Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 17

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
17.01.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Davíð Arnar Ágústsson varaformaður,
Guðlaug Einarsdóttir aðalmaður,
Hrafnhildur Lilja Harðardóttir aðalmaður,
Hlynur Logi Erlingsson aðalmaður,
Jónína Magnúsdóttir skólastjóri,
Helena Helgadóttir leikskólastjóri,
Svala Ósk Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Hjördís Vigfúsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Sveinn Júlían Sveinsson áheyrnarfulltrúi,
Sigrún Berglind Ragnarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Jóhanna M Hjartardóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Jóhanna M. Hjartardóttir, sviðsstjóri
Formaður bauð fundarmenn velkomna á fundinn og óskaði eftir athugasemdum við fundarboð en engar bárust.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2311017 - Skýrsla skólastjóra
Skólastarf hefur gengið vel frá því nefndin hittist síðast. Aðventan var hefðbundin með öllu sem tilheyrir svo sem jólakvöldvökum, jólaföndri og jólaböllum.

Skólastarf fer vel af stað á nýja árinu. Nemendum hefur fjölgað og eru þeir nú orðnir 260 (leiðrétt úr skýrslu). Heilsufar nemenda og starfsmanna hefur lagast mikið frá því sem var fyrir jól þegar pestir gerðu mörgum lífið leitt.

Skólinn okkar er heilsueflandi og felur það verkefni í sér aðkomu nemenda að gerð matseðils skólamötuneytis sem vekur ánægju.

Skólinn okkar hlaut styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla á skólaárinu 2023-2024. Verkefnið sem unnið er að er heildstæð kynfræðsla og fræðsla um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi frá 1.-10. bekk. Indíana kynfræðingur stýrir vinnunni. Stefnt er að því að á vordögum liggi fyrir heildstæð námskrá í kynfræðslu sem kennarar verða tilbúnir að fylgja eftir. Námskeið í upplýsingatækni hefur einnig staðið kennurum til boða í skólanum á síðustu dögum þ.e. forritun og námskeið um gervigreind.

Framundan munu skólastjórnendur kynnast nýju verkefni frá Finnlandi sem Árskóli á Sauðárkróki er að innleiða. Um er að ræða verkefni samkvæmt hugmyndafræðinni See the good sem er eins og nafnið bendir til á uppbyggilegum nótum.

Nefndarmenn þakka upplýsingar um skólastarfið.
2. 2311012 - Skýrsla leikskólastjóra
Árið byrjar vel og spennandi tímar framundan í skólastarfinu. Fyrirhuguð stækkun skólans er fyrirliggjandi og er búið að ráða inn starfsfólk og eru barnalistar fyrir kjarnana tilbúnir svo fremi sem engar breytingar verða á barnahópnum. Nýji kjarninn kom á lóðina síðastliðinn mánudag.

Við erum þakklátar fyrir hversu vel gengur miðað við fréttir af leikskólastarfi á höfuðborgasvæðinu. Við höfum ekki þurft að grípa til þeirra aðgerða að loka hluta úr degi eða heilu dagana vegna mönnunarvanda í skólanum. Fáliðunaráætlun fyrir skólann er tilbúin og verður lögð fram til kynningar á næsta fundi.

Það voru ánægjufréttir að Skólaþjónustan væri búin að ráða talmeinafræðing og kennsluráðgjafa til starfa.

Framundan er fjölskyldukaffi í tilefni bóndadagsins 26. janúar. Foreldraviðtalsdagur 31. janúar og starfsdagur 1. febrúar og er skólinn lokaður þessa tvo daga.

Nefndarmenn þakka upplýsingarnar.
3. 2312050 - Athugasemdir frá foreldraráði leikskólans Bergheima
Bæjarráð lagði fram eftirfarandi bókun 21.des.2023:
Hvað varðar niðurfellingu á vistunargjöldum 22. des. og milli jóla og nýárs þá bendir sveitarfélagið á að ekkert í samningum milli Hjallastefnunar og sveitarfélagsins kveður á um að þjónusta sé skert þessa daga og því vart hægt að sjá þá öðrum augum en aðra þá þjónustudaga sem foreldrar velja að nýta ekki, svo sem í aðdraganda páska, í sumarorlofum o.fl. Bæjarráð fellst þó á að eðlilegt sé að fella niður fæðisgjöld þegar tilkynnt er með góðum fyrirvara að barnið nýti ekki þá þjónustu.

Að öðru leyti vísar bæjarráð því til fjölskyldu- og fræðslunefndar að útfæra reglur um þessa gjaldtöku.

Samþykkt samhljóða.

Nefndin leggur til eftirfarandi bókun:
Starfsmaður fjölskyldu og fræðslunefndar vinnur um þessar mundir að drögum að heildstæðum reglum um starfsemi leikskóla sveitarfélagsins. Í þeim reglum verður m.a. fjallað um aðstæður sem þessar.

Nefndin leggur til að í aðstæðum sem þessum verði fæðisgjöld felld niður ef að foreldrar tilkynna um fjarveru barna með a.m.k. 2 vikna fyrirvara í komandi dymbilviku.
Nefndin felur leikskólastjóra að tilkynna foreldrum þessa ákvörðun.
4. 2312019 - Minnisblað vegna breytinga á opnunartíma leikskólans
Framhaldsumræða:
Leikskólastjórnendur og starfsmenn hafa óskað eftir að fjölskyldu og fræðslunefnd taki til skoðunar að stytta opnunartíma leikskólans og lokanir í kringum jól og páska. Í framhaldi af þeirri umræðu var sviðsstjóra falið að skoða starfsemi nokkurra leikskóla. Hér meðfylgjandi er einnig lögð fram skýrsla starfshóps sem var skipaður af mennta og menningamálaráðherra 2020-2021. Í skýrslunni er gerð grein fyrir vinnu og gagnaöflun hópsins en þær eru fjölbreyttar.

Sviðstjóri setti fram mögulegar sviðsmyndir að opnunartímum sem mætti skoða í Leikskólanum Bergheimum:
Tillaga 1
- að stytta opnunartíma leikskóla í Þorlákshöfn frá og með 1. maí næstkomandi. Almennur opnunartími verður þannig frá klukkan 07:30 til 16:30 í stað 17:00. Opnunartími leikskólans styttist þannig um hálftíma.
Tillaga 2
- að stytta opnunartíma leikskóla í Þorlákshöfn frá og með 1. maí næstkomandi. Almennur opnunartími verður þannig frá klukkan 07:45 í stað 07:30 til 16:30 í stað 17:00. Opnunartími leikskólans styttist þannig um 45 mínútur.
Tillaga 3
- að stytta opnunartíma leikskóla í Þorlákshöfn frá og með 1. maí næstkomandi. Almennur opnunartími verður þannig frá klukkan 07:45 í stað 07:30 til 16:15 í stað 17:00. Opnunartími leikskólans styttist þannig um 60 mínútur.

Áheyrnafulltrúi og fulltrúi í foreldraráði leikskólans benti á mikilvægi þess að fara hægt í breytingar á opnunartíma ef á að breyta og kynna vel til foreldra mögulegar breytingar. Einnig kynnti hann niðurstöður úr foreldrakönnun sem var gerð. Í þeim niðurstöðum kom m.a. fram að væri mikilvægt að taka tillit til foreldra sem sækja vinnu utan Ölfuss og kanna áhrif þjónustuskerðingar á vinnutíma foreldra. Einnig að kanna rauntíma vistunar hjá börnum. Ef til styttingar kemur er mikilvægt að meta árangur breytinganna bæði hjá starfsmönnum og foreldrum.


Nefndin felur sviðstjóra og leikskólastjóra að afla frekari gagna um raunnýtingu á vistunartíma barna í leikskólanum.

Málinu frestað til næsta fundar.
5. 2401013 - PISA könnun - beiðni um niðurstöður fyrir Ölfus
Fyrir nefndinni lá afrit af bréfi lögmanns sveitarfélagsins til Menntamálastofnunar sem sent var að beiðni bæjarstjórara. Í bréfinu krefst lögmaður sveitarfélagsins þess að skólayfirvöldum verði veittur aðgangur án tafar að sundurgreindum niðurstöðum PISA-könnunar 2022 vegna grunnskólans í Þorlákshöfn. Enn fremur lá fyrir svar Menntamálastofnunar þar sem kröfu sveitarfélagsins um aðgengi að gögnum er hafnað.
Fjölskyldu- og fræðslunefnd gerir alvarlegar athugasemdir við afstöðu Menntamálastofnunar sem birtist í gögnum málsins. Menntamálastofnun er frjálst að deila umbeðnum gögnum eins og framkvæmdin var á árum áður sbr. t.d. 6. gr. laga nr. 91/2015. Nefndin fær ekki séð að sjónarmið séu til til staðar sem réttlæta takmarkað aðgengi að þessum gögnum, s.s. sjónarmið er lúta að einkahagsmunum einstaklinga eða verulega hagsmuni ríkisins, heldur virðist synjun um aðgang snúast um það að Menntamálastofnun líti svo á að verði niðurstöðurnar birtar í heild sinni þá muni það leiða til einhvers misskilnings í almennri umræðu um gengi einstakra skóla. Fjölskyldu- og fræðslunefnd fer fram á að niðurstöðurnar verði birtar með viðeigandi fyrirvörum og svo verði sveitarfélögum og öðrum gert kleift að túlka niðurstöðurnar. Ljóst er að niðurstöður PISA-könnunarinnar eru ekki einkamálefni stofnunarinnar. Bent er á að með lögum nr. 91/2008 er sveitarfélögum falin sú ábyrgð að reka grunnskóla, þróa starf þeirra, sinna mati og eftirliti með þeim, öflun og miðlun upplýsinga sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þá er það skylda nefndarinnar skv. 2. mgr. 6. gr. að fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í sveitarfélaginu. Verður að ætla sveitarfélaginu nokkurt frelsi við að útfæra þessar skyldur sínar, og jafnframt að heimila sveitarfélaginu aðgang að þeim gögnum sem geta innihaldið upplýsingar sem hafa þýðingu í þessu sambandi. Þá er á það bent að í reglugerð 658/2009 um mat og eftirlit í grunnskólum er hvergi kveðið á um heimild stjórnvalds eða ríkisstofnunar til að halda upplýsingum sem safnað er í samræmi við reglugerðina leyndum, heldur er þvert á móti kveðið á um skyldu ráðuneytisins til að deila tilteknum niðurstöðum með sveitarstjórnum. Fjölskyldu- og fræðslunefnd telur í ljósi ofangreinds að mikilvægt sé að upplýsa ráðherra menntamála um að stofnun á hans verksviði neiti að afhenda gögn sem tengjast innrastarfi skóla í eigu og á ábyrgð sveitarfélagsins. Nefndin felur starfsmönnum sínum að kalla eftir afstöðu ráðherra til þess hvort að hann telji eðlilegt að skólayfirvöldum sé neitað um aðgengi að gögnum sem sannarlega liggja fyrir og tengjast mikilvægu starfi skóla sveitarfélagsins. Nefndin felur einnig starfmanni sínum vinna að því með lögmanni sveitarfélagsins að öll gögn sem unnin voru í tengslum við PISA 2022 og tengjast skólum á ábyrgðarsviði nefndarinnar verði afhent tafarlaust með vísan i upplýsingalög þar sem ma. segir: "Sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál".
Mál til kynningar
6. 2401012 - Skólaþjónusta um allt land - mótun löggjafar
Sviðsstjóri kynnti stöðu mála er varðar vinnu við mótun löggjafar um heildstæða skólaþjónustu. Einnig var farið yfir upplýsingar sem komu fram á fundi með fræðslustjórum og mennta og barnamálaráðherra í byrjun árs.
Nefndin þakkar kynninguna.
7. 2401014 - Farsældarrúta BOFS skýrsla 2023
Skýrsla frá Barna og fjölskyldustofu (BOFS) þar sem farið er yfir heimsóknir til sveitarfélaga á árinu 2023. Þetta er annað árið þar sem öllum sveitarfélögum á Íslandi er boðið til fundar vegna innleiðingar á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Nefndin þakkar kynninguna.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?