Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 27

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
04.12.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðlaug Einarsdóttir aðalmaður,
Bettý Grímsdóttir 1. varamaður,
Hrafnhildur Lilja Harðardóttir aðalmaður,
Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir 1. varamaður,
Helena Helgadóttir leikskólastjóri,
Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri,
Svala Ósk Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Andrea Sól Ingibergsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ragnheiður María Hannesdóttir áheyrnarfulltrúi,
Valur Rafn Halldórsson áheyrnarfulltrúi,
Jóhanna M Hjartardóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Jóhanna M. Hjartardóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2311017 - Skýrsla skólastjóra
Skólastjóri kynnti áherslur og fjölbreytt verkefni grunnskólans:
- Í byrjun nóvember tóku nýjar skólareglur gildi þar sem allir nemendur fá nú frí frá símum sínum á skólatíma. Við sjáum strax jákvæðar breytingar á skólabrag, þar sem nemendur eru nú glaðari og virkari í samskiptum í frímínútum. Í stað símanotkunar dunda nemendur sér nú við ýmis verkefni eins og spil, púsl, borðtennis auk þess sem íþróttahúsið er opið fyrir leiki og hreyfingu.
- Við höfum fengið heimsóknir frá verkefnunum List fyrir alla og Skáld í skólum og hafa nemendur notið fjölbreyttrar og fræðandi dagskrár.
- Teymi starfsfólks sem vinnur að innleiðingu stefnunnar Uppeldi til ábyrgðar sótti námskeið hjá Rebeccu Grey frá Kanada.
- Þollóween er alltaf skemmtileg vika í skólanum. Hápunktar vikunnar voru: Draugahús í umsjón 10. bekkjar. Búningadagur og Hryllingssögukeppnin.
- Í tilefni dags gegn einelti unnu nemendur að skemmtilegu og fallegu verkefni, sem hefur orðið árleg hefð.Vinabekkir unnu saman að gerð korta með vinalegum orðsendingum og myndum. Kortin voru síðan borin út í öll hús í bænum.
- Skólinn stóð fyrir mini-menntabúðum, þar sem kennarar héldu stutt erindi fyrir samstarfsfólk sitt. Þessar búðir eru mikilvægur þáttur í að efla faglega umræðu og skapar lærdómssamfélag.
- Hópur kennara hefur leitt vinnu við innleiðingu á leiðsagnarnámi í vetur. En leiðsagnarnám byggir á því að fylgjast með námsferlinu sjálfu og nýta niðurstöður til að bæta náms- og kennsluhætti.
- Skjálftinn, hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi, fór fram 23. nóvember í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn. Arna Dögg, tónmenntakennari, leiddi hópinn í sköpunarferlinu.
- Desember verður viðburðaríkur með fjölbreyttri dagskrá: Litlu jólum, jólaböllum, jólaföndri og fleiru skemmtilegu.



Nefndin lýsir ánægju með fjölbreytt, gefandi og skemmtileg verkefni innan skólans og þakkar kynninguna.
2. 1910057 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Starfsáætlun.
Starfsáætlun grunnskólans 2024 - 2025 lögð fram til kynningar og samþykktar.
Nefndin þakkar kynninguna og samþykkir starfsáætlun skólaársins 2024-2025 samhljóða.
3. 2311012 - Skýrsla leikskólastjóra
Leikskólastjóri kynnti starfið í leikskólanum en í dag eru 141 börn á aldrinum 18 mánaða til 5 ára sem dvelja í leikskólanum og eru allir kjarnar fullnýttir. Mikil veikindi hafa bæði verið að herja á barnahópinn og starfsmenn sem hefur aðeins raskað starfsseminni.

Á aðventunni eru nokkrar uppákomur/skemmtanir í leikskólanum:
- Skjóða kom í heimsókn í boði foreldrafélags leikskólans.
- Tónlistarskólinn kom með tónlistaratriði og flutti fyrir eldri börn leikskólans, þau yngri voru í hvíld á þessum tíma.
- Eldri börnum leikskólans er boðið á sýninguna Nátttröllið Yrsa, einmana á jólanótt í Versölum í boði sveitarfélagsins.
- Eldri börnunum er boðið á generalprufu yngsta stigs grunnskólans.
- Magga Pála mætir með gítarinn og Laufey með fiðlu og stýra þær jólasöngfundi í leikskólanum.

Nefndin þakkar kynninguna og fagnar fjölbreyttu framboði á menningarviðburðum á aðventunni.
4. 2411035 - Fræðsla - Reglur um forgang að leikskóla
Samkvæmt reglum um starfsemi leikskóla í Sveitarfélaginu Ölfusi í kafla 1.5 segir:
Forgang í leikskóla eiga börn sem náð hafa innritunaraldri og að mati sérfræðinga hafa þörf fyrir leikskóladvöl. Skóla- og velferðarþjónusta Ölfuss leggur mat á umsóknir um forgang.

Sviðsstjóri leggur fram tillögu að reglum sem skýra betur ástæður og rök fyrir beiðni um forgang að leikskóladvöl. Reglurnar eru lagðar fyrir til umræðu og samþykktar.

Nefndin samþykkir samhljóða reglur og umsóknareyðublað er varðar forgang barna í leikskóla í Ölfusi.

5. 2411034 - Fræðsla - Föruneyti barna, samstarf um uppeldi og nám
Þróunarverkefnið Föruneyti barna hefur boðið Sveitarfélaginu Ölfusi að taka þátt í verkefninu (e. Invest in play) sem hefur það markmið að styrkja tengsl heimilis og skóla, með áherslu á betri samskipti milli kennara og foreldra til að stuðla að bættum námsárangri og vellíðan barna.

Verkefnið hljómar vel við áherslur skóla og velferðarsviðs Ölfuss um að styrkja tengsl heimilis og skóla, með áherslu á betri samskipti milli kennara og foreldra til að stuðla að bættum námsárangri og vellíðan barna í takt við lög um farsæld barna.

Eftir umræður um verkefnið er niðurstaða nefndarinnar að gagnlegt geti verið fyrir starfsfólk innan skóla, leikskóla og velferðarþjónustu að sækja leiðbeinendanámskeið þróunarverkefnisins Föruneyti barna. Í framhaldi verður tekin ákvörðun um foreldranámskeið en ekki er stefnt að því á þessu skólaári. Samþykkt samhljóða.
6. 2411040 - Farsælt frístundastarf - Sportskóli fyrir börn í 1. - 2. bekk
Með fjölgun nemenda í Grunnskólanum í Þorlákshöfn þrengir verulega að starfsemi og þjónustu frístundaheimilisins. Skólastjóri, íþrótta og tómstundafulltrúi og sviðsstjóri fjölskyldu og fræðslusviðs hafa leitað leiða til að auka fjölbreytni í frístundastarfinu utan skólahúsnæðisins næsta haust. Fram kom sú hugmynd að auka framboð íþrótta um kl. 14 á daginn fyrir börn í 1. og 2. bekk í samstarfi við Umf. Þór og Knattspyrnufélagið Ægi. Nokkur íþróttafélög/sveitarfélög á Íslandi hafa farið þessa leið með farsælum árangri.
Nefndin tekur vel í tillöguna og felur sviðsstjóra, skólastjóra og íþrótta og tómstundafulltrúa að vinna verkefnið áfram og taka samtal við íþróttafélögin. Nefndin fagnar umræðunni og verður málið tekið aftur fyrir nefndina þegar endanleg útfærsla liggur fyrir. Samþykkt samhljóða.
Mál til kynningar
7. 2411042 - Samningur um samstarf á sviði endurhæfingar
Samningur um samstarf á sviði endurhæfingar lagður fram til kynningar.
Samstarfið á að stuðla að réttri þjónustu í endurhæfingu einstaklinga á réttum tíma, samfellu í fjárhagslegum stuðningi, framgangi og heildstæðri nálgun í endurhæfingu miðað við þarfir hvers og eins. Markmið þjónustunnar er að auka færni einstaklinga til virkni í samfélaginu, þ.á.m. til þátttöku á vinnumarkaði.

Nefndin þakkar kynningu á samstarfssamningi á sviði endurhæfingar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:45 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?