag og áhrif aðstæður til brimbrettaiðkunar á fullnægjandi hátt. Þar sem um óafturkræf áhrif er að ræða er mikilvægt að óvissu sé eytt um áhrif framkvæmdanna á öldu og sjólag.
Brimbrettafélag Íslands BBÍ færir rök fyrir því að öldufarsútreikningum sé verulega ábótavant „Grundvallar misræmi eru í Minnisblaði Portum sem sýnir að ábyrgðalaus túlkun þess er röng. Þá helst að nefna tilvitnun um að aldan sem um ræðir, brotni “um 500 metrum frá landfyllingu? við staðarheitið “Kúlu?. Þetta er einfaldlega rangt og í besta falli tilbúningur. Aldan (Aðalbrotið) brotnar mun nær landi en talið er (sjá mynd 1. hér að neðan). Túlkun Minnisblaðsins virðist byggja alfarið á loftmyndum og huglægum vangaveltum, en ekki raunverulegum aðstæðum eða útreikningum.“ BBÍ leitaði til fyrirtækisins DHI group og „sem hafa um að ráða færustu sjó- og öldufarssérfræðinga heims til að reikna út raun áhrif landfyllingarinnar á aðalbrotið. DHI group benti á að í öldufarslíkani Portum hefur landfyllingin verið “teiknuð? inn á myndina eftir á. Öldufarslíkanið tekur þ.a.l. ekki tillit til hennar eða frákasts frá henni (“reflective waves?). Brimbrettafélagið bendir á að þessi vinnubrögð séu með öllu óásættanleg í ljósi þess að um er að ræða óafturkræf áhrif á Aðalbrotið.“
Það sem hér hefur verið ritað er brot af því sem kemur fram í þeim athugasemdum sem liggja fyrir. Látum náttúruna og samfélagið njóta vafans, hættum við þessa landfyllingu.
Guðmundur Oddgeirsson áheyrnarfulltrúi H-lista.
5. 2402017 - Grímslækjarheiði - Hraunkvíar DSK
Lagt er fram deiliskipulag fyrir Ytri-Grímslæk og Hraunkvíar sem eru saman um 9,2 ha. að stærð. Til stendur að afmarka 14 íbúðalóðir í samræmi við aðalskipulag Ölfuss reit ÍB17. Málinu var frestað á síðasta fundi og kallað eftir því að samþjónustulóð verði færð nær byggð. Skipulagshöfundur hefur gert lagfæringar á uppdrætti til að bregðast við þeirri athugasemd.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Frestað
6. 2411024 - Laxabraut 12 DSK
Lagt er fram deiliskipulag fyrir Laxabraut 12. Fyrirhuguð er uppbygging á starfsmannaaðstöðu sem nýtt verður aðallega í tengslum við uppbyggingu og starfsemi landeldis First Water ehf á Laxabraut 15-23 en eftir atvikum annarra fyrirtækja í samráði við sveitarfélag. Heimild er fyrir búsetu allt að 200 starfsmanna, ásamt eldhúsi og mötuneyti fyrir sambærilegan fjölda. Einnig er gert ráð fyrir skrifstofubyggingum ásamt móttöku- og þjónusturými gesta og starfsfólks s.s. fyrir viðburði og starfsmannafundi. Stærð skipulagssvæðis er um 1,5 ha.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr 123/2010.

Skipulagið er samþykkt með eftirfarandi fyrirvörum:

Nefndin vill benda á villu í texta þar sem tilgreint er að stærð skipulagsins sé 14,7 ha. en hefði átt að vera 1,47 ha.

Samkvæmt samkomulagi milli fyrirtækisins og sveitarfélagsins er fyrirtækinu aðeins heimilt að hýsa starfsmenn sem vinna að verkefnum First Water.

Árétta þarf skýrar í skipulagi að aðstaða verði fjarlægð að framkvæmdatíma loknum sbr. undirritað samkomulag aðila.
7. 2411025 - Sögusteinn DSK
Lagt er fram nýtt deiliskipulag fyrir Sögustein á Grímslækjarheiði og er stærð skipulagssvæðis um 4,5 ha. Með breytingunni eru byggingarskilmálar uppfærðir í samræmi við endurskoðað Aðalskipulag Ölfus. Lóðir breytast ekki en nýjir byggingarreitir eru afmarkaðir innan Hlíðaráss og Sögusteins 1 og skilmálar uppfærðir.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin kallar eftir því að samþjónustulóð verði færð inn á skipulagið í samræmi við tæknilýsingu sveitarfélagsins sem var samþykkt eftir staðfestingu síðasta uppdráttar.
8. 2411002 - ASKbr Hótel í Hafnarvík - fjölgun gesta og gistirýma
Lögð er fram óveruleg breyting á aðalskipulagi Ölfuss er lýtur að hóteli í Hafnarvík. Í breytingunni felst að heildarfjöldi gistirýma er aukinn og einnig fjöldi gesta. Breytingin er gerð til að bregðast við athugasemdum skipulagsstofnunnar um deiliskipulag hótelsins sem er í skipulagsferli.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 2. málsgr. 36. gr. skipulagslaga nr 123/2010.
9. 2411029 - Bárugata 1 ób. DSKbr
Lögð er fram beiðni um heimild til að vinna óverulega breytingu á deiliskipulagi vegna Bárugötu 1. Lögun hússins er uppbrotin þannig að miðhluti bygginarinnar skagar út fyrir byggingarreit. Lóðarhafi fer þess að leit að fá heimild til að stækka byggingarreitinn til að geta viðhaldið uppbrotinu í þessari mynd. Nægilegt pláss er á lóðinni svo fjarlægð milli húsa er innan marka eftir breytingu.
Afgreiðsla Skipulags- og umhverfisnefndar: Lóðarhafa er heimilað að láta gera deiliskipulagsbreytingu á sinn kostnað þannig að byggingarreitur stækki í samræmi við fyrirliggjandi teikningu.
10. 2410019 - Nafnasamkeppni Vesturbyggð
Sá aðili sem átti bestu hugmyndina í nafnasamkeppni fer þess á leit að tekin sé til skoðunar uppfærð útgáfa af götunöfnum.

Góðan daginn.
Það er mér mikill heiður að tillaga mín um götunöfn í hinni nýju Vesturbyggð skyldi verða samþykkt í Skipulags- og bygginganefnd.
Tillagan var kannski send inn í of miklum flýti og þarfnast svolítillar lagfæringar m.t.t. málfræði (kyn og beygingar orðanna).
Þegar ég las þetta yfir aftur sá ég að ákveðins misræmis gætti, sum orðin voru í eintölu en önnur fleirtölu þó þau væru í sama kyni og það er ekki nógu gott. Allir fyrrihlutarnir verða að vera í eignafalli og þá er kannski fallegast að þau séu í sama kyni.
Þá þarf líka að horfa til þess hvort viðkomandi fuglar eru í nærumhverfinu. Þetta gæti því orðið svolítið erfitt val.
Ég stilli því upp þessum listum.
1. Hér eru fuglar í nærumhverfinu, karlkynsorð og kvenkynsorð, þar sem karlkynsorðin eru í fleirtölu, eignafalli, en kvenkynsorðin í eintölu, eignafalli. Mér sjálfri finnst þessi nafnalisti koma mjög vel út.

Mávavík
Tjaldavík
Hrafnavík
Spóavík
Þrastavík
Smyrlavík
Kjóavík
Kríuvík
Lóuvík
Ugluvík


2. Hér eru svo íslenskir fuglar, ekki endilega allir í nærumhverfinu en það sem er einfalt hér að öll orðin eru karlkyn, eirtala, eignafall. Hér vantar náttúrulega sárlega bæði kríu og lóu svo kannski er þetta ekki góð hugmynd

Mávavík
Tjaldavík
Hrafnavík
Spóavík
Þrastavík
Smyrlavík
Arnavík
Fálkavík
Svanavík
Kjóavík

3. Hér er að lokum listi með nöfnum sem ekki eru í ofantöldum tillögum en gætu sannarlega komið inn ef nefndinni finnst það hljóma beturen eitthvað sem er þar.
Álftavík, Gæsavík, Starravík, Álkuvík, Svöluvík


Ég óska eftir því að áður innsendur listi verði endurskoðaður og annar hvor þessara sem hér birtist (helst þessi nr.1) verði notaður í staðinn. Annars má raða þessu saman eins og nefndinni hugnast best, aðalatriðið er að nöfnin renni vel og samræmi sé milli nafnanna og gott flæði.

Með kæru þakklæti fyrir heiðurinn.
Bestu kveðjur,
Sigþrúður Harðardóttir (íslenskukennari!)

Nefndin fellst á að aðlaga nöfn þannig að í stað Gauksvíkur kemur Álftavík og í stað Smyrilsvíkur kemur Smyrlavík.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?