Fundargerðir

Til bakaPrenta
Skipulags- og umhverfisnefnd - 39

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
19.10.2022 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Geir Höskuldsson formaður,
Hjörtur S. Ragnarsson varaformaður,
Margrét Polly Hansen Hauksdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi.
Fundargerð ritaði: Gunnlaugur Jónasson, skipulagsfulltrúi
Í upphafi fundar lagði formaður til að tvö mál yrðu tekin á dagskrá með afbrigðum. Það eru mál nr. 14 og 15. sem fjallar um skýrslu sem heitir: Áætlun um loftgæði á Íslandi og mál nr. 15 sem fjallar um deiliskipulagsbreytingu. Var samþykkt samhljóða að málin yrðu tekin fyrir á fundinum.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2209042 - Kynning á hleðslulausnum og fyrirkomulagi á nýrri hleðslustöðvarlóð
Fulltrúar fyrirtækisins RST Net ehf kynna áform sín á lóðinni Óseyrarbraut 17 í upphafi fundar. Lóðina fékk fyrirtækið nýlega vilyrði fyrir hjá sveitarfélaginu. Þar hyggjast þeir reisa öflugar hleðslustöðvar þar sem hlaða má stærri farartæki.
Afgreiðsla: Nefndin þakkar kynninguna.
2. 2210011 - Miðbær Þorlákshafnar - kynning á hugmyndum
Forsvarsmenn fyrir Framkvæmdafélagið Arnarhvol kynna hugmyndir um uppbyggingu í miðbæ Þorlákshafnar.
Afgreiðsla: Nefndin þakkar kynninguna.
3. 2208052 - Skálholtsbraut - lækkun hámarkshraða - þrengingar og bílastæði
Á síðasta fundi nefndarinnar var samþykkt að kynna tillögu að þrengingum og breyttu fyrirkomulagi bílastæða við Skálholtsbraut fyrir íbúum með fresti til athugasemda.
Komið hafa jákvæð viðbrögð frá nokkrum íbúum en athugasemdir komu frá 7 íbúum í 4 af þeim 10 húsum sem eru með innkeyrslu frá götunni á framkvæmdasvæðinu.

Til að nefna eitthvað af því sem íbúarnir benda á þá er það meðal annars að með framkvæmdinni væri verið að beina umferð að börnum sem kæmu út úr göngustíg sem er milli Skálholtsbrautar 11 og 13, því þrenging nærri Reykjabraut snéri þannig að hún beindi umferð að stígnum.
Einnig væru bílastæði færð til og þar með þrengt að íbúum því bifreiðastæðin væru færð nær húsunum vestan Skálholtsbrautar en verið hefur.
Þar fyrir utan telja einhverjir af þeim sem gera athugasemdir að hefðbundnar hraðahindranir með upphækkun væru vænlegri til árangurs og öruggari en þrengingar eins og hér er stefnt að auk þess sem bent er á að gangstéttin við götuna væri mjórri en annars staðar í bænum sem bætti ekki ástandið.
Bent er á að nær væri að taka grasröndina handan við götuna undir bifreiðastæði því þar séu einungis fjórar innkeyrslur.

Flestir fagna því að lækka eigi umferðarhraðann í götunni.

Rétt að benda á að í tillögunni hefðbundin upphækkun/hraðahindrun í fyrstu þrengingunni sem er næst Selvogsbraut.

Afgreiðsla: Samþykkt að framkvæmdin verði eins og fram kemur í tillögu í viðhengi þar sem tekið hefur verið tillit til athugasemda. Þrengingu við Reykjabraut hefur m.a. verið snúið 180° og bifreiðastæði færð yfir götuna þannig að nú eru öll bifreiðastæði austan götunnar.
4. 2210005 - DSK Deiliskipulag í landi Eimu i Selvogi
Borist hefur tillaga að deiliskipulagi frá eigendum jarðarinnar Eimu í Selvogi. Landið er á milli Selvogsvegar og Suðurstrandarvegar og er innan svæðis sem er Hverfisverndað í nýju aðalskipulagi. Samkvæmt tillögunni mætti byggja 6 íbúðarhús, 3 gestahús og 3 frístundahús á svæðinu sem er um 28 hektarar.
Samkvæmt tillögu að nýju aðalskipulagi er heimilt á landi sem er yfir 3 hektarar að deiliskipuleggja fyrir fjögur íbúðarhús og fjögur frístundahús og t.d. skemmu, gróðurhús, gripahús og önnur hús til landbúnaðarnota. Þær heimildir sem beðið er um eru rýmri en þær sem gilda, bæði í eldra aðalskipulagi, sem landeigandinn virðist horfa til sem og í nýju aðalskipulagi.

Áður hefur verði fjallað um tillögu á þessu svæði í nefndinni og þá var málinu vísað til nefndar um heildarendurskoðun aðalskipulags sem bókaði eftirfarandi:

Inngangur nefndar um heildarendurskoðun aðalskipulags: Á síðasta fundi nefndarinnar var málinu frestað. SU bókaði á 24. fundi: Eima - frístundabyggð í nýju aðalskipulagi - 2109003. Landeigandi óskar eftir því að í landi hans, Eimu við Selvog verði sýnt svæði fyrir frístundabyggð í nýju aðalskipulagi sem er í vinnslu hjá sveitarfélaginu um þessar mundir. Afgreiðsla: Málinu vísað til nefndar um heildarendurskoðun aðalskipulags. Vísað til nefndar." Þess má geta að landið sem um ræðir er hverfisverndað og komið hafa fram hugmyndir að koma á byggðaverndun á svæðinu. Segja má að byggðamynstrið á svæðinu sé að það sé strjálbýlt og ekki séu þyrpingar af húsum.
Niðurstaða nefndar: Svæðið er hverfisverndað og það er stefna sveitarfélagsins að unnið verði deiliskipulag af öllu svæðinu áður en frekari uppbygging verði leyfð.

Afgreiðsla: Synjað. Nefndin ítrekar fyrri niðurstöðu nefndar um heildarendurskoðun aðalskipulags. Svæðið er hverfisverndað og það er stefna sveitarfélagsins að unnið verði deiliskipulag af öllu svæðinu áður en frekari uppbygging verði leyfð. Að auki bendir nefndi á að sú útbygging sem óskað er eftir sé umfram heimildir aðalskipulags.

Nefndin telur ákjósanlegra að á svæðinu verði deiliskipulagt fyrir 4 stök frístundahús sem yrðu á sérlóðum í samræmi við heimildir í tillögu að nýju aðalskipulagi en samkvæmt henni má byggja 4 frístundhús á landi af þeirri stærð sem hér um ræðir.
5. 2210012 - DSK Raufarhólshellir - breyting á deiliskipulagi
Guðmundur Oddur Vífilsson leggur fram deiliskipulagsbreytingu á deiliskipulagi Raufarhólshellis þar sem gert er ráð fyrir nýjum byggingarreit fyrir þjónustubyggingu. Starfsemin á svæðinu hefur sprengt eldri þjónustubyggingu af sér og er gert ráð fyrir nýrri og reisulegri þjónustubyggingu. Í nýju aðalskipulagi segir eftirfarandi um svæðið:

"Í gildi er deiliskipulag á svæðinu. Þar er gert ráð fyrir aðkomu, bílastæðum, þjónustubyggingu fyrir móttöku gesta, aðstöðu fyrir starfsfólk og mannvirki í hellinum til að bæta aðgengi og öryggi."

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. grein skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br. enda liggi heimild landeiganda fyrir lóðastækkun fyrir.
6. 2209018 - Lækur II lóð C, Umsókn um breytingu á deiliskipulagi sem óverulegt frávik.
Eigandi lóðarinnar Lækur II lóð C sendir nefndinni aftur erindi þar sem hann áréttar að nefndin samþykki erindi sitt um tilfærslu á byggingarreit sem óverulega breytingu á deiliskipulagi en samþykktin verði skilyrt um að vatnslögn sem er á svæðinu verði fundin og að tryggt að hún verði utan við fyrirhugaða byggingarreiti og að lögnin verði teiknuð inn á deiliskipulagið.
Afgreiðsla: Synjað. Nefndin fellst ekki á að um sé að ræða óverulega breytingu að færa hús að lóðamörkum eins og sótt er um.
Málið er tekið fyrir í öðrum lið sem hefðbundin deiliskipulagsbreyting sem fer í kynningu til lögboðinna umsagnaraðila.
7. 2209028 - Umsókn um að Hrísar verði utan íbúðasvæðisins í Árbænum
Landeigandi óskar eftir því að lóð hans Hrísar í Árbænum verði eftirleiðis utan íbúðasvæðisins í Árbænum. Nýlega var samþykkt svipað erindi fyrir lóðina Árblik og eigendum heimilað að færa hana út fyrir svæðið með skipulagsgerð.
Afgreiðsla: Landeigendum er heimilt að láta breyta aðalskipulagi í samræmi við 1. málsgr. 36. gr. skipulagslaga, þannig að lóðin þeirra tilheyri landbúnaðarsvæði en ekki íbúðarsvæði.
8. 2209029 - Hafnarnes Ver - útkeyrsla inn á Þorláksvör
Sótt er um að setja útkeyrslu inn á Þorláksvör frá athafnasvæði Hafnarnes Ver af lóð fyrirtækisins. Þetta yrði til að bæta öryggi en flutningabílar eru orðnir mjög langir og eiga erfitt með að athafna sig eins og segir í erindi frá fyrirtækinu.
Afgreiðsla: Samþykkt
9. 2210013 - Geo Salmo stofnun lóðar fyrir fiskeldisstöð austan Keflavíkur
Óskað er eftir heimildum til að stofna lóð fyrir fiskeldisstöð Geo Salmo austan Keflavíkur. Svæðið sem stöðin er á landi sem er skilgreint sem iðnaðarsvæði i nýju aðalskipulagi.
Afgreiðsla: Nefndin heimilar stofnun lóðarinnar þegar hún hefur fengið staðfestingu í skipulagi.
10. 2210020 - Nafnabreyting Hrókabólsvegur 1
Landeigandi óskar eftir að húsið sem stendur á lóðinni Hrókabólsvegur 1 heiti Rosenból.
Afgreiðsla: Samþykkt.
Margrét Polly vék af fundi meðan á afgreiðslu málsins stóð
11. 2210009 - Hjarðarból - umsókn um stöðuleyfi - gámur með vindhverfli
Fyrirtækið Sidewind óskar eftir stöðuleyfi fyrir gámi með vindhverfli í landi Hjarðarbóls. Um nýsköpunarverkefni er að ræða og vilja aðstandendur láta á það reyna hvernig vindhverfillinn stendur sig við raunverulegar aðstæður.
Afgreiðsla: Stöðuleyfi samþykkt til eins árs.
12. 2209013 - Skipun faghóps um uppbyggingu á lóðum Heidelberg Cement Pozzolinic ehf
Málinu var frestað á síðasta fundi nefndarinnar og þá var eftirfarandi bókað:
Í tillögu Grétars Inga Erlendssonar sem var samþykkt á síðasta bæjarstjórnarfundi var lagt til að skipulags- og umhverfisnefnd verði falið að skipa faghóp með arkitekt, verkfræðing og fl. sem tryggja skuli að ekki verði gefinn afsláttur af útliti og eðli mannvirkja sem rísa á hafnarsvæðinu. Hæð þeirra, útlit og annað fyrirkomulag skal í öllum tilvikum taka mið af nálægð við íbúabyggðina og að ef mannvirkin rísi þá verði það til að efla samfélagið en ekki skaða það. Hæð þeirra, útlit og annað fyrirkomulag skal í öllum tilvikum taka mið af nálægð við íbúabyggðina.

Komi til þess að skipulagi verði breytt við vinnslu málsins verða slíkar kröfur að minnsta kosti þær sömu og eru í skipulagi hafnarsvæðisins.

Lagt er til að Kristín Snorradóttir skrúðgarðyrkjumeistari, Hlín Sverrisdóttir landslagsarkitekt, skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins Gunnlaugur Jónasson, arkitekt MBA,
Sigurður Áss Grétarsson verkfræðingur og ráðgjafi sveitarfélagsins um hafnarsvæðið og
Páll Jakob Líndal eigandi TGJ-arkitekta og sérfræðingur í sálfræðilegum áhrifum umhverfis á heilsu á vellíðan íbúa verði skipaðir í hópinn.

Í viðhengi er mynd af sorpbrennslustöð í Kaupmannahöfn sem líka þjónar sem sleða/skíðabrekka.

Afgreiðsla síðasta fundar - fundar 38: Frestað. Nefndin stefnir að því að jafna kynjahlutfall með því að fjölga í hópnum og taka málið upp á næsta fundi.

Afgreiðsla: Frestað til næsta fundar þar sem ekki náðist í einn mögulegan nefndarmeðlim.
13. 2209043 - Umsögn um skipulagslýsingu vegna aðalskipulagsbreytingar - Vatnsendahvarf - Vatnsendahæð
Skipulagsfulltrúi Kópavogs óskar eftir umsögn sveitarfélagsins um skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðalskipulagi Kópavogs.
Afgreiðsla: Nefndin telur að lýsingin gefi góða mynd af verkefninu og gerir ekki neinar athugasemdir.
14. 2210025 - Áætlun um loftgæði á Íslandi
Umhverfisstofnun hefur sent sveitarfélaginu drög að áætlun um loftgæði á Íslandi 2017-2029 - Hreint loft til framtíðar. Hún er unnin samkvæmt tilskipun EB 2008/50/EB um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu. Þessi tilskipun var innleidd hér á landi með lögum nr. 144/2013 um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Áætlunin á að gefa út til 12 ára í senn og skal áætlunin gilda fyrir allt landið. Þá skal endurskoða áætlunina á fjögurra ára fresti. Umhverfisstofnun mun vinna tillögu að nýrri áætlun í samvinnu við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og aðra haghafa og leggja fyrir ráðherra.

Afgreiðsla: Nefndin skipar Hjört Ragnarsson, Hrönn Guðmundsdóttur og Gunnlaug Jónasson i hóp sem mun rýna áætlunina og leggja tillögu fyrir bæjarstjórn i nafni nefndarinnar.
15. 2210027 - Lækur II lóð C deiliskipulagsbreyting
Sótt er um að breyta deiliskipulagi lóðarinnar Lækur II lóð C.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. grein skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br.
Nefndin áréttar að vatnslögn vatnsveitu Hjallasóknar og kvöð um hana verði færð inn á skipulagsuppdráttinn. Kvöðin kveði á um aðgengi að lögninni til að þjónusta hana. Samkvæmt venju eru byggingarreitir í dreifbýli 10 m frá lóðarmörkum. Því þarf skriflegt samþykki nágrannalóðar að liggja fyrir.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:45 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?