Félagsleg heimaþjónusta - fyrirkomulag er varðar aðstoð við heimilisþrif

Undanfarna mánuði hefur verið mjög erfitt að fá fólk til starfa í heimaþjónustu Ölfuss og auglýsingar til starfa hafa ekki borið árangur. Því miður hefur það bitnað á þjónustu við eldri borgara. Sumarið 2023 var því fyrirtækið Ræstingaland fengið til að leysa af á orlofstíma starfsmanna. Það reyndist vel og var fyrirtækið fengið aftur sumarið 2024. Í haust hefur staðan verið þannig að enginn starfsmaður hefur fengist í aðstoð við heimaþrif í heimaþjónustunni og því var ákveðið að semja tímabundið við Ræstingaland um áframhaldandi þjónustu.

Í dag er verið að þjónusta um 40 heimili við þrifaaðstoð aðra hverja viku. Fyrirkomulagið er þannig að Ræstingaland útvegar starfsmenn sem þjónusta notendur. Fyrirtækið skaffar öll efni, tuskur og áhöld og skipuleggur þrifin. Fyrir þetta greiðir sveitarfélagið. Þann tíma sem Ræstingaland hefur sinnt þrifum hefur þjónustan verið til fyrirmyndar, starfsmenn þeirra alúðlegir og flestir þjónustuþegar ánægðir.

Á fundi bæjarráðs þann 7. nóvember síðastliðinn var lagt fyrir minnisblað frá forstöðumanni og sviðsstjóra um fyrirkomulag er varðar aðstoð við heimilisþrif í Ölfusi. Að fenginni reynslu og með hliðsjón af ánægju eldri borgara samþykkti bæjarráð að fela sviðsstjóra að gera langtímasamning við hreingerningafyrirtæki.

Samkvæmt innkaupareglum Sveitarfélagsins Ölfuss var lagt upp með verð og þjónustukönnun enda mikilvægt að innkaup séu gagnsæ og í samræmi við vandaða stjórnsýslu. Fjögur fyrirtæki skiluðu inn skriflegum tilboðum. Tilboðin voru metin útfrá þjónustu og hagkvæmni. Ákveðið var að ganga til samninga við Hreingerningaþjónustuna Okkar Þrif. Engum starfsmönnum sveitarfélagsins er sagt upp störfum vegna þessara samninga þar sem enginn þeirra starfar við heimilisþrif eins og staðan er núna.

Stefna sveitarfélagsins er að halda stöðugt áfram að bæta þjónustu sína. Til marks um það þá voru 12 þjónustuþegar á bak við hvert stöðugildi í heimaþjónustu árið 2018. Í dag eru 5,33% þjónustuþegar á bak við hvert stöðugildi. Þjónustan hefur því vaxið um 55,6%. Von og trú sveitarfélagsins er að með ofangreindum breytingum megi taka enn eitt skrefið í átt að aukinni velferð fyrir eldri borgara.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?