Þann 29. júní eru liðin 35 ár frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Af því tilefni efndu ýmis félagasamtök og stofnanir til hátíðardagskrár sem var haldin í Reykjavík sunnudaginn 28. júní. Í tengslum við þessi tímamót voru sveitarfélögin í samstarfi við skógræktarfélögin á hverjum stað hvött til að gróðursetja með táknrænum hætti líkt og Vigdís gerði í forsetatíð sinni.
Gróðursettar voru þrjár fallegar birkiplöntur af Emblukyni í Skýjaborgum, lundi Lionsklúbbs Þorlákshafnar í blíðskaparveðri laugardaginn 27. júní. Vandað var til verks og plöntunum valinn skjólgóður staður í lundinum inn í lúpínubreiðu, nestaðar með hrossaskít. Lúpínan sér svo um að viðhalda næringarstöðu plantnanna.
Gróðursetningin fór þannig fram að meðal þátttakenda voru piltur og stúlka og svo fulltrúi framtíðarinnar sem aðstoðuðu við gróðursetninguna. Ívar Þór Sigurðsson og Hafdís Þöll Berglindardóttir voru fulltrúar kynjanna og svo Anna Björg Níelsdóttir formaður skipulags og umhverfisnefndar sem fulltrúi framtíðarinnar.