Bæjarstjórn Ölfuss - 331 |
Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
17.05.2024 og hófst hann kl. 16:30 | | Fundinn sátu: Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir 1. varaforseti,
Grétar Ingi Erlendsson bæjarfulltrúi,
Erla Sif Markúsdóttir bæjarfulltrúi,
Hrönn Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson bæjarfulltrúi,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir bæjarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
| | Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri | | | |
| | Dagskrá: | | | | 1. 2404124 - Íbúakosning | |
Erla Sif Markúsdóttir D-lista, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir D-lista, Ása Berglind Hjálmarsdóttir H-lista, Hrönn Guðmundsdóttir B-lista og Grétar Ingi Erlendsson D-lista tóku til máls.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir H-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Meirihlutinn hefur algjörlega brugðist sínu lögbundna hlutverki að gæta að hagsmunum íbúa. Í 103. gr. tíunda kafla sveitarstjórnarlaga kemur fram að “sveitarstjórn [skuli] upplýsa íbúa sína um áætlanir sem sveitarfélag hefur til meðferðar og ákvörðunar og varða þá með almennum hætti. Sama gildir um einstök mál sem hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélagið. Sveitarstjórn skal leitast við að veita íbúum upplýsingar um áhrif slíkra mála og áætlana á þjónustu sveitarfélags til skemmri og lengri tíma, fjárhag sveitarfélagsins, umhverfi og markmið sem að er stefnt?. Enn fremur kemur fram í 107. grein þess sama kafla er varðar íbúakosningu um einstök málefni. ,,Að til atkvæðagreiðslu skv. 1.mgr. skal boða með a.m.k. [20 daga] fyrirvara með opinberri auglýsingu. Samhliða skal sveitarstjórn opinberlega kynna þá tillögu sem borin verður undir atkvæði og þær upplýsingar sem kjósendum eru nauðsynlegar til að geta tekið til hennar upplýsta afstöðu.? Meirihlutinn hefur vanrækt þessa skyldu sína. Tekið meðvitaða ákvörðun um að kynna verkefnið og ólíkar hliðar þess ekki fyrir íbúum. Valið heldur að leyfa forsvarsmönnum Heidelberg að halda ítrekaðar einhliða kynningar sem þjóna hagsmunum þess. Þegar á það var bent af undirritaðri var því mætt af fálæti. Til upprifjunar er hér hluti af bókun undirritaðrar á fundi bæjarráðs þann 4. ágúst 2022. ,,Ég tel að það ætti að vera sjálfsagt mál að íbúar í Sveitarfélaginu Ölfusi fái greinargóða og raunhæfa kynningu á þessu verkefni, bæði á vef sveitarfélagsins og á íbúafundi þar sem þeim gefst kostur á að koma á framfæri spurningum og vangaveltum. Við þessu var ekki brugðist og hefur meirihlutinn ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að fjalla um ólík áhrif þessa verkefnis. Þvert á móti hefur hann fjallað um jákvæðar hliðar þess í nafni einhvers óskiljanlegs hlutleysis. Það er nefnilega ekki nokkur leið að kalla afstöðu meirihlutans hlutlausa. Fulltrúum minnihluta rann því blóðið til skyldunnar. Tók saman fyrirliggjandi gögn, fjallaði um staðreyndir máls út frá gögnum sem liggja í skipulagsgátt, skýrslum, umsögnum og athugasemdum. Með þessa sýn var boðað til opins íbúafundar þar sem fjallað var um aðrar hliðar verkefnisins en þær sem þegar hafa margsinnis komið fram. Fulltrúar meirihlutans sýndu íbúum ekki þá virðingu að mæta á þann opna íbúafund þar sem fjallað var um ólíkar hliðar þessa máls. Fjarvera svo eftir því var tekið. Fulltrúar hafa þó sannarlega látið sjá sig á sölufundum Heidelberg. Telst það vera hlutleysi? Nánast undantekningarlaust þegar mál Heidelberg hefur verið til umræðu hef ég dregið fram í dagsljósið umsagnir, athugasemdir eða gögn úr skýrslum sem snerta á ólíkum hliðum málsins. Fyrir vikið hef ég verið sökuð um að vera að búa til tortryggni, vera neikvæð, koma í veg fyrir uppbyggingu í sveitarfélaginu og gert lítið úr mínum athugasemdum, fyrst og fremst frá bæjarstjóra, Elliða Vignissyni og formanni bæjarráðs, Grétari Inga Erlendssyni en með þöglum stuðningi annarra bæjarfulltrúa úr meirihluta, þeim Erlu Sif Markúsdóttur, Sigurbjörgu Jenný Jónsdóttur og Gesti Þór Kristjánssyni. Nú er nóg komið af þessum vinnubrögðum, við vorum kjörin til að gæta hagsmuna íbúa og samfélagsins hér en ekki erlendra stórfyrirtækja. Gert var fundarhlé kl. 17:45. Fundi fram haldið kl. 18:00
Grétar Ingi Erlendsson lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa D-lista.
Bæjarfulltrúar D-lista vísa enn einni hástemdri og fráleitri fullyrðingu bæjarfulltrúa H-lista frá sem rökleysu. Hið sanna er að af sjö bæjarfulltrúum hefur eingöngu einn barist fyrir ákveðinni niðurstöðu með stuðningi Landverndar og fleiri aðila. Hinir sex hafa treyst bæjarbúum til að mynda sér óháða skoðun án afskipta þeirra. Bæjarfulltrúar D-lista hvetja bæjarfulltrúa H-lista til að vanda málflutning sinn og halda sig við efnisatriði frekar en að saka samstarfsfólk sitt stöðugt um óheilindi og annarlegar hvatir. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að vera svo upptekinn af sjálfum sér að hagsmunir bæjarbúa gleymist.
Erla Sif Markúsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu fyrir hönd bæjarfulltrúa D-lista:
Að kvöldi 15. maí sl. barst bæjarfulltrúum bréf frá Eggerti Kristóferssyni forstjóra First Water. Þar er í fyrsta skipti upplýst um þá afstöðu fyrirtækisins að: „óásættanlegt [sé] að í sömu götu standi til að byggja mölunarverksmiðju sem fer alls ekki saman við matvælaframleiðslu né heldur bygging hafnar á því svæði sem [First Water] er að sækja jarðsjó.“
Fyrir liggur að bæjarstjórn hefur boðað til íbúakosningar á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn. Er þar spurt um það hvort að íbúar vilji samþykkja eða hafna því að samþykktar verði þær deili- og aðalskipulagstillögur sem liggja til grundvallar starfsemi tilgreindrar mölunarverksmiðju sem Heidelberg hyggst starfrækja.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss lýsir furðu sinni á vinnubrögðum fyrirtækisins First Water í því sem lýtur að skipulagsmálum í sveitarfélaginu. Öllum er löngu ljóst að til skoðunar hefur verið að staðsetja starfsemi Heidelberg innan grænna iðngarða á lóð milli landeldisfyrirtækjanna Geo Salmo og Landeldisstöðvarinnar Þór. Fram hefur farið ítarlegur undirbúningur vegna málsins sem í öllu hefur stjórnast af þeim lögum, reglum og hefðum sem gilda skulu um slíkt. Það vandaða ferli skilaði mörgum athugasemdum sem sérstaklega hefur verið brugðist við og svarað. First Water sá sér ekki fært að fylgja vönduðum formlegum verkferlum til að koma rökstuddum ábendingum á framfæri, heldur beið þar til öllu formlegu ferli var lokið með að viðra skoðanir sínar. Tveimur klukkutímum fyrir opinn borgarafund og þremur dögum áður en atkvæðagreiðsla hæfist var lögð fram þriggja málsgreina bréf þar sem fullyrt var um skaðsemi af starfsemi Heidelberg fyrir First Water. Fullyrðingarnar voru með öllu órökstuddar og án nokkurra gagna.
Ekki verður hjá því litið að fullyrðingar First Water ganga algerlega í berhögg við afstöðu Geo Salmo og Landeldisstöðvarinnar Þór sem eru í sömu starfsemi og liggja umtalsvert nær fyrirhugaðri starfsemi Heidelberg, með aðliggjandi lóðamörk. Í samtali við forsvarsmenn Geo Salmo og Landeldisstöðvarinnar Þór hefur komð fram að þeir hafi kynnt sér fyrirhugaða starfsemi Heidelberg afar vel. Bæði hafi þeir fundað með fulltrúum Heidelberg, fengið hjá þeim gögn, falið sérfræðingum sínum að rýna málið og þar fram eftir götunum. Niðurstaða þess var að vænt starfsemi Heidelberg væri ekki skaðleg fyrir landeldisfyrirtæki þeirra.
Í opnu bréfi forstjóra Heidelberg til forstjóra First Water segir hins vegar: „Forsvarsmenn First Water hafa ekki á neinu stigi ferlisins lýst áhyggjum eða sett fram athugasemdir vegna verksmiðjunnar þótt mörg tækifæri og nægur tími hafi verið til þess. Vandséð er því á hvað gögnum afstaða First Water hvílir.“
Bæjarstjórn Ölfuss telur að bréf forstjóra First Water fylli málið allt vafa og óvissu sem ekki verður við unað. Þrátt fyrir ámælisverð vinnubrögð verður ekki hjá því litið að First Water er einn stærsti hagsmunaðilinn í þessu máli. Þar fer aðili sem býr yfir mikilli sérfræðiþekkingu á svæðinu og hefur unnið fjölmargar rannsóknir á náttúrufari þess sem Sveitarfélagið Ölfus og íbúar hafa ekki fengið aðgengi að.
Bent er á að ein af grunnreglum stjórnsýsluréttar er hin svo kallaða rannóknarregla sem hljóðar svo: „Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“
Um leið og bæjarstjórn harmar þá stöðu sem upp er komin í aðdraganda íbúakosninga vegna vinnubragða First Water telur hún mikilvægt að nálgast málið af ábyrgð með heildarhagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Sérstaklega er áríðandi að upplýst verði með fullnægjandi og rökstuddum hætti á hvaða rökum fullyrðingar First Water byggja.
Með það fyrir augum er atkvæðagreiðslu þeirri sem Sveitarfélagið Ölfus boðaði til með auglýsingu 28. apríl sl. á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn frestað. Eftir sem áður stendur óhaggað að áður en heimild verður veitt til byggingar mölunarverksmiðju við svo kallaða Keflavík í Ölfusi verður haldin bindandi atkvæðagreiðsla meðal bæjarbúa.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að kalla tafarlaust eftir fundi með fulltrúum First Water þar sem óskað verður eftir því að fram verði lögð gögn sem styðja þær fullyrðingar sem fram koma í bréfi forstjóra First Water dagsettu 14. maí 2024. Þá verði kallað eftir því að First Water skili inn ítarlegri greinargerð sem útlistar öll þau atriði er tengjast væntri starfsemi Heidelberg sem valdið geta vandvæðum við starfsemi First Water. Þegar slíkt liggi fyrir verði óháðum aðila falið að fara yfir forsendur og skila Sveitarfélaginu Ölfusi mati þar á. Þetta mat ásamt öðrum þeim gögnum sem kunna að berst verði svo kynnt vandlega fyrir bæjarbúum áður en boðað verði til íbúakosninga að nýju.
Á sama hátt er bæjarstjóra falið að eiga samtöl við fulltrúa annarra fyrirtæja sem eru í matvælavinnslu á áhrifasvæðinu til að fá fram á formlegan máta ítrekaða afstöðu þeirra, er þar sérstaklega vísað til Geo Salmo og Landeldisstövarinnar Þór.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd H-lista og Hrannar Guðmundsdóttur B-lista:
Meirihlutinn, með bæjarstjórann í fararbroddi, hefur talað fyrir kostum grjótmulnings verksmiðju Heidelberg í Þorlákshöfn og látið það kyrrt liggja að auðvelda aðgengi almennings að öðrum upplýsingum um málið sem snerta hagsmuni íbúa, umhverfis og annarra hagsmunaaðila. Nú þegar tvísýnt er að verkefnið nái framgangi í bindandi íbúakosningu sem sveitarfélagið boðaði til og á að hefjast eftir innan við sólarhring, á að fresta kosningunni og taka þannig lýðræðislegan rétt af íbúum í Ölfusi.
Með þessu er ljóst að meirihlutinn ber enga virðingu fyrir lýðræðinu og treystir ekki íbúum til að mynda sér skoðun á verkefninu. Það hafa engar forsendur breyst. Það sjónarmið hefur alltaf verið á lofti að fyrirætlanir Heidelberg um stórfellda námuvinnslu fari ekki saman með hreinni matvælaframleiðslu sem sveitarfélagið hefur haft sem stefnu í áraraðir. Það að fyrirtækið First Water hafi þurft að stíga fram með þessum hætti og benda á það augljósa breytir engu um fyrirhugaðar kosningar.
Það var einnig ljóst þegar tekin var ákvörðun um að boða til bindandi kosninga að skipulagsferli verkefnisins var ekki lokið og fyrirséð að nýjar upplýsingar myndu líta dagsins ljós. Það kom ekki í veg fyrir að boðað yrði til kosninga og það að nýjar upplýsingar komi fram á heldur ekki að koma í veg fyrir að framfylgja boðuðum kosningum. Þetta mál er algjör áfellisdómur yfir vinnubrögðum meirihlutans sem standa ekki undir þeirri ábyrgð sem þeim er falin með því að starfa fyrir hagsmuni almennings sem kjörnir fulltrúar, kosnir af íbúum en ekki fyrirtækjum. Þessi meirihluti er fullkomlega óhæfur.
Formaður bæjarráðs sagði í útvarpsviðtali daginn sem bréfið kom fram 15. maí s.l.: ,,Ég treysti þeim fullkomlega til að vega og meta gögnin og kjósa eftir sinni sannfæringu?. Það á greinilega ekki lengur við, þið treystið ekki íbúum til að hafa vit fyrir sjálfum sér.
Gert var fundarhlé kl. 18:15. Fundi fram haldið kl.18:40.
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa D-lista:
Bæjarfulltrúar D-lista ítreka það sem komið hefur fram. Af sjö fulltrúum hafa sex þeirra hvergi lýst sig fylgjandi né andvíg tilkomu mölunarverksmiðju. Á því er ekki fyrirhugað að gera breytingu. Að halda öðru fram er ekki í takt við neinn veruleika. Það að að stíga ekki á vagn H-listans sem beitt er til sóknar gegn fyrirhuguðum framkvæmdum Heidelberg er ekki og verður ekki séð sem afstaða. Undirrituð hvetja bæjarfulltrúa H-lista, sem titlað hefur sig oddvita minnihlutans, til að gæta að yfirvegun og sanngirni í málflutningi sínum, og þá ekki síst gagnvart samtarfsfólki sínu. Ekki verður hjá því horft að ákveðins yfirlætis gætir hjá tveimur af þremur bæjarfulltrúum minnihlutans þegar þeir telja sig hafa einhverjar upplýsingar um þann vilja sem mun koma fram í væntanlegri atkvæðagreiðslu. Svo mikið er víst að bæjarfulltrúar D-lista geta ekkert fullyrt um niðurstöðuna. Þeir hafa hvergi lýst afstöðu og því fráleitt að halda því fram að þeir óttist niðurstöðu ef kosið yrði núna. Furðu vekur að halda því fram að það að vilja upplýsa bæjarbúa um andstöðu stærsta hagaðila við fyrirhugaða framkvæmd á upplýstan og rökstuddan máta geti talist til marks um skort á trausti á bæjarbúum. Skýrt kemur fram í framkominni tillögu að þrátt fyrir þá skyldu bæjarfulltrúa að vinna eftir viðurkenndum stjórnsýslureglum stendur eftir sem áður óhaggað að áður en heimild verður veitt til byggingar mölunarverksmiðju við svo kallaða Keflavík í Ölfusi verður haldin bindandi atkvæðagreiðsla meðal bæjarbúa. Án þess að ætla að leiðrétta öll þau rangindi sem haldið er fram í bókun tveggja af þremur bæjarfulltrúum minnihlutans vilja bæjarfulltrúar D-lista leiðrétta þá fullyrðingu að það sem snýr að íbúakosningu sé ekki lokið. Bæjarfulltrúunum til upplýsinga þá er spurt um aðal- og deiliskipulag og ferli hvorutveggja er lokið. Umrætt bréf First Water tengist einmitt því ferli. Allt tal um vanhæfni verður hjákátlegt þegar litið er til árangurs frá því að D-listi tók við. Allir mælikvarðar, fjárhagslegir, íbúaþróun, fjölgun fyrirtækja og annað bendir til hins gagnstæða.
Elliði Vignisson lagði fram eftirfarandi bókun:
Á fundinum hefur verið upplýst að kl. 17:43, 15.maí sl. hafi bæjarfulltrúum og bæjarstjóra borist tölvupóstur frá Eggerti Kristóferssyni forstjóra First Water ásamt viðhengi. Tölvupósturinn endar á þessum orðum: „Þessi tölvupóstur er eingöngu ætlaður þeim sem hann er stílaður á“. Eftir sem áður las bæjarfulltrúinn Ása Berglind meðfylgjandi skjal upp á opnum fundi rétt um tveimur tímum síðar. Daginn eftir mátti síðan sjá umrætt bréf í fjölmiðlum, ekki einungis texta þess, heldur bréfið sjálft. Trúnaður er einn af grundvallarþáttum í starfi bæjarfulltrúa. Þannig segir í 19. grein samþykktar um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss: „Bæjarfulltrúar skulu gæta trúnaðar um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi“
Á fundinum hafa 6 af þeim átta sem höfðu bréfið undir höndum greint frá því að þeir hafi ekki lekið trúnaðargagni í fjölmiðla, þetta er þau: Gestur Þór (D), Grétar Ingi (D), Erla Sif (D), Sigurbjörg Jenný (D) og Vilhjálmur Baldur (B). Ása Berglind og Hrönn hafa ekki veitt svör. Á fundinum hefur bæjarstjóri þráspurt tveggja spurninga: 1. Hafði bæjarfulltrúinn Ása Berglind heimild bréfritara til að lesa tilgreint bréf á opna fundinum? 2. Hver bæjarfulltrúa sendi tilgreint bréf á fjölmiðla.
Undirritaður ítrekar beiðni um að svör verði veitt við þeim spurningum sem fram hafa komið. Verði ekki svör veitt verður að kalla eftir því frá bréfritara sjálfum hvort hann veitti heimild til að bréfið yrði lesið upp og hvort að hann hafi sent bréfið á fjölmiðla.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir H-lista lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd H-lista og Hrannar Guðmundsdóttur B-lista:
Hér er verið að bera á okkur sakir um að brjóta trúnað, bréfið var ekki trúnaðarskjal, ég hef fengið það staðfest hjá lögfræðingi og eins og áður hefur komið fram var höfundur bréfsins meðvitaður um að það yrði gert opinbert. Bréfið frá First Water var sent á alla bæjarfulltrúa og er afar mikilvægt gagn fyrir lýðræðislega umræðu fyrir komandi íbúakosningu, eins og komið hefur í ljós. Þessi umræða um bréfið sýnir svart á hvítu þá leyndarhyggju sem meirihlutinn hefur viðhaft í þessu máli og ekki síður vilja hans til að halda mikilvægum gögnum frá bæjarbúum og reyna þannig að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu.
Auk þess ætlar Ása Berglind að bera af sér þær sakir sem á hana eru settar, að hún hafi titlað sig sem oddvita minnihlutans, það hefur hún aldrei gert.
Fundarhlé var gert kl.18:50. Fundi fram haldið 19:05.
Elliði Vignisson lagði fram eftirfarandi bókun:
Nú þegar 5 af 7 bæjarfulltrúum hafa svarið af sér að hafa lekið trúnaðargögnum gengst bæjarfulltrúinn Ása Berglind fyrst við því að hafa lekið gögnum sem send eru í tölvupósti með orðnunum: „Þessi tölvupóstur er eingöngu ætlaður þeim sem hann er stílaður á“ til fjölmiðla og lesið þau upp á opnum fundi án heimildar bréfritara. Til að bíta höfuðið af skömminni telur hún kröfu um að hún eins og aðrir upplýsi um meðferð trúnaðargagna til marks um leyndarhyggju.
Aum eru þau rök að gögn send með pósti þar sem segir: „Þessi tölvupóstur er eingöngu ætlaður þeim sem hann er stílaður á“ séu ekki trúnaðargögn, gildir þar einu hvort lögfræðingur, smiður eða læknir heldur því fram.
Öllum mátti ljóst vera að umrædd trúnaðargögn þyrfti að ræða og gera opinber í gegnum viðurkenndar leiðir í lýðræðislegu starfi, sem sagt á fundi bæjarstjórnar. Það er ótækt að ekki sé hægt að umgangast trúnaðrgögn sem slík. Með því er samstarfsfólk svipt sjálfsögðum rétti til að vega þau og meta áður en það þarf að tjá sig um þau, jafnvel á opinberum vettvangi.
Tillagan sem Erla Sif lagði fram var sett í atkvæðagreiðslu og samþykkt með 4 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista. Hrönn Guðmundsdóttir B-lista og Ása Berglind Hjálmarsdóttir H-lista greiddu atkvæði á móti. Vilhjálmur Baldur Guðmundsson B-lista sat hjá.
| | |
|
| | Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:10 |
|