Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 13

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
20.09.2023 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðbergur Kristjánsson varaformaður,
Guðlaug Einarsdóttir aðalmaður,
Hrafnhildur Lilja Harðardóttir aðalmaður,
Hlynur Logi Erlingsson aðalmaður,
Jónína Magnúsdóttir skólastjóri,
Helena Helgadóttir leikskólastjóri,
Svala Ósk Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Tara Ósk Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Sigrún Berglind Ragnarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Jóhanna M. Hjartardóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og fræðslunefndar
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir athugasemdum við útsenda dagskrá. Engar athugasemdir komu fram.

Formaður bauð Sóleyju Jóhannesdóttur forstöðumann frístundar sérstaklega velkomna en hún var gestur fundarins.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2309050 - Frístundaheimilið - kynning
Sóley Jóhannesdóttir forstöðumaður frístundar í Ölfusi var gestur fundarins og kynnti hún starf frístundaheimilisins. Búið er að ráða starfsmenn í allar stöður og hefur starfið gengið vel eftir að var fullmannað. Sóley hefur áhyggjur af aðstöðuleysi og þrengslum í starfseminni sem er hamlandi. Það er ósk skólastjóra, forstöðumanns og starfsfólks að verði hugað að húsnæðismálum frístundaheimilisins sem allra fyrst.

Nefndin þakkar kynninguna.

Forstöðumaður frístundar vék af fundi.
2. 2302055 - Skýrsla leikskólastjóra
Skólaárið byrjar vel en nokkur börn komu í aðlögun með foreldrum sínum í haust. Foreldrafundir verða haldnir á næstunni þar sem verður m.a. farið yfir vetrarstarfið og mun sérkennslustjóri fara yfir Skólaþjónustu Ölfuss sem sinnir margþættum verkefnum með það að leiðarljósi að mæta fjölbreyttum þörfum barna, forsjáraðila og starfsfólks skólans. Skólasamstarf milli skólastiganna er að hefjast. Skólastjórar, kennarar og kjarnastýra elsta árgangs munu leggja línur fyrir veturinn.

Brunavarnir Árnessýslu fóru yfir húsnæði leikskólans og voru varnir flestar í lagi. Athugasemdir verða lagfærðar sem fyrst.

Þjóðleikhúsið bauð elstu og næstelstu börnum leikskólans á leiksýninguna, Ég get. Þetta er ljóðræn sýning um það sem er mitt, þitt og okkar. Sveitarfélaginu eru færðar bestu þakkir fyrir lánið á Versölum sem hýsti sýninguna.

Nefndin þakkar fyrir kynninguna.
3. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra.
Skólabragurinn er góður á nýju skólaári og er í mörg horn að lýta. Skólafærninámskeið var haldið í samstarfi við Skólaþjónustu Ölfuss fyrir foreldra nemenda í 1.bekk. Fullmannað er í frístundaheimilinu sem er gleðiefni og fer starfið vel af stað.
Foreldrafélag skólans hefur fundað og er verið að leggja línur fyrir starf félagsins í vetur. Einnig hefur nemendaverndarráð komið saman.
Grunnskólanum bárust veglegar gjafir í haust en Kvenfélag Þorlákshafnar afhenti skólanum hjartastuðtæki að gjöf og bauð Kiwanisklúbbur Þorlákshafnar 8. og 9. b. í Þórsmörk.

Nefndin þakkar fyrir kynninguna og þakkar Kvenfélagi Þorlákshafnar og Kiwanisklúbbnum Ölver fyrir rausnarlegar gjafir.
4. 2309044 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn - starfsáætlun
Starfsáætlun Grunnskólans í Þorlákshöfn veturinn 2023 - 2024 lögð fram til kynningar og samþykktar.
Starfsáætlun Grunnskólans í Þorlákshöfn fyrir veturinn 2023 - 2024 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nefndarmanna.
5. 2309036 - Skólaþjónusta Ölfuss - kynning
Skólaþjónusta Ölfuss hóf starfsemi 1. mars 2023 þegar Sveitarfélagið Ölfus og Hveragerðisbær sögðu sig frá byggðasamlagi Skóla og velferðarþjónustu Árnesþings. Sviðsstjóri kynnti áherslur í skólaþjónustu Ölfuss og fór yfir fyrstu starfsmánuðina.
Einnig var kynning á uppfærðri heimasíðu fjölskyldu og fræðslusviðs Sveitarfélagsins Ölfuss.

Nefndin þakkar fyrir kynninguna.
6. 2112015 - Skólastefna Sveitarfélagsins Ölfuss
Í maí 2022 kom saman vinnuhópur sem myndaður hafði verið í því skyni að vinna að endurgerð skólastefnu Ölfuss. Hópurinn samanstóð af kjörnum fulltrúum, skólastjórnendum beggja skóla, fulltrúum kennara, fulltrúum foreldra og fulltrúum nemenda í grunnskólanum. Verkefna- og ritstjóri stefnunnar var Guðlaug Einarsdóttir og faglegur ráðgjafi dr. Ingvar Sigurgeirsson. Til að fá fram sjónarmið allra hagaðila voru haldnir upplýsinga- og vinnufundir með nemendum og starfsfólki sem og íbúaþing um stefnuna. Skipuð var ritnefnd sem samanstóð af verkefnastjóra og skólastýrum beggja skólanna.

Vinnuhópurinn hefur lokið störfum og er skólastefnan lögð fram til samþykktar.

Nefndin þakkar ritstjóra, faglegum ráðgjafa, vinnuhópnum og öðrum sem komu að gerð skólastefnunnar kærlega fyrir góða vinnu.

Stefnan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Sviðsstjóra er falið að leggja lokahönd á vinnuskjalið samkvæmt þeim ábendingum sem komu fram á nefndarfundinum og koma skólastefnunni í birtingahæft form á vef Sveitarfélagsins Ölfus.
7. 2309032 - Greining á úrræðum í stigskiptri þjónustu við börn
Ósk kom frá Barna og fjölskyldustofu um greiningu á úrræðum innan sveitarfélaga samkvæmt stigskiptingu nýrrar löggjafar um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Lög nr. 86/2021 um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi 1. janúar 2022 og í lögunum kemur fram að þjónusta í þágu farsældar barna verði veitt í þremur þjónustustigum. Greiningunni er ætlað að ná til allra úrræða fyrir börn og foreldra þeirra innan velferðar- og skólaþjónustu og heilsugæslu.

Hér má sjá greiningu á úrræðum hjá Sveitarfélaginu Ölfusi sem eru flokkuð eftir stigskiptri þjónustu í samráði við fulltrúa þjónustueininga í Ölfusi. Sviðsstjóri leiddi vinnuna og samráðið. Samráð var haft við deildarstjóra velferðarþjónustu, skólastjóra og hjúkrunarfræðing á heilsugæslu HSu í Þorlákshöfn.


Nefndin þakkir fyrir kynninguna.

Skólastjórnendur og áheyrnafulltrúar viku af fundi.
8. 2309034 - Dagforeldrar í Ölfusi - staða mála
Fyrir fundinum lá minnisblað sviðsstjóra um stöðu dagforeldrakerfisins í Þorlákshöfn. Þar kemur ma. fram að dagforeldrar í Ölfusi hafi ákveðið að hætta störfum um mánaðarmótin mars/apríl 2024. Þá lá einnig fyrir bréf frá nokkrum foreldrum þar sem þeir lýsa áhyggjum af stöðu mála og óska eftir umbótaáætlun frá bæjaryfirvöldum.


Nefndin þakkar minnisblaðið og tekur undir þá aðgerðaáætlun sem þar kemur fram. Bent er á að þjónusta dagforeldra er ekki á vegum sveitarfélagsins og því mikilvægt að virða sjálfstæði þeirra sem rekstraraðila í samkeppnisumhverfi. Eftir sem áður er nefndin meðvituð um mikilvægi þess að stuðla að því að þjónuta dagforeldra sé í boði og telur þær tillögur sem fram koma í minnisblaðinu líklegar til að hvetja einstaklinga til að hefja störf sem dagforeldrar.

Með fyrirvara um samþykki bæjarráðs og/eða bæjarstjórnar um viðauka vegna tilgreinds kostnaðar felur nefndin því sviðsstjóra:
- að auglýsa eftir dagforeldrum til starfa í október.
- að bjóða stofnstyrk kr. 300.000 til þeirra dagforeldra sem eru tilbúin að hefja starfsemi í Þorlákshöfn/Ölfusi.
- að aðstoða við að setja upp öryggishnapp á kostnað sveitarfélagsins.
- að hvetja einstaklinga til að starfa sem dagforeldrar og um leið að auka þjónustu til foreldra/forráðamanna.
- að leita leiða, ef á þarf að halda, til að finna hentugt húsnæði fyrir starfsemina.
- að hækka framfærslu (heimagreiðslur) til foreldra í kr. 100.000 á mánuði.
- að auka niðurgreiðslu á þjónustu dagforeldra.
Mál til kynningar
9. 2309038 - Íþróttavika Evrópu - dagskrá í Ölfusi
Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) er haldin 23. - 30. september ár hvert í yfir 30 Evrópulöndum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur hlotið styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Erasmus styrkjakerfið til verkefna sem munu tengjast vikunni. Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings.

Íþrótta og tómstundafulltrúi ásamt sviðsstjóra fjölskyldu og fræðslusviðs lögðu fram drög að dagskrá í Ölfusi og fengu úthlutað styrk frá ÍSÍ allt að 500.000 kr. til að kynna íþróttastarf og möguleika til almennrar hreyfingar í Ölfusi. Sjá meðfylgjandi dagskrá.

Nefndin þakkar ÍSÍ fyrir styrkinn og glæsilega dagskrá sem ölfusingum verður boðið uppá í íþróttaviku Evrópu.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:50 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?