Síðastliðinn þriðjudag kom upp fuglainflúensusmit í alifuglabúi í Ölfusi. Í kjölfarið var skilgreint svokallað takmörkunarsvæði í 10 km. radíus í kringum viðkomandi bú. Takmörkunarsvæðið má sjá á kortasjá Matvælastofnunar https://landupplysingar.mast.is/ með því að haka við „Fuglainflúensa“ undir flipanum „Sjúkdómar“.
Mjög mikilvægt er að almenningur, og þá sér í lagi íbúar í nágrenni búsins, sé meðvitaður um þær takmarkanir sem hafa verið settar en nú hefur verið lagt bann við flutningi fugla og annars sem borið getur smit út af fuglabúum. Jafnframt hefur starfsfólki sem búa á því svæði verið gefin fyrirmæli um að vera vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í fuglum á búunum og tilkynna til Matvælastofnunar ef það hefur minnsta grun um sýkingu. Aðrir fuglaeigendur eru einnig beðnir um að vera vel á verði og hafa samband við Matvælastofnun í síma 861-7419 án tafar verði þeir varir við einkenni sem geta bent til fuglainflúensu.