Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 336

Haldinn í fjarfundi,
25.10.2024 og hófst hann kl. 17:00
Fundinn sátu: Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir 1. varaforseti,
Grétar Ingi Erlendsson bæjarfulltrúi,
Erla Sif Markúsdóttir bæjarfulltrúi,
Gunnsteinn R. Ómarsson 1. varamaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson bæjarfulltrúi,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir bæjarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri
Í upphafi fundar leitaði forseti eftir athugasemdum við fundarboðið en engar bárust. Einnig var óskað eftir að taka fyrir á fundinum bréf sem barst rétt fyrir fund frá First Water um fyrirhugaða íbúakosningu og var það samþykkt samhljóða.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2404124 - Íbúakosning
Á 331.fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss þann 15.05.2024 var samþykkt að fresta íbúakosningu um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn þar til frekari gögn lægju fyrir.

Nú liggur fyrir að verkfræðistofan Cowi hefur tekið að sér að rannsaka og leggja fram gögn er varðar þann varhug sem FirstWater galt varðandi ryk, hávaða og titring frá mölunarverksmiðju í Keflavík. Þeirri vinnu hefur miðað vel áfram. Í samræmi við fyrri samþykktir hefur Sveitarfélagið Ölfus falið verkfræðistofunni Eflu að yfirfara þessi gögn og leggja mat á fagleg gæði þeirra. Enn fremur að Efla leggi sérstakt mat á hvort að niðurstöður þessara rannsókna kalli á að Sveitarfélagið Ölfus óski eftir því að Skipulagsstofnun opni umhverfismat að nýju. Fulltrúar Eflu telja einsýnt að þeim takist að ljúka sinni vinnu þannig að gögn liggi fyrir vel áður en til íbúakosninga kemur í samræmi við lög þar að lútandi.

Þá liggur og fyrir að Det Norske Veritas hefur í nokkurn tíma unnið að hættumati fyrir Þorlákshöfn og vænta höfn í Keflavík. Stefnt er að því að gögn þar að lútandi liggi fyrir eigi síðar en 4. nóv. nk. og geti því farið í kynningu samhliða gögnum frá Eflu.

Bæjarstjórn Ölfuss leggur nú til að boðað verði að nýju til bindandi íbúakosningar á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn. Skipulagstillögurnar eru aðgengilegar á vefsíðu sveitarfélagsins og á vef Skipulagsstofnunar.

Íbúum mun því gefast kostur á að kjósa um tillögurnar og verða svarmöguleikar eftirfarandi:

Já (ég samþykki skipulagstillögurnar og þar með að fyrirtækið fái heimild til að reisa verksmiðjuna sem fjallað er um í áður auglýstum skipulagstillögum).

eða

Nei (ég hafna skipulagstillögunum og þar með að fyrirtækinu verði ekki heimilað að reisa verksmiðjuna sem fjallað er um í áður auglýstum skipulagstillögum).


Kosið er um eftirfarandi skipulagstillögur:

Aðalskipulagsbreyting
Lögð er fram tillaga að aðalskipulagsbreytingu fyrir iðnaðar og hafnarsvæði vestan byggðar í Þorlákshöfn. Hámark byggingarmagns á reit I3 er aukið úr 540.000 m2 í 1.040.000 m2. Þá er nýju hafnarsvæði bætt við sem nefnist H4.

Deiliskipulag
Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi fyrir mölunarverksmiðju og höfn á Laxabraut 43A og 43B. Mölunarverksmiðja samanstendur af fjölbreyttum byggingum með mismunandi hlutverk. Á hafnarsvæðinu er gert ráð fyrir hafnaraðstöðu með krana, mannvirkjum, athafnarsvæðum, færiböndum og öðrum innviðum fyrir rekstur og þjónustu hafnarinnar.


Skipulögin eru til kynningar á bæjarskrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss og á vef sveitarfélagsins. Einnig má sjá skipulögin á vef Skipulagsstofnunar. Ábendingum, athugasemdum eða spurningum má beina á skipulag@olfus.is


Framkvæmd íbúakosningarinnar verður með þeim hætti að kosningin skal standa yfir í tvær vikur og hefst þann 25. nóvember næstkomandi og lýkur 9.desember.

Framkvæmd íbúakosningarinnar byggir á ákvæðum reglugerðar nr. 922/2023 um íbúakosningar sveitarfélaga og hefur Sveitarfélagið Ölfus notið leiðsagnar KPMG við undirbúninginn. Reglurnar eru að mörgu leyti sambærilegar kosningalögum en helsti munur er að ekki er um einn eiginlegan kjördag að ræða heldur er tímabil kosningar frá 25.nóvember til 9.desember

Íbúakosningin hefst 25. nóvember á skrifstofu sveitarfélagsins og verður opið alla virka daga á opnunartíma skrifstofu sveitarfélagsins.

Á kjördegi Alþingiskosninga þann 30. nóvember næstkomandi gefst kjósendum tækifæri til að greiða atkvæði á kjörstað og er opnunartími sá hinn sami og við Alþingiskosningarnar.

Kjósendur geta óskað eftir að greiða atkvæði í póstkosningu með því að senda póst á formann kjörstjórnar Sigurð Jónsson á netfangið sigginonna@gmail.com eða á Söndru Dís Hafþórsdóttur sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs á netfangið sandradis@olfus.is

Atkvæðagreiðsla með pósti fer fram með þeim hætti að kjósandi óskar eftir því við kjörstjórn að fá kjörgögn send til sín á það heimilisfang eða það netfang sem hann gefur upp. Halda skal skrá utan um þá kjósendur sem fá kjörgögn send til sín. Óski kjósandi eftir að fá atkvæði sent á heimilisfang er atkvæðaseðill ásamt sendiumslagi, kjörseðilsumslagi og fylgibréfi sent til kjósanda á umbeðið heimilisfang. Kjósandi merkir við atkvæðið og leggur það í kjörseðilsumslagið í viðurvist tveggja lögráða votta eða lögbókanda. Kjósandi fyllir út fylgibréf og leggur það og atkvæðisumslag í sendiumslagið. Óski kjósandi eftir að fá kjörgögn send rafrænt eru þau send á umbeðið netfang. Atkvæðaseðill og fylgibréf eru prentuð út og kjósandi merkir við atkvæðið og leggur það í umslag sem kjósandi útvegar sjálfur. Umslagið og fylgibréf eru lögð í annað umslag sem kjósandi útvegar einnig sjálfur. Kjósandi annast sjálfur sendingu atkvæðis til kjörstjórnar og ber kostnað af sendingu bréfsins.

Rétt til þátttöku í íbúakosningu hafa þeir sem mega kjósa í sveitarstjórnarkosningum, þ.e.:

a) Hver íslenskur, danskur, finnskur, sænskur eða norskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning hefst og á skráð lögheimili í því sveitarfélagi sem íbúakosning fer fram,

b) Erlendur ríkisborgari, annar en greinir í a-lið, ef hann hefur átt skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir lokadag atkvæðagreiðslu, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum a-liðar

Atkvæðagreiðslan er bindandi skv. 3. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga.

Yfirkjörstjórn sveitarfélagsins fer með hlutverk kjörstjórnar vegna íbúakosninga.

Umræða um bréf First Water sem barst rétt fyrir fund. Grétar Ingi Erlendsson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Elliði Vignisson og Gunnsteinn Ómarsson tóku til máls og ræddu efni bréfsins. Lagt var til að bæjarstjóra væri falið að ræða við bréfritara og var það samþykkt samhljóða.

Umræða um íbúakosningu. Elliði Vignisson, Vilhjálmur Baldur Guðmundsson, Gunnsteinn Ómarsson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Grétar Ingi Erlendsson tóku til máls.

Forseti lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun: Bæjarstjórn samþykkir að yfirkjörstjórn sveitarfélagsins verði falið hlutverk kjörstjórnar vegna íbúakosninganna skv. 5.gr. reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga nr. 922/2023 og að sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs verðir falin umsjón með kosningunni á opnunartíma bæjarskrifstofu. Þá samþykkir bæjarstjórn að undirbúningi og framkvæmd verði hagað í samræmi við það sem frá greinir í innbókun.

Bókunin lögð í atkvæðagreiðslu og var samþykkt með 5 atkvæðum D lista og Vilhjálms Baldurs Guðmundssonar B-lista. Ása Berglind Hjálmarsdóttir H-lista og Gunnsteinn Ómarsson B-lista sátu hjá.

Vilhjálmur Baldur gerði grein fyrir atkvæði sínu.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir H- lista og Gunnsteinn Ómarsson B-lista gerðu grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:

Eins og við erum fylgjandi því að kosið verði um þetta mál sem allra fyrst þá getum við ekki annað en bent á þau ófaglegu vinnubrögð meirihlutans sem hér birtast enn á ný. Þegar bindandi kosningum var frestað, gegn okkar vilja, fyrirvaralaust innan við sólarhring áður en þær áttu að hefjast í maí sl. var ástæðan sögð mikilvægi þess að rannsaka þyrfti áhyggjur First Water til hlítar og vitnað í rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Lagt var upp með feril í skýrum skrefum sem birtist í gagni sem var til umræðu á bæjarstjórnarfundi 27. júní sl. og lagt fram á fundi Skipulags- og umhverfisnefndar 19. júní sl. Þessi ferill hefur dregist mjög á langinn og nú á í flýti að hoppa yfir mikilvæga þætti sem lagt var upp með, eins og að gefa First Water nægilegan tíma til þess að andmæla niðurstöðum, að gefa Skipulagsstofnun tíma til að meta hvort opna þurfi umhverfismat að nýju, halda tvenna íbúafundi eins og lagt var upp með þar sem niðurstöður rannsóknarferlisins yrðu kynntar og málið kynnt í heild á öðrum opnum fundi í framhaldinu..

Sem fyrr þá ætlar Sveitarfélagið Ölfus ekki að standa fyrir upplýsandi fundi þar sem ólík sjónarmið sem snerta hagsmuni íbúa koma fram í þessu umdeilda máli. Þar má nefna alvarlega athugasemd Vegagerðarinnar vegna þeirrar auknu umferðar þungaflutninga um vegi sem það ekki þola og neikvæða niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar um mikilvægan þátt verkefnisins sem snýr að efnistöku af hafsbotni á mikilvægu hrygningarsvæði fiskistofna. Það er ekki rétt að setja málið þannig fram að aðeins sé kosið um breytingu á deili- og aðalskipulagi því hér er fólk raunverulega að kjósa um framtíð sveitarfélagsins, umferðaröryggi, ágang á náttúruauðlindir og ímynd. Þetta snertir hagsmuni þeirra Íslendinga sem hér búa og framtíðarkynslóða.

Það er ábyrgðarhluti kjörinna fulltrúa að upplýsa íbúa og standa við gefin fyrirheit gagnvart hagaðilum. Vegna þess hvernig málið er unnið getum við ekki samþykkt það og sitjum hjá við afgreiðslu þess.

Gunnsteinn R. Ómarsson B-lista og Ása Berglind Hjálmarsdóttir H-lista

Óskað var eftir fundarhléi kl 17:45. Fundi framhaldið kl. 18:05.

Erla Sif Markúsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa D-lista:

Sá sami hluti minnihlutans og lagðist gegn frestun íbúakosninga getur núna ekki greitt því atkvæði sitt að kosið verði samhliða alþingiskosningum. Við því er fátt að gera annað en að virða það.
Hvað varðar rannsóknaregluna þá er það tryggt í lögum um íbúakosningar að mál séu upplýst tímanlega og sjálfgefið að því ferli verði fylgt. Það er ekki rétt að ekki verði haldin íbúafundur. Sjálfgefið er að það verði gert. Einnig að gögn verði birt á heimasíðu og um þau fjallað, af til þess bærum aðilum í fjölmiðlum og víðar. Það er enda mikilvægt að íbúar fái fullvissu um það hvort að það sé ryk, hljóð eða titringsmengun af fyrirhugaðri starfsemi. Á sama hátt er sjálfgefið að fjalla um málið í heild sinni, þar á meðal um það hvort og þá hversu mikil mengunarhætta er af hafnarrekstri í nágrenni starfseminnar, nauðsynlegar vegabætur og annað sem við á. Bæjarfulltrúar D lista vilja að lokum minna oddvita H-listans á að hún hefur nú þegar tjáð sig um það á opinberum vettvangi að það væri "góð hugmynd" að kjósa samhliða þingkosningum. Það að hún skipti um skoðun merkir ekki að allir aðrir geri það um leið.

Bæjarfulltrúar D-lista.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:20 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?