Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 313

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
23.02.2023 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir 1. varaforseti,
Grétar Ingi Erlendsson bæjarfulltrúi,
Erla Sif Markúsdóttir bæjarfulltrúi,
Hrönn Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson bæjarfulltrúi,
Böðvar Guðbjörn Jónsson 1. varamaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri
Í upphafi fundar leitaði forseti eftir athugasemdum við fundarboðið, engar athugasemdir voru gerðar.

Einnig óskaði forseti eftir því að taka inn með afbrigðum viðbætur við mál nr.1603010 - fundargerð aukaaðalfundar Bergrisans og breytingar á samþykktum Bergrisans. Var það samþykkt samhljóða.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2302029 - Stafræn húsnæðisáætlun Ölfuss 2023
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sett upp staðlað kerfi í samræmi við reglugerð nr. 1248/2018 um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. Með þeim er sveitarfélögum skylt að vinna stafræna húsnæðisáætlun. Hugmyndin er að húsnæðisáætlunin dragi fram mynd af stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu, greini framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setji fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf.

Samkvæmt lögunum skal bæjarstjórn staðfesta húsnæðisáætlunina árlega.



Hrönn Guðmundsdóttir, Elliði Vignisson og Grétar Ingi Erlendsson tóku til máls.

Húsnæðisáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2023 samþykkt samhljóða.
2. 2302033 - Sjókvíaeldi stjórnsýsluúttekt - Ríkisendurskoðun
Fyrir bæjarstjórn lá skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi; Lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit. Í skýrslunni er fjallað um stöðu sjókvíaeldis og stjórnsýslu þar að lútandi. Niðurstaða skýrslunnar er að stjórn­sýsla og eft­ir­lit með sjókvía­eldi hafa reynst veik­b­urða og brota­kennd og vart í stakk búin til að tak­ast á við auk­in umsvif grein­ar­inn­ar síðustu ár.

Fyrir liggur að Sveitarfélagið Ölfus er ríkur hagsmunaðili hvað þetta varðar enda seiðaeldi umsvifamikil atvinnugrein innan þess.

Erla Sif Markúsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Grétar Ingi Erlendsson tóku til máls.

Erla Sif Markúsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss fagnar stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi enda mikilvægt að greininni verði gert mögulegt að vaxa og dafna í sátt við nærsamfélag starfseminnar og náttúrunnar. Bent er á að rúmlega 522 manns störfuðu hjá fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi árið 2020 og tæplega 600 manns árið 2021. Rekstrartekjur hafa tífaldast frá árinu 2010 og voru tæpir 40 milljarðar árið 2020. Áætlaðar tekjur fyrir árið 2021 eru tæpir 45 milljarðar miðað við veltu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum.

Bæjarstjórn Ölfuss gerir athugasemdir við framgöngu þeirra sem nýtt hafa skýrslu Ríksendurskoðunar til að vega að starfsemi laxeldisfyrirtækja og jafnvel kallað eftir því að rekstri þessara fyrirtækja verði hætt með tilheyrandi tjóni fyrir nærsamfélög þeirra. Nær er að líta til ábendinga um hvernig skerpa megi á stjórnsýslu þessarar atvinnugreinar þannig að samfélagið fái notið þess vaxtar sem greinin á inni.

Bókunin var samþykkt samhljóða af öllum bæjarfulltrúum.
3. 2202001 - Atvinnustefna Ölfuss
Á fundinn kom Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Ölfus Cluster og gerði grein fyrir vinnulagi við gerð Atvinnustefnu fyrir Ölfus. Í máli hans kom fram að markmiðið með gerð atvinnustefnu væri að vinna heildstæða atvinnustefnu fyrir Sveitarfélagið Ölfus. Stuðst verður við fyrirliggjandi stefnur sveitarfélagsins í umhverfis- og orkumálum, nýtt aðalskipulag ásamt því að horft verður til áherslna Íslands og alþjóða samfélagsins í atvinnu- og umhverfismálum og þá sérstaklega heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Bæjarstjórn þakkar kynninguna og samþykkir fyrir sitt leyti það vinnulag sem lagt er til í kynningunni.

Samþykkt samhljóða.
4. 1909030 - Héraðsskjalasafn-framtíðarhúsnæði
Fyrir bæjarstjórn lá minnisblað frá Eflu vegna bókunar bæjarstjórnar Ölfuss á 312. fundi hennar. Í bókun bæjarstjórnar á þeim fundi kom m.a. fram að þar sem ekki lá fyrir kostnaðargreining á þeim framkvæmdum og breytingum sem þarf að ráðast í til að geta starfrækt starfsemina í húsnæðinu skv. viðeigandi kröfum geti bæjarstjórn ekki samþykkt kaupin að svo stöddu. Bæjarstjórn óskaði því svara við spurningum sem vörðuðu brunahönnun og aðgengismál.

Forsendur þessa nýja minnisblaðs eru uppdrættir sem merktir eru “í vinnslu" og ófullgerðir. Á þessum nýju uppdráttum koma fram drög um hvernig innra skipulag og nýting hússins myndi verða.

Forseti lagði fram eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn Ölfuss hefur marg ítrekað að forsenda þess að hægt verði að ráðast í kaup á húsnæði sé að um hagstæðasta kostinn sé að ræða og kaupferlið sé gagnsætt og í samræmi við vandaða innkaupastefnu sveitarfélaga sem standa að byggðasamlaginu. Þá er brýnt að stuðst sé við þá þarfagreiningu sem samþykkt var einróma af stjórn og lögð til grundvallar vali á milli þeirra kosta sem voru skoðaðir.

Samkvæmt þeim uppdrætti sem nú liggur fyrir og jafnframt er forsenda minnisblaðs Eflu þá má glöggt sjá að viðkomandi húsnæði stenst ekki þá þarfagreiningu sem lögð var fram fyrr í ferlinu.

Mikilvægt er að þeir aðilar sem skiluðu inn verðtilboði og valið stóð á milli varðandi húsnæðið sitji við sama borð og verði ekki mismunað með því að víkja frá umræddri þarfagreiningu eftir þörfum á seinni stigum málsins nema allir fái kost á sömu aðlögun. Skv. uppdráttum sem fylgdu minnisblaðinu er það ekki raunin. Slík framganga samræmist engan vegin innkaupareglum Ölfuss og vart annarra sveitarfélaga sem að málinu koma.

Bæjarstjórn vekur ennfremur athygli á því að enn standa eftir ósvaraðar spurningar frá 312. fundi bæjarstjórnar varðandi aðgengismál, algilda hönnun og þar af leiðandi mögulegan ófyrirséðan kostnað. Ekki er því hægt að taka afstöðu til málsins fyrr en áðurnefnd atriði og fullgerðir uppdrættir liggja fyrir enda væri slík ákvarðanataka ekki vönduð stjórnsýsla.

Bæjarstjórn frestar því afreiðslu erindisins þar til tryggt hefur verið að kaupferillinn standist innkaupareglur og þar með að unnið sé eftir þeirri þarfagreiningu sem lögð hefur verið til grundvallar við staðarval.

Samþykkt samhljóða.
5. 1607014 - Skóla og velferðarmál Fundargerðir skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings.
Fundargerð 59.fundar skóla- og velferðarnefndar Árnesþings til kynningar. Taka þarf sérstaklega fyrir lið nr.3, tillaga að breyttum gjaldskrá, þar sem fram kemur tillaga að uppfærðum upphæðum og gjaldskrá fyrir 2023 sem taka gildi 1. mars 2023.


Hrönn Guðmundsdóttir og Elliði Vignisson tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni og þar með þær breytingar á gjaldskrám sem lagðar eru til í 3. lið fundargerðarinnar.

Samþykkt samhljóða.
6. 1603010 - Málefni fatlaðs fólks Fundargerðir stjórnar Bergrisans.
Fundargerð auka aðalfundar Bergrisans frá 20.02.2023 til kynningar og fyrri umræða um breytingar á samþykktum Bergrisans.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Samþykkt að vísa breytingum á samþykktum Bergrisans til annarar umræðu í bæjarstjórn Ölfuss.

Samþykkt samhljóða.
7. 2301038 - ASK Breyting á aðalskipulagi - Raufarhólshellir
Verkfræðistofan Efla leggur fram óverulega breytingu á aðalskipulagi vegna Raufarhólshellis. Skilmálar úr eldra skipulagi fyrir Raufarhólshelli féllu út við heildarendurskoðun aðalskipulags. Þessir skilmálar voru skilyrði fyrir því að hægt væri að heimila uppbyggingu á svæðinu sem er innan grannsvæðis vatnsverndar. Þar sem uppi eru áform um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu er þetta nú lagfært með óverulegri breytingu á aðalskipulagi sem verkfræðistofan EFLA hefur unnið.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 2. málsgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
8. 2302017 - Deiliskipulag vegna rannsóknarborhola í Meitlum á Hellisheiði
Orka Náttúrunnar leggur fram skipulagslýsingu deiliskipulags vegna tilraunaborhola í meitlum á Hellisheiði. Rannsóknin er liður í að afla orku til að viðhalda rafmagnsframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar. Nefndin leggur áherslu á að gamla þjóðleiðin, Lágaskarðsvegur, verði óhindruð.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa skipulagslýsinguna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, Elliði Vignisson og Hrönn Guðmundsdóttir tóku til máls.

Tillaga að eftirfarandi afgreiðslu lögð fram: Niðurstaða nefndarinnar staðfest með þeim fyrirvara að skipulagslýsingin verði ekki auglýst fyrir en ON hefur gert grein fyrir því hvernig tilgreind framkvæmd fellur að ákvæðum Sveitarfélagsins Ölfuss um að auðlindanýting sem þessi sé til hagsbóta fyrir íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða.
9. 2302015 - DSK Krókur, hótel stækkun byggingarreits
Landeigendur leggja fram deiliskipulagstillögu sem heimilar að byggt verði við núverandi hótel svo hægt sé að fjölga herbergjum sem eru 21 í dag. Sýnd er ný borhola á lóðinni. Í aðalskipulagi þar sem fjallað er um lóðina segir um svæðið sem er auðkennt sem VÞ6:
Fjöldi gesta: 150. Ekkert deiliskipulag er í gildi. Á svæðinu er hótel og veitingarekstur. Á hótelinu er 21 herbergi og veitingasalur fyrir 100-150 gesti. Á janúarfundi nefndarinnar var landeiganda heimilað að láta vinna deiliskipulag sem nú er lagt fram.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Landeigandi þarf að leggja fram borskýrslu sem staðfestir vatnsöflun áður en gengið verður endanlega frá skipulaginu.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
10. 2302021 - DSK Breyting á deiliskipulagi Gljúfurárholt land 9
Landeigandi óskar eftir að breyta deiliskipulagi í samræmi við uppbyggingarheimildir á landbúnaðarlandi í nýju aðalskipulagi Ölfuss.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Nefndin óskar eftir að núverandi reiðvegur meðfram Hvammsvegi verði sýndur á uppdrætti og gerð verði grein fyrir aðkomu gangandi og hjólandi.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
11. 2302018 - Stofnun lóða Mánstaðir 4
Landeigandi óskar eftir að stofna lóðir að Mánastöðum í samræmi við nýlega staðfesta breytingu á deiliskipulagi Mánastaða.
Stofnun umræddra lóða samþykkt.
12. 2301039 - Deiliskipulag Bjarnastaða
Lögð er fram deiliskipulagstillaga sem setur ramma um framtíðaruppbyggingu að Bjarnarstöðum í Ölfusi. Gert er ráð fyrir nokkrum gestahúsum og uppbyggingu í samræmi við heimildir aðalskipulags á landbúnaðarsvæðum, en á staðnum er í dag er rekin gististarfsemi og hestatengd ferðaþjónustustarfsemi.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
13. 2208037 - Loftgæðamælar í Þorlákshöfn
Á septemberfundi skipulagsnefndar var skipulagsfulltrúa falið að fara þess á leit við Umhverfisstofnun að settir verði upp loftgæðamælar í eða við Þorlákshöfn.
Komið hefur í ljós að Umhverfisstofnun setur ekki upp mæla til að fylgjast með almennum loftgæðum en fylgist hins vegar með loftgæðum vegna náttúruhamfara. Sveitarfélög hafa sjálf fjárfest í mælabúnaði sem fylgist með svifryksmengun og mengun frá útblæstri bifreiða. Þessi búnaður er tengdur vefsíðunni loftgaedi.is sem Umhverfisstofnun sér um og kostar í kringum 10.000.000 fyrir hverja mælistöð. Þá eru til ódýrari lausnir sem hafa reynst illa í íslensku veðurfari sem kosta í kringum 50.000 fyrir hvern mæli.

Afgreiðsla nefndar: Lagt fram. Nefndin telur jákvætt að aflað verði gagna um loftgæði í og við Þorlákshöfn og beinir því til bæjarstjórnar að vinna málið áfram.

Hrönn Guðmundsdóttir, Grétar Ingi Erlendsson og Elliði Vignisson tóku til máls.

Lagt var til að vísa málinu til gerðar fjárhagsáætlunar næsta árs.
Samþykkt samhljóða.

14. 2202040 - DSK Hjarðarból svæði 3 og 4
Deiliskipulag Hjarðarbóls svæði 1 og 2 hefur verið auglýst og kom athugasemd frá Vegagerðinni vegna þess hve stutt væri milli tenginga við Hvammsveg. Eftir fundahöld með Vegagerðinni eru nú sýnd svokölluð tvöföld T-gatnamót við veginn. Einnig hafa skilmálar verið settir fram með skýrari hætti eftir auglýsingu og eru nú settir skilmálar fyrir alla byggingarreiti. Landeigandinn vinnur að því að finna út hvernig öflun neysluvatns verði háttað.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. enda liggi fyrirkomulag vatnsöflunar fyrir þegar gengið verður frá skipulaginu. Hótelbyggingin verði að hámarki 4 hæðir með inndreginni 4. hæð. Gerð verði grein fyrir útivistarstígum, með fram allri Brandarbraut og að hóteli. Einnig reiðleið að hesthúsalóð og norðan hótellóðar.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.
15. 2210027 - DSK Lækur 2 lóð C deiliskipulagsbreyting
Kvöð um vatnslögn Vatnsveitu Hjallasóknar hefur verið færð inn á uppdrátt og staðfesting borist frá eiganda nágrannalóðar um samþykki hans á staðsetningu húsa allt að 5 metra frá lóðarmörkum. Umhverfisstofnun kom með tvær ábendingar um deiliskipulagsbreytinguna. Einnig gerði Heilbrigðiseftirlit Suðurlands athugasemd við greinargerð og óskaði eftir ítarlegri umfjöllun um borholu og hvernig staðið verður að vatnsöflun. Hefur tillagan verið lagfærð til samræmis og bætt inn texta um hreinsivirki, veitur, efnisval og útlit. Í kjölfarið kom staðfesting frá Heilbrigðiseftirlitinu um að komið hefði verið til móts við athugasemdir stofnunarinnar.


Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Gestur Þór Kristjánsson vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar og tók Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir við fundarstjórn.

Niðurstaða nefndarinnar staðfest.

Gestur Þór Kristjánsson tók aftur við stjórn fundarins.
Fundargerðir til staðfestingar
16. 2302002F - Framkvæmda- og hafnarnefnd - 36
Fundargerð 36.fundar framkvæmda- og hafnarnefndar frá 09.02.2023 til staðfestingar.

1. 2109002 - Stækkun hafnarinnar Áfangi 1. Suðurvarargarður og Suðurvararbryggja.

Gert var fundarhlé í 5 mínútur.
Fundi framhaldið og Böðvar Guðbjörn Jónsson varabæjarfulltrúi H-lista tók til máls undir þessum lið og lagði fram eftirfarandi bókun:

Undirritaður mótmælir því sem fram kemur í bókun fulltrúa meirihlutans í fundargerð framkvæmda- og hafnarnefndar frá 16. febrúar 2023. Er í þeirri bókun ráðist með ómálefnalegum hætti að kjörnum bæjarfulltrúa minnihlutans, Ásu Berglindi, og byggt á viðtali sem Ása veitti fjölmiðlinum Heimildinni.

Í viðtali við Heimildina ræðir Ása Berglind um áherslur meirihluta sveitarstjórnar á síðasta kjörtímabili og að hún hafi gagnrýnt þær á sínum tíma, þegar hún var ekki kjörinn fulltrúi.

Hvergi er að sjá í fyrrnefndu viðtali við Ásu Berglindi að hún sé að saka núverandi né fyrrverandi nefndarfólk í framkvæmda- og hafnarnefnd um annarlega hagsmuni eða ásaka þau um eitt eða neitt. Skírskotun til þess að Ása Berglind hafi með ummælum sínum í viðtali við heimildina verið að saka fyrrgreinda nefndarmenn um brot gegn 24. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er með öllu fjarstæðukennd. Það að gagnrýna ákvarðanir sveitarstjórnar og vera þeim ósammála felur ekki í sér ásökun um brot á sveitarstjórnarlögum.

Böðvar Guðbjörn Jónsson varabæjarfulltrúi H-lista

Grétar Ingi Erlendsson tók til máls.

Hrönn Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi B-lista tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

Undirrituð gerir athugasemd varðandi bókun sem lögð var fram af meirihluta framkvæmda- og hafnarnefndar á síðasta fundi þann 16. febrúar varðandi viðtal bæjarfulltrúans Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur í Heimildinni. Í viðtalinu kemur hvergi fram að hún sé að tjá sig sem fulltrúi minnihlutans á nokkurn hátt, heldur gerir hún það sem íbúi í samfélaginu.
Undirrituð sat þennan fund í forföllum Ásu Berglindar, en í fundargögnum kemur ekkert fram að ræða ætti þetta viðtal. Síðan er lögð fram bókun og ætlast til að undirrituð bregðist við, sem er að öllu leyti óskiljanlegt því undirrituð átti engan þátt í málinu. Í bókuninni er einnig hvatning til nefndarfólks um að viðhöfð verði vönduð vinnubrögð sem undirrituð tekur heilshugar undir. Vil ég koma á framfæri að vanda mætti betur dagskrá funda þannig að þar komi fram það sem ræða eigi og nægileg fylgigögn með svo allt nefndarfólk hafi sömu möguleika á að setja sig betur inn í mál og verið betur undirbúið fyrir fundi og geti svarað því sem að nefndarfólki er beint.

Hrönn Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi B-lista

Elliði Vignisson og Erla Sif Markúsdóttir tóku til máls.

Gert var 5 mínútna fundarhlé.

Fundi fram haldið og Grétar Ingi Erlendsson lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihlutans:

Undirrituð ítreka þá afstöðu sem fram kemur í afgreiðslu framkvæmda- og hafnarnefndar. Framganga bæjarfulltrúans og nefndarmannsins Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur í tilgreindu viðtali er með öllu óverjanleg. Þar stígur hún fram með ásakanir á hendur kjörinna fulltrúa og starfsmanna og sakar þá um að ganga erinda eins fyrirtækis, gegn hagsmunum samfélagsins. Framkoma gagnvart félögum hennar í bæjarstjórn er þó ekki eins alvarleg og þung orð hennar og ásakanir í garð almennra bæjarbúa sem ekkert hafa til sakar unnið annað en að reka sitt fyrirtæki í sínum heimabæ.
Ádráttur sá er fram kemur í bókun minnihlutans um að óeðlilegt sé að ræða rangfærslur bæjarfulltrúa á fyrsta fundi nefndarinnar eftir að viðtalið við hana birtist byggir á misskilningi. Vissulega boðaði bæjarfulltrúin forföll með skömmum fyrirvara en tækifæri hennar til að svara fyrir sig á næsta bæjarstjórnarfundi voru ekki skertar. Þar sem hún er ekki heldur stödd á þessum bæjarstjórnarfundi tilkynna undirrituð það hér með að þeir hyggjast taka málið aftur upp á næsta bæjarstjórnarfundi til að gefa henni tækifæri á að gera grein fyrir því hvað lá til grundvallar framgöngu hennar, eða biðjast afsökunar á orðum sínum.

Erla Sif Markúsdóttir, Grétar Ingi Erlendsson, Gestur Þór Kristjánsson og Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir bæjarfulltrúar D-lista.

2. 2302001 - Dýpkun við Suðurvararbryggju
3. 2302007 - Dælulögn Ísþórs innan hafnarsvæðis
4. 2204028 - Íþróttamiðstöð- endurnýjun rennibrautar
5. 2302013 - Clean up Iceland - Boð um þátttöku
6. 2302009 - Stækkun lóðar fyrir fráveituhreinsistöð
7. 2302010 - Endurnýjun dælubrunns fyrir fráveitu
8. 2302008 - Ný fráveituhreinsistöð

Hrönn Guðmundsdóttir og Böðvar Guðbjörn Jónsson tóku til máls og gerðu grein fyrir afstöðu sinni. Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
17. 2302001F - Bæjarráð Ölfuss - 391
Fundargerð 391.fundar bæjarráðs Ölfuss frá 16.02.2023 til staðfestingar.

1. 2302011 - Beiðni um styrk
2. 2211024 - Lóðaleigusamningur Laxabraut 35-41
3. 2302028 - Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 2023
4. 2302025 - Framboð í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 2023

Fundargerðin lögð fram í heild sinni og hún staðfest.
18. 2301010F - Skipulags- og umhverfisnefnd - 45
Fundargerð 45.fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 15.02.2023 til staðfestingar.

1. 2301042 - Kynning - stafræn samskipti sveitarfélags og byggingaraðila
2. 2302014 - Lóðamörk í Ölfusi
3. 2301038 - Breyting á aðalskipulagi v Raufarhólshellis. Tekið fyrir sérstaklega.
4. 2302022 - Ósk um breyting á aðalskipulagi vegna rannsóknarborana og vinnslu jarðhita á nýjum svæðum í Henglinum
5. 2302017 - Deiliskipulag vegna rannsóknarborhola í Meitlum á Hellisheiði. Tekið fyrir sérstaklega.
6. 2302015 - DSK Krókur, hótel stækkun byggingarreits. Tekið fyrir sérstaklega.
7. 2302021 - DSK Breyting á deiliskipulagi Gljúfurárholt land 9. Tekið fyrir sérstaklega.
8. 2301039 - Deiliskipulag Bjarnastaða. Tekið fyrir sérstaklega.
9. 2210027 - DSK Lækur 2 lóð C deiliskipulagsbreyting
10. 2202040 - DSK Hjarðarból svæði 3 og 4. Tekið fyrir sérstaklega.
11. 2201041 - Framkvæmadaleyfisumsókn rannsóknarhola á Bláfjallasvæði
12. 2302002 - Mammút veitur - umsókn um framkvæmdaleyfi
13. 2301040 - Skógrækt í landi Alviðru við Sogið - umsögn um matsfyrirspurn
14. 2302003 - Umsögn um umhverfismat vegna aukinnar niðurdælingar Á CO2 á Hellisheiði
15. 2302005 - Stofnun lóðar fyrir skólphreinsistöð við Hafnarbakka
16. 2301044 - Staðsetning fjarskiptaloftnets á íþróttahúsi Þorlákshafnar
17. 2302024 - Lögn frá Ísþór að Skarfaskersbryggju
18. 2302027 - Umsögn um matsáætlun vegna efnisvinnslu úr sjó við Landeyjarhöfn
19. 2208037 - Loftgæðamælar í Þorlákshöfn. Tekið fyrir sérstaklega.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
19. 2302004F - Ungmennaráð - 3
Fundargerð 3.fundar ungmennaráðs frá 15.02.2022 til staðfestingar.

1. 2112015 - Skólastefna Sveitarfélagsins Ölfuss

Fundargerðin staðfest.
Fundargerðir til kynningar
20. 1603005 - Samstarf sveitarfélaga Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerð 918.fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 27.01.2023 til kynningar.
Lagt fram til kynningar.
21. 2302026 - Arnardrangur hses.fundargerðir stjórnar
Fundargerð 1.fundar stjórnar Arnardrangs hses frá 19.12.2022, 2.fundar frá 05.01.2023 og 3.fundar frá 13.01.2023 til kynningar.
Lagt fram til kynningar.
22. 2009027 - Fundargerðir stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga.
Fundargerð 55.fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga frá 27.01.2023 til kynningar.
Lagt fram til kynningar.
23. 1603010 - Málefni fatlaðs fólks Fundargerðir stjórnar Bergrisans.
Fundargerðir 49.fundar stjórnar Bergrisans frá 05.01.2023, 50.fundar frá 13.01.2023 og 51.fundar frá 31.01.2023 til kynningar.
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:40 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?