Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 415

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
15.02.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Böðvar Guðbjörn Jónsson áheyrnarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Elliði Vignisson, bæjarstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1912038 - Lóðaúthlutanir til Þróunarfélagsins Lands ehf.
Fyrir bæjarráði lá tölvupóstur frá lögmanni sveitarfélagsins þar sem tilkynnt er að Hæstiréttur Íslands hafi hafnað áfrýjunarbeiðni Þorláksverks í máli gegn Sveitarfélaginu Ölfusi og dómur Landsréttar um sýknu Ölfuss standi því óhaggaður.

Málið varðar lóðaúthlutun til Þróunarfélagsins Lands árið 2006 (Pálsbúð, Klængsbúð og Ísleifsbúð). Síðar voru lóðirnar framseldar til Þorláksverks þ.e. áður en Þróunarfélagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Framsalið var ekki tekið fyrir í bæjarstjórn heldur var það heimilað í tölvupósti af hálfu þáverandi bæjarstjóra. Á þeim tímapunkti voru nánast engar framkvæmdir hafnar og gatnagerðargöld að fjárhæð 35 milljónir voru í vanskilum. Fyrir liggur að upphaflegur lóðarhafi greiddi einungis tæpar 7 milljónir til bæjarins í kjölfar lóðaúthlutunar árið 2006.

Í héraðsdómi var Sveitarfélagið Ölfus dæmt til að greiða Þorláksverki 49,4 milljónir í bætur vegna þess að lóðunum var endurúthlutað árið 2016 og 2017 án þess að fyrri lóðaúthlutun til Þorláksverks hefði verið afturkölluð með formlegum hætti. Sveitarfélagið Ölfus áfrýjaði þeim dómi til Landsréttar sem sýknaði Sveitarfélagið Ölfus af öllum kröfum.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
2. 2402018 - Heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands - bókun frá SASS
Fyrir bæjarráði lá erindi frá SASS þar sem fjallað er um heimavist við FSu og skorað á mennta- og barnamálaráðherra að beita sér fyrir því að óvissu vegna heimavistar FSU verði eytt hið allra fyrsta.
Bæjarráð tekur undir bókun stjórnar SASS og skorar á sveitarstjórnir, mennta- og barnamálaráðherra og þingmenn kjördæmisins að beita sér tafarlaust fyrir því að óvissu vegna heimavistar við FSu verði eytt hið allra fyrsta.
3. 1704002 - Lagafrumvörp Beiðni Alþingis um umsögn.
629.mál - umsögn um mál nr. 629 Barnaverndarlög (endurgreiðslur).
521.mál - umsögn um mál nr. 521 Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu)
13.mál - umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna (fæðingarorlof, atvinnuleysistryggingar og námslán).


Lagt fram.
4. 2401046 - Umsókn um kaup á fasteign og meðfylgjandi lóð Nesbraut 8
Í framhaldi af ákvörðun bæjarráðs um að selja fasteignina Nesbraut 8 fjallaði bæjarráð um innsend tilboð. Í auglýsingunni (Sveitarfélagið Ölfus auglýsir til sölu fasteignina Nesbraut 8 | Sveitarfélagið Ölfus (olfus.is)) sagði að tilboðum skildi skilað í lokuðu umslagi á bæjarskrifstofur Ölfuss, Hafnarbergi 1, í síðasta lagi 13. febrúar nk. og að tilboðin yrðu tekin fyrir á fundi bæjarráðs.
Fyrir liggur að 7 tilboð bárust og verða þau lögð fyrir og opnuð á fundinum.

Áður en tilboð voru opnuð sammæltist bæjarráð um að vega og meta innsend tilboð eftir eftirfarandi atriðum:

1. Eingöngu kemur til greina að selja fasteignina og lóðina til þeirra sem hyggjast nýta lóðina að mestu undir byggingar.
2. Verð verður látið skera úr á milli þeirra sem hyggjast nýta lóðina undir byggingar.
3. Tilboðum verður raðað út frá ofangreindum atriðum og hæsta tilboði tekið svo fremi sem lóðin verði nýtt að mestu undir byggingar.
4. Falli bjóðandi hæsta tilboðs frá tilboði eða komi í ljós að fyrirætlan hans falli ekki að framtíðarnýtingu lóðarinnar undir byggingar skal næst hæsta tilboði tekið og svo koll af kolli.

Bæjarráð áskilur sér einnig fullan rétt til að hafna öllum tilboðum.

Eftirfarandi tilboð bárust:

1. Brimbjörg ehf.: 53.400.000
2. Sameinaðir ehf.: 43.650.000
3. Guðlaugur Orri Gíslason og fl.: 42.200.000
4. Hafnarnes Ver: 30.000.000
5. B.O.R.: 20.300.000.
6. Gnjót ehf. 17.300.000
7. Fasteignafélagið Klettur ehf.: 10.650.000

Eftir yfirferð tilboða samþykkti bæjarráð hæsta tilboð og fól starfsmönnum sínum að fullnusta söluna svo fremi sem framtíðaráform bjóðanda falli að þeim kröfum sem mótaðar voru fyrir opnun tilboða.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?