Viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 2024 - Látum eitthvað gerast, jafnrétti er ákvörðun, var haldin við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Háskóla Ísland þann 10. október sl. Sveitarfélagið Ölfus hlaut viðurkenningu annað árið í röð og var eitt af 15 sveitarfélögum sem hana hlutu. Að auki fengu 22 stofnanir og 93 fyrirtæki viðurkenningu.
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) og er viðurkenningin veitt fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. Í ár voru 130 viðkenningarhafar úr hópi þeirra 247 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu um að jafna kynjahlutfall og er markmið Jafnvægisvogarinnar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnunarlagi.
Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði sem er ætlað að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Þannig er hægt að tryggja aðhald og sýna stöðuna eins og hún er hverju sinni. Í mælaborði Jafnvægisvogarinnar koma fram allar helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, svo sem kynjahlutföll stofnenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra og stjórna. Þar má einnig finna upplýsingar um kynjahlutföll við brautskráningar úr háskólum, stöðu kynjanna innan atvinnugreina og GemmuQ kynjakvarðann fyrir skráð félög á markaði. Í mælaborðinu sem að Creditinfo, Deloitte og Jafnvægisvogarráðið hafa þróað eru upplýsingarnar gerðar aðgengilegar á einfaldan og skýran hátt.
Slóðin á mælaborðið er hér https://www.fka.is/verkefni/jafnvaegisvogin/maelabord