Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 388

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
15.12.2022 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2212015 - Trúnaðarmál
Málið afgreitt og skráð í trúnaðarbók.
2. 2212017 - Þátttaka í Að sunnan á N4
Fyrir bæjarráði lá erindi frá sjónvarpsstöðinni N4 um þátttöku Sveitarfélagsins Ölfuss í þáttaröðinni Að sunnan á næsta ári.

Boðið er upp á samning við N4 uppá 1,8 milljóna þátttöku-styrk


Bæjarráð afþakkar samstarfið.

Samþykkt samhljóða.
3. 2212011 - Áskorun til sveitarstjórnar Mýrdalshrepps og Ölfuss um að námuvinnslu á Mýrdalssandi og í Þrengslum verði hafnað
Fyrir bæjarráði lágu undirskriftalistar Landverndar þar sem skorað er á sveitarstjórnir Mýrdalshrepps og Ölfuss um að námuvinnslu á Mýrdalssandi og í Þrengslum verði hafnað.

Bæjarráð þakkar Landvernd fyrir áhugann á málefnum Sveitarfélagsins Ölfuss. Ábendingar og rýni á þeim málum sem hafa með umhverfið að gera eru ætíð kærkomin og sjálfsagt að bera djúpa virðingu fyrir afstöðu þeirra sem láta sig málið varða. Eftir sem áður hefði bæjarráð talið heppilegra að þeim tveimur verkefnum sem hér er skotið saman væri haldið aðskildum í umfjöllun og rýni. Verkefnin eru enda í eðli sínu ólík. Þannig hefur bæjarráð/bæjarstjórn í Ölfusi í raun haft litla sem enga aðkomu að því verkefni sem lýtur að sandvinnslu í Mýrdalshreppi og þekkir það því lítið umfram það sem komið hefur fram í fjölmiðlum.

Hvað varðar hitt verkefnið sem lýtur að þvi að setja upp fyrirtæki sem vinnur móberg til útflutnings sem umhverfisvænt íblöndunarefni í steypu þá þekkir sveitarfélagið betur til þess og hefur þar aukna ábyrgð. Kostur hefði verið að sjá hvoru þessara ólíku verkefna þeir sem skrifuðu undir eru í raun að mótmæla og hversu margir eru að mótmæla báðum þessum verkefnum.

Í því samhengi minnir bæjarráð á samþykkt bæjarstjórnar hvað varðar forsendur þess að verkefnið fái framgang:

-*-*-*-*-*

1. Þegar fyrir liggur með hvaða hætti starfsemin verður, svo sem flutningur á efni, útlit bygginga o.fl. verður málið kynnt ennfrekar fyrir íbúum og svo fremi sem fyrirtækið taki á annað borð ákvörðun um að ráðast í verkefnið verður haldin íbúakosning um framgang þess.

2. Bæjarstjórn áskilur sér fullan rétt til að tryggja hagsmuni samfélagsins við vinnslu málsins. Verði verkefnið á einhverjum tímapunkti metið skaðlegt fyrir heildar hagsmuni samfélagsins er því sjálf hætt.

3. Ekki kemur til greina að efni, allt að 3 milljónum tonna, verði flutt frá námum eftir almenna þjóðvegakerfinu eins og það er núna. Finna þarf aðrar leiðir svo sem blöndu af námuvegum og færiböndum.

4. Ekki kemur til greina að afsláttur verði gefinn af útliti og eðli mannvirkja sem rísa á hafnarsvæðinu. Hæð þeirra, útlit og annað fyrirkomulag skal í öllum tilvikum taka mið af nálægð við íbúabyggðina. Til að tryggja slíkt hefur umhverfis- og skipulagsnefnd skipað faghóp með arkitekt, verkfræðing o.fl. sem tryggja skulu að ef mannvirkin rísi þá verði það til að efla samfélagið en ekki skaða það.

5. Ekki kemur til greina að afsláttur verði gefin af almennum kröfum um hljóðmengun, rykmengun og annað það sem valdið getur samfélaginu ama. Komi til þess að skipulagi verði breytt við vinnslu málsins verða slíkar kröfur að minnsta kosti þær sömu og eru í skipulagi hafnarsvæðisins.

-*-*-*-*-*

Að lokum bendir bæjarráð Landvernd góðfúslega á að á undirskriftalistanum eru verulegir formgallar þar sem tugir nafna og kennitalna koma oftar fyrir en einu sinni.

Hrönn Guðmundsdóttir fulltrúi B-lista og Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi H-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Við deilum þessum áhyggjum Landverndar og tökum undir þessa áskorun og sérstaklega þau orð Landverndar að Það sé nauðsynlegt að greina samfélagsáhrif af mikilli vandvirkni til að koma megi í veg fyrir rangar ályktanir, og í kjölfarið ranga niðurstöðu.



4. 2212012 - Vilyrði um lóð
Fyrir bæjarráði lá viljayfirlýsing milli Sveitarfélagsins Ölfuss og Íslenskra fasteigna um vilyrði fyrir lóð fyrir hótel og afþreyingarmiðstöð í Hafnarvík við Leirur í Þorlákshöfn.

Bæjarráð samþykkir viljayfirlýsinguna.

Samþykkt samhljóða.
5. 2212018 - Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 20222023
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Matvælaráðuneytinu um úthlutun byggðarkvóta á fiskveiðiárinu 2022/2023. Fram kemur að Þorlákshöfn fær úthlutað 2,1% af heildarúthlutun til allra byggðalaga eða 101 tonn sem er 31 tonni meira en við seinustu úthlutun.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og samþykkir að óska eftir því við Matvælaráðuneytið að úthlutun byggðakvóta verði með sama hætti og verið hefur undanfarin ár. Þannig verði 35% skipt jafnt á milli allra skipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu sem skráð voru í Þorlákshöfn og hafa almennt veiðileyfi. 65% verði úthlutað eftir lönduðum afla seinasta fiskveiðiárs.

Samþykkt samhljóða.
6. 2212010 - Styrkbeiðni - Okkar heimur
Okkar heimur, sem er stuðningsúrræði fyrir börn og foreldra/forsjáraðila með geðrænan vanda eða geðsjúkdóma, óskar eftir styrk að fjárhæð kr.400.000.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

Samþykkt samhljóða.
7. 2212013 - Skólaeldhús - framtíðarsýn
Bæjarráð fjallaði um framtíðarsýn hvað varðar rekstur eldhúsa og mötuneyta á vegum sveitarfélagsins. Fyrir liggur að í dag eru rekin tvö eldhús, annars vegar á Bergheimum þar sem eldað er fyrir grunn- og leikskóla og hins vegar á Níunni, Egilsbraut 9, þar sem eldað er fyrir eldri borgara. Þá liggur og fyrir að stefnt er að byggingu nýs leikskóla í hverfinu vestan við Bergin.

Með hliðsjón af vaxandi umsvifum kann að vera gott að vinna skýra framtíðarsýn hvað þessi mál varðar með áherslu á gæðamál og hagkvæmni.

Með hliðsjón af ofangreindu samþykkir bæjarráð að skipa þriggja manna starfshóp til að greina og meta stöðu eldhúsa og mötuneyta ásamt því að leggja drög að framtíðarsýn hvað þessi mál varðar. Hópinn skipa Jóhanna Hjartardóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs, Guðni Pétursson aðalbókari og Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Með hópnum vinna þau Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri og Kolbrún Una Jóhannsdóttir forstöðumaður.

Hópnum er falið að skila greinagerð með drögum að framtíðarsýn eigi síðar en við upphaf annars ársfjórðungs 2023.

Samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?